„Mikilvægt er að útrýma hræðslu við útlendinga“
Nafn frambjóðanda: Jasmina Crnac
Flokkur: Björt framtíð
Kjördæmi: Suðurkjördæmi
Sæti á lista: 4. sæti
Skilaboð: Ég vil mannúðlegra stjórnarkerfi og samfélag. Ég vil samfélag sem gerir öllum kleift að njóta jafnra tækifæra.
Sjá einnig: Konur til áhrifa: Svör kvenframbjóðenda við spurningalista Kvennablaðsins vegna Alþingiskosninganna 2016
Það er mjög mikilvægt að efla heilbrigðiskerfið. Það þarf að auka aðgengi, fjölga starfsfólki, endurnýja tæki og aðbúnað, fækka biðlistum og hugsa um langtímagróða fyrir samfélagið. Að huga betur t.d. að geðheilbrigði barna og unglinga skilar samfélaginu miklum gæðum, samtímis og til lengri tíma litið. Velferð barna og unglinga er mjög mikilvæg. Við stöndum frammi fyrir þeirri staðreynd að börn sem þurfa greiningar hjá sérfræðingum, þurfi að bíða á í allt að tvö ár. Börn og ungmenni eiga ekki að þurfa að bíða svo lengi. Við eigum og þurfum bregðast við sem fyrst svo þessi einstaklingar fái viðeigandi aðstoð. Sama gildir um BUGL. Við verðum að bregðast sem fyrst við í þeim málum. Að bregðast ekki við kostar samfélagið mikið meira. Börnin okkar eru framtíð og við þurfum að hlúa að þeim vel.
Ríkið verður að setja sér skýra heildarstefnu, um málefni ferðaþjónustunnar. Nú er stefnan engin og flugfélögin ráða framboði á ferðamönnum í dag. Auðvitað gengur það ekki upp. Engin skýr áætlun um uppbyggingu innviða eins svo t.d. á sviði samgangna, heilbrigðismála, umhverfismála eða löggæslu. Ýmsir landshlutar verða fyrir miklu álagi sökum ferðamanna og Suðurkjördæmi er dæmi um það.
Mikilvægt er að útrýma hræðslu við útlendinga, vera hugrökk og vanda sig við mótttöku þeirra. Íslenskt atvinnulíf þarf á því að halda að okkur fjölgi verulega á næstu árum þar sem fyrirsjáanlegt er að Íslendingar einir munu ekki ráða við að manna þau störf sem þarf að vinna, nema það komi niður á lífsgæðum fólks. Menning og siðir annarra þjóða geta bætt íslenska menningu og auðgað. Til þess að svo megi verða þarf hins vegar að vanda til verka og tryggja að útlendingar fái sömu tækifæri og aðrir við að leyfa eigin menningu að blómstra.
Málefni öryrkja og eldri borgara er mjög mikilvægt. Við þurfum að tryggja að öryrkjar og eldri borgarar njóti sömu lífsgæða og hver annar í samfélaginu. Við þurfum allavega byrja á þvi að sjá til þess að tekjur þeirra dugi fyrir framfærslu. Við þurfum byrja á því að gera almannatryggingakerfið réttlátara, einfaldara og auðskiljanlegra.
Hvers vegna velur þú stjórnmál að starfi?
Það er að sjálfsögðu áhugi sem gerir það að verkum að ég vel stjórnmál sem starf. Hins vegar er alltaf þannig að maður vill hafa áhrif og taka þátt í að gera samfélagið okkar betra. Að mínu mati dugar ekki sitja heima og gera ekki neitt. Ég tel að mín reynsla og þekking geti nýst í að gera hlutina betur.
Hverjar eru þínar pólitísku áherslur?
Það sem er mér ofarlega í huga eru öll helstu velferðarmál landans. Ég vil hlúa betur að barnafjölskyldum, eldri borgurum og öryrkjum. Ég vil bæta og byggja upp heilbrigðisþjónustuna úti á landi. Þetta þýðir að við verðum að hafa samgöngur í góðu lagi og ég mun ég berjast fyrir því. Ég vil afnema alla þá niðurskurði sem öryrkjar og ellilífeyrisþegar þurfa að upplifa. Ég vil sjá til þess að Ísland taki á móti fleira flóttafólki og ég vil hjálpa þeim að aðlagast íslensku samfélagi. Ég vil sjá meiri fjölbreytni og fjölmenningu í samfélaginu. Ég vil upplýsta umræðu og fordóma burt. Þó ég vilji bæta allt þetta sem ég taldi upp að ofan þá hef ég líka skoðun á öllum öðrum málaflokkum.
