Leikhúsgaldur!
Það er eins og þeir hrúgist að manni í upphafi þessa leikárs, einræðisherrar hversdagins: Róbert sjómaður fer mikinn á Nýja sviði Borgarleikhússins í Sendingu eftir Bjarna Jónsson og einn af forverum hans, hafnarverkamaðurinn Eddie í Horft frá brúnni fer ekki síðri hamförum á stóra sviði Þjóðleikhússins í Horft frá brúnni eftir Arthur Miller. Það er eins og þeir eigi sameiginlegt sjálft Atlantshafið sem þó skilur þá að – Róbert rær til fiskjar í því hafi sem ber fleyin til hafnar í Brooklyn þar sem Eddie skipar uppúr þeim … það er eins og feðraveldið sé alls staðar og allt um kring og hafi slegið eignarhaldi á sjálft hafið líka … Eru þetta samantekin ráð hjá leikhúsunum? Eða er þetta eitthvert tímanna tákn – eru íslensku stofnanaleikhúsin að efna til lokauppgjörs við föðurinn í sjálfu feðraveldinu?
Hvað sem því líður, þá er forvitnilegt að bera þá saman, þessa feðraveldisfulltrúa ólíkra tíma og það ku vera von á þeim fleirum á sviðum íslensks atvinnuleikhúss í vetur. En látum slíkan samanburð leikhúsgestum eftir (í bili að minnsta kosti) og snúum okkur að efni þessarar gagnrýni: Horft frá brúnni, eins og hún birtist þeim sem hér skrifar á aðalæfingu, daginn fyrir frumsýningu. Horft frá brúnni, en ekki af eins og við þekkjum af fyrri uppfærslum – hér er notuð ný þýðing Sigurðar Pálssonar og forsetningin “frá” vekur margræðar hugrenningar sem hæfa þessari uppfærslu Stefans Metz – málfarið er hæfilega gamaldags til að tengja við sjötta áratuginn en jafnframt er það lipurt talmál sem fer yfirleitt vel í munni leikara.
Þegar sýningin hefst birtist titill verksins á fortjaldinu, hannaður í dæmigerðum film noir-stíl – hverfull, sundurleitur, margþættur; yfirgnæfandi sjötta áratugar spennutónlist hljómar og þar með er takturinn sleginn fyrir áferð sýningarinnar allt til enda: nú tekur við myrk saga í þess orðs bókstaflegu merkingu og sú áferð á sér stoð í texta verksins: sýningin er “… eins og op ofan í niðdimm göng …” og lýsing verksins er eftir því – dimm, drungaleg og þröng og myndgerir þannig viðhorf Eddies, þessa höfuðpaurs feðraveldisins, sem eru nákvæmlega það – myrkur mannlegrar hugsunar! Það eru sumsé skoðanir Eddies, þessa fulltrúa feðraveldis par excellance, sem eru þungamiðja sýningarinnar – hans síþrönga sjónarhorn, hans drungi og þröngsýni ræður ferð, jafnvel þannig að sögumaðurinn sjálfur, lögmaðurinn Alfieri, snilldarlega túlkaður af Arnari Jónssyni, fær engu um ráðið, en verður að fylgja söguþræðinum eins og þræll, nauðugur viljugur. Það er eins og í sígildum grískum harmleik.
Lögmaðurinn Alfieri er nefnilega í sama hlutverki og kórinn í hinum grísku harmleikjum – hann rekur söguþráðinn, skýrir hann og hefur sitthvað um hann að segja svo við áhorfendur missum ekki af neinu. En hann getur ekki stjórnað honum – þegar kemur að hlut Eddies er hver sinnar gæfu smiður og við getum aðeins horft á það sem gerist, rétt eins og sögumaðurinn Alfieri – en í sýningunni er það hann sem vekur spennuna, huggar, fær okkur til að sættast við orðinn hlut áður en hann verður.
Hlutverk Alfieris er snilldarlega túlkað af Arnari, hann hvílir í hlutverkinu þannig að við treystum fyllilega dómgreind hans og innsæi. Hann færir okkur söguna og vekur áhuga okkar á henni og gerir okkur ljóst – áreynslulaust og af sannfæringu þess sem tekur á lífinu af auðmýkt og virðingu – að þessi saga jafnist á við lífið sjálft. Það er svo ekki fyrr en allt er um seinan að við skiljum að við hefðum betur vaðið upp á leiksviðið og stöðva atburðarásina áður en allt var í óefni komið. En þannig virka þeir, grísku harmleikirnir, og þannig virkum við. Þeir gerast of hratt, harmleikirnir, og við bregðumst við of seint. Auðna. Ósköp. Hlutskipti mannkyns.
Þetta er ekki ólaglega gert – Miller veit sínu viti. En áður en lengra er haldið er rétt að benda á einn galla á verkinu, sem skrifast alfarið á reikning höfundar: persónur verksins – einkum Eddie – eiga það til að búa yfir eiginleikum, sem nýtast allt í einu söguþræðinum, án þess að hafa þjónað persónunni áður. Dæmi: allt í einu kann Eddie hnefaleika og nýtir þá kunnáttu til að öðlast yfirburði yfir Rodolfo – en hvaðan komu þeir hæfileikar og af hverju fáum við ekki að vita fyrr, að Eddie býr yfir kunnáttunni að berjast? Hefði þó verið einfalt að sá áður en upp var skorið í þeim efnum og hefði að sönnu gert leikaranum verkið auðveldara. En hvað um það – þetta er minni háttar brestur og truflar ekki þá leiksýningu sem hér fer fram.