Hvers vegna finnur þú þeim farveg í þínum flokki fremur en öðrum?
Áherslurnar mínar endurspeglast vel í stefnu Bjartrar framtíðar. Björt framtíð t.d. leggur mikla áherslu að bæta heilbrigðiskerfið og bæta hag eldri borgara og öryrkja. Björt framtíð vill líka að hér geti flóttamenn og aðrir hópar sem leita skjóls fengið tækifæri og tekið þátt í okkar samfélagi. Björt framtíð vill að við búum í fjölmenningarsamfélagi þar sem allir hafa sinn rétt. Að mínu mati eru ekki fordómar innan flokksins gagnvart útlendingum, fötluðum, samkynhneigðum eða nokkrum öðrum hópum á neinn hátt. Öllum er tekið á jafningjagrundvelli og þess vegna ég vel Bjarta framtíð.
Hvaða stjórnmálamenn og konur, innlendar sem erlendar, metur þú mest?
Hef bara aldrei spáð í það.
Hver er staða stjórnmálasiðferðis á Íslandi?
Ef mér leyfist þá ætla ég vitna í Rannsóknarskýrslu Alþingis þar komið fram að alvarlegur brestur var til staðar í stjórnmálsiðferði þegar efnahagshrunið varð. Að mínu mati hefur þetta ekki mikið breyst. Við getum tekið dæmi um Wintris málið, lekamálið og sölu á Borgun núna nýlega sem hefur komið fram í fjölmiðlum.
Hver er afstaða þín til stöðu Bjarna Benediktssonar og Ólafar Nordal eftir að afhjúpað var að þeirra nöfn væri að finna í Panamaskjölunum?
Hér þarf að taka af allan vafa. Það er háalvarlegt mál þegar manneskjur í slíkum ábyrgðarstöðum tengjast spillingu og enn alvarlegra að reynt sé að gera lítið úr því. Fulltrúar ríkisstjórnarinnar eiga að vinna að almannahag, ekki sérhagsmunum sín eigin.
Hvers vegna heldur þú að almenningur um víða veröld hafi brugðist við eins og raun ber vitni eftir uppljóstranir Panamaskjalanna?
Vegna þess að þessi mál eru óásættanleg og stangast á við siðferðilegar kröfur almennings. Við getum sagt að traust til manna sem stjórna landinu hafi brugðist.
Hver er afstaða þín til skattaskjóla, það er lágskattasvæða og alþjóðlegrar skattasamkeppni?
Þetta er einfaldlega þannig að skattaskjól standast ekki siðferðislegar kröfur.
Ertu sammála rökum þeirra sem telja kynjakvóta nauðsynlegan til að viðhalda jöfnum kynjahlutföllum á þingi?
Ég tel kynjakvóta ekki bestu lausnina til að leysa vandann. Kynjakvóti getur stundum reynst nauðsynlegur til að leiðrétta halla á annað hvort kynið. Hann ætti þó aldrei að vera settur á nema tímabundið.
Hvaða hagsmuna hefur þú að gæta gagnvart þrýstihópum, fyrirtækjum og/eða vegna vensla?
Hef ekki hagsmuna að gæta gagnvart fyrirtækjum.
Með hvaða flokkum vilt þú helst mynda ríkisstjórn eftir kosningar og hvers vegna?
Björt framtíð telur að hægt sé að vinna með flestum flokkum ef allir aðilar eru tilbúnir að vera í sínum störfum af heilindum og með hagsmuni samfélagsins í huga. Samvinna, heiðarleiki og virðing fyrir ábyrgð þess að starfa fyrir almenning er aðalmálið.
Eru flokkar sem þú vilt helst ekki vinna með?
Íslenska þjóðfylkingin.
Hvaða hópar í samfélaginu þurfa mest á stuðningi og athygli stjórnmálamanna að halda?
Börn, eldri borgarar, fatlaðir, öryrkjar og hælisleitendur. Hægt er að hjálpa einstaklingum til þess að nýtast sjálfum sér og samfélaginu.
Telur þú eðlilegt að nýta skattkerfið sem jöfnunartæki eða á skattastefna landsins eingöngu að miða að fjármögnun hins opinbera?
Björt framtíð leggur áherslu á að tilgangur sé einkum að fjármagna velferðarþjónustu og sameiginlegar framkvæmdir t.d. vegakerfi og orkuflutninga. Skattkerfi þarf að vera þannig að undanskot séu lágmörkuð og laust við óþarfa flækjur.