Alfieri er einnig sá karakter þessarar sýningar sem tengir hana þegar í upphafi við film noir – hina svörtu kvikmynd – og það stílbragð er vel til fundið. Sagan er að sönnu svört, harðsoðin spennusaga sem gerist bæði í framandi umhverfi hafnarhverfisins í Brooklyn og myrkum skúmaskotum hugarheims Eddies. Þessu film noir-stílbragði er fylgt eftir af staðfestu og hugmyndauðgi í leikstíl, hreyfingum, leikmynd, lýsingu, búningum og hljóðmynd þannig að betur verður vart gert.
Það skal sagt sem upp í hugann kom: Guðjón heitinn Samúelsson, arkitekt og höfundur Þjóðleikhússins hefði sennilega skríkt af kæti hefði hann átt þess kost að sjá Horft frá brúnni. Hann hefði séð að loks væri kominn leikmyndahönnuður sem áttar sig til fulls á möguleikum hringsviðsins og sambandi þess við söguna, sem sögð er frekar en sem tæknilega lausn á því hvernig koma megi fleiri sviðsmyndum fyrir án þess að eyða tíma í að bera þær inn og út úr leikrýminu. Hringsviðið er nefnilega hér hluti af sögunni og því hvernig hún er sögð – hún ER sagan OG stíll hennar þannig að hvorugt verður frá hinu skilið og það er bara hrein snilld! Lýsing og leikhljóð fylgja þessari leikstjórnar- og leikmyndarlausn fast eftir og úr verður mögnuð heild. Þessi heild þjónar því vel sem umgjörð og umhverfi leikaranna og á örugglega sinn þátt í að þeir vinna leiksigra á færibandi.
Þegar er nefndur Arnar, sem heldur utanum söguþráðinn og hjálpar okkur að átta okkur á hugarvíli Eddies, sem rekur söguna áfram af miskunnarleysi og harðfylgi. Eddie er leikinn af Hilmi Snæ, sem mér er til efs að hafi gert betur á sínum ferli. Þessi ótrúlegi harðstjóri verður að manni, sem hægt er að hafa samúð með (þótt maður varpi öndinni af feginleik að vera laus við þessa makalausu feðraveldisfulltrúa – ætli það séu ekki bara ansi margir af minni kynslóð sem muna þessa harðstjóra gamalla gilda?)
Harpa Arnardóttir í hlutverki Beatrice eiginkonu Eddies vinnur sömuleiðis glæsilegan leiksigur – þau hjónin eru andstæður og samstæður í senn, án annars væri hitt ekki til. Þetta er samleikur í hæsta gæðaflokki, áreynslulaus og samt svo átakamikill að logar á milli. Jafnframt nær hvort þeirra um sig að brjótast út úr viðjum þessa sambands og skapa sér glæsilega hápunkta – þegar Beatrice gerir það á örlaga- og ögurstundu stendur tíminn kyrr – ekki bara á leiksviði Þjóðleikhússins heldur í heiminum öllum af því hún snertir við innstu kviku manns. Sjaldan hefur nokkur kona elskað jafn vonlausan karlpung eins og Beatrice hann Eddie sinn á þeirri stund!
Ekki má gleyma smærri hlutverkum sem sagan hverfist um – Lára Jóhanna Jónsdóttir í hlutverki hinnar ungu frænku Eddies, Katrínar, tekur á hlutverkinu með glæsibrag og sjötti áratugurinn bókstaflega þyrlast inn á sviðið í glaðværð hennar og lífsást jafn áþreifanlega og harmurinn hefur læst klónum í hana í lokin og öll von úti um farsæla leið úr þeim hildarleik sem orðinn er vegna þrjósku heimilisföðurins og þvermóðsku. Frændur Beatrice, þeir Rodolfo og Marco, bera með sér gamla heiminn – hina ítölsku sveit – og heimssýn hans inn á heimili þeirra Eddies og Beatrice og tengja við hugmyndaheim heimilisföðurins. Heiður, sæmd og æra eru gömul gildi og við þekkjum það úr bókmenntaarfi okkar sjálfra að þau gildi leiða sjaldnast til neins góðs.
Gömul gildi, segi ég. Það má sosum spyrja sig hvort þau gildi séu endilega svo gömul. Hér gerist nefnilega undarlegur leikhúsgaldur í samspili Alfieris, Eddies og Beatrice. Þegar Beatrice játar fyrir Eddie að hún elskar hann, stendur ekki bara tíminn kyrr – það er eins og sýningin umbreytist. Á þessu andartaki bíðum við hinna óhjákvæmilegu söguloka með óþreyju – en þá er eins og film noir-stílbragðið brjóti sig úr viðjum sjötta áratugarins og yfir í okkar eigin tíma og allt í einu fjallar þessi saga Millers um ítalska hafnarverkamenn um okkur, Íslendinga hér og nú og hún verður áleitin eftir því, við finnum hana á okkar eigin skinni og verðum þátttakendur í örlögum persónanna á sviðinu.
Þjóðleikhúsið: Horft frá brúnni
Höfundur: Arthur Miller
Þýðandi: Sigurður Pálsson
Leikstjórn: Stefan Metz
Leikmynd og búningar: Sean Mackaoui
Lýsing: Ólafur Ágúst Stefánsson
Hljóðhönnun og hljóðmynd: Elvar Geir Sævarsson
Leikarar: Hilmir Snær Guðnason, Harpa Arnardóttir, Lára Jóhanna Jónsdóttir, Arnar Jónsson, Snorri Engilbertsson, Stefán Hallur Stefánsson, Baltasar Breki Samper, Hallgrímur Ólafsson, Baldur Trausti Hreinsson.
Ljósmyndir: Hörður Sveinsson