Afstaða til mannréttinda og hlutverk stjórnmálanna: Hvert skal vera hlutverk yfirvalda og stjórnmálanna þegar kemur að svokölluðum neikvæðum og jákvæðum réttindum?
Ríkið hefur hlutverki að gegna að gera einstaklingum auðvelt að velja þann kost sem eflir heilsu og lífsgæði. Refsingar geta verið nauðsynlegar þegar alvarlegar er brotið á mannréttindum.
Hver er afstaða þín til persónukjörs og hvers vegna?
Persónukjör geta verið góð leið til styrkja lýðræðið en útfærslan getur verið mjög flókin og kallað á ný skipulagsleg verkefni t.d. varðandi störf á þingi.
Greiða handhafar fiskveiðikvótans nægilega til samfélagsins fyrir nýtingu þeirra á auðlindum almennings?
Björt framtíð leggur áherslu á að greitt sé eðlilegt gjald fyrir nýtingu sameiginlegra auðlinda. Björt framtíð vill innleiða gagnsætt útboðsferli og greitt verði gjald fyrir nýtingu auðlinda á markaðsforsendum.
Hverjar eru félagslegar afleiðingar eða ágóði núverandi fiskveiðistjórnunarkerfis?
Dæmi um slíkar afleiðingar eru neikvæð áhrif á búsetu einstaklinga þegar einstaklingar missa skyndilega viðværi sitt eða störf við fiskveiði þegar kvóti er seldur og vinnsla er flutt á milli svæða eða skyndilega lokað.
Ef þú kallar eftir breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu: hvers vegna ættir þú og þinn flokkur að vera fær um að innleiða breytingar og koma á sátt í máli sem deilt hefur verið um áratugum saman?
Björt framtíð leggur áherslu á að greitt sé eðlilegt gjald fyrir nýtingu sameiginlegra auðlinda. Björt framtíð vill innleiða gagnsætt útboðsferli og greitt verði gjald fyrir nýtingu auðlinda á markaðsforsendum. Hér er sáttaleið mikilvæg sem Björt framtíð leggur sérstaka áherslu á í öllum sínum stjórnmálum.
Afstaða til landsdóms? Var réttmætt að þínu mati að kalla hann til og rétta yfir fyrrverandi forsætisráðherra? Hver er afstaða þín til niðurstöðu dómstólsins?
Björt framtíð hefur ekki mótað afstöðu til þessa máls.
Hver telur þú að kjarninn í lekamálinu sé? Var málið alvarlegt, og ef svo er, hvers vegna?
Trúnaðarbrestur var kjarni þess máls. Það er alvarlegt þegar opinberir starfsmenn eru þátttakendur í slíku máli.
Hvað með nýjan búvörusamning? Hver er afstaða þín til hans?
Björt framtíð greiddi atkvæði gegn núverandi búvörusamningi.
Hver er afstaða þín til inngöngu Íslands í Evrópusambandið?
Já, Björt framtíð leggur áherslu á að þjóðin fái tækifæri til að taka upplýsta ákvörðun um inngöngu í Evrópusambandsins.
Var neitun núverandi stjórnvalda að kjósa um framhaldið svik á loforðum fyrir kosningar?
Já, það var svik á gefnum loforðum.
Er „strax“ teygjanlegt hugtak?
Nei.
Hvers vegna telur þú að ungt fólk hafi dregist svo aftur úr að því er varðar lífsgæði, efnahag og bjartsýni frá því sem áður var?
Skipulag samfélagsins hefur ekki tekið nægjanlega mið af þörfum og lífsgæðum ungs fólks t.d. varðandi menntun, búsetu, húsnæði, foreldraorlof og dagvistun. Ég tel að margt ungt fólk hafi misst trú á framtíð sína hér á landi, sjái ekki næga von í búsetu hér á landi. Krafan um að mæta fullbúinn til leiks er líka orðin of mikil. Ungu fólki þarf að vera kleift að koma undir sig fótunum hægar til að halda lífsgæðum.
Er stefna Íslendinga í hælisleitendamálum of ströng eða ekki nægilega ströng?
Stefnan er of ströng en ný útlendingalög eru skref í áttina. Nú þarf t.d. ekki tæknilega séð að fylgja Dyflinnarsáttmálanum, það er valfrjálst, sem getur auðveldað einstaklingum til muna að koma hingað til lands..
Hver er afstaða þín til hagfræðiskóla John Maynard Keynes, að því er varðar hagstjórnunar- og sveiflujöfnunarhlutverk ríkisvaldsins?
Björt framtíð leggur áherslu á að í góðæri sé safnað í ríkissjóð og ríkið dragi úr sköpun starfa en hins vegar þegar að kreppir sé hlutverk ríkisins að styðja við að hjól atvinnulífsins fari af stað. Grunnskyldur ríkisins eru samt sem áður þær sömu sem snúa að velferðarþjónustu, samgöngum og öryggi þjóðarinnar.
Hvað finnst þér um þá stefnu að byggja smærri íbúðir fyrir ungt fólk? Hvers vegna á ungt fólk ekki að geta fjárfest í íbúðum af hefðbundinni stærð?
Björt framtíð leggur áherslu á að ungt fólk, eins og aðrir, hafi val um hvers konar húsnæði fest eru kaup á. Minna húsnæði er oftast ódýrara og þess vegna rökrétt að framboð af slíku húsnæði sé fyrirliggjandi. Björt framtíð leggur sérstaka áherslu á litlar íbúðir og stærri íbúðir séu aðgengilegar öllum.
Rétt eða rangt: Séreignarstefnan er góð stefna sem flokkarnir ættu að sameinast um að viðhalda og virkja að nýju?
Björt framtíð leggur áherslu á blandað framboð af séreignum og leiguhúsnæði sem er grunnur þess að einstaklingar hafi val.
Telur þú þinn flokk, og aðra flokka, bundna af kröfu tæplega 90 þúsund undirskrifta til stuðnings endurreisnar heilbrigðiskerfisins?
Krafan um endurreisn heilbrigðiskerfisins byggir á gildum rökum og brýnt að leggja aukið fé í uppbyggingu heilbrigðisþjónustunnar.
Vilt þú aukna aðkomu einkaaðila í rekstri heilbrigðiskerfisins?
Ekki er þörf á aukinni aðkomu einkaaðila í rekstri heilbrigðiskerfisins. Mikilvægt er að bæta eftirlit með aðgengi og gæðum allrar heilbrigðisþjónustu og meðferð fjár.
Vilt þú aukna aðkomu einkaaðila í rekstri menntakerfisins?
Það er mikilvægt að markaðurinn sé þannig að það sé hægt, en Björt framtíð telur það ekki nauðsynlegt í dag. Frekar þarf að huga betur að menntakerfinu eins og það er og auka fjölbreytileika í takt við einstaklingsmiðað nám.
Hefur þú áhyggjur af stétt leik- og grunnskólakennara?
Já, það þarf að leggja sérstaka áherslu á að fjölga menntuðum leik- og grunnskólakennurum og að tryggja að starfsumhverfi þeirra og launakjör séu góð. Leik- og grunnskólakennarar sjá um dýrmætasta auð okkar þriðjung sólarhrings virku daganna. Það er mjög mikilvægt að starf þeirra og framlag til menntunar og uppeldis barnanna okkar sé metið og starfsumhverfi þeirra öruggt og gott.
Hver er afstaða þín til örlaga nýrrar stjórnarskrár?
Björt framtíð leggur þunga áherslu á að breytingar verði gerðar á stjórnarskrá Íslands í samræmi við vilja þjóðarinnar, eins og hann birtist í þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar haustið 2012.
Eru 300 þúsund króna lágmarkslaun, örorka og lífeyrir sanngjörn krafa?
Björt framtíð leggur áherslu á að öllum einstaklingum séu tryggð lágmarkslaun, að minnsta kosti 300 þúsund krónur. Lágmarkslaun þurfa að vera í takt við það sem velferðarráðuneytið gefur út sem viðmiðunarframfærslu, já það er sanngjörn krafa.
Eru tillögurnar sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa valið til að hækka greiðslur almannatrygginga skrum eða raunverulegar?
Björt framtíð hefur ásamt öðrum flokkum í minnihluta lýst verulegum vonbrigðum með þá leið sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa valið til að hækka lífeyri.
Hvað kosta kosningaloforð þín og flokksins?
Björt framtíð leggur áherslu á að í aðdraganda kosninga sé talað um grundvallarmálefni, meginreglur, ábyrga meðferð ríkisfjár og áætlanir um fjárútlát. Kosningaloforð eru ekki gefin heldur loforð um að vinna sem best að hag samfélagsins. Það er mjög sjaldan sem ákvarðanir eru teknar út frá einu loforði en viljinn til að stöðugt bæta samfélagið og innviði er til staðar. Það kostar ekkert nema viljann og vinnuna.