Ekki eftir ár eða 3 heldur í gær
Ég hef alltaf verið manneskjan sem styð það að fólk fái greitt vel fyrir störf sín og ábyrgðarsvið, hvaða nöfnum sem þau nefnast. Ég er manneskja sem uni öðrum fjárhagslegs öryggis og velgengni án þess að vera með öfund eða tuð.
Þangað til í gær var ofangreint satt og rétt – en akkúrat núna sýður svo svakalega á mér að ég gæti örugglega hitað upp hálft höfuðborgarsvæðið. Ákvörðun Kjararáðs um að hækka laun alþingismanna um 340.000 á einu bretti – var bara of mikið fyrir mig.
Mánaðarlaun mjög stórs hóps af fólki á Íslandi fyrir skatt ná rétt svo að slaga upp í þessa upphæð. Bætur og lífeyrir hjá meginþorra þeirra sem þær þiggja eru allt að tvöfalt lægri á mánuði fyrir skatt en þessi prósentuhækkun launa alþingismanna.
Hinn almenni launamaður og bótaþiggjandi situr alltaf við borðið þar sem talað er um hóflegar hækkanir, að ekki megi fara offari því þá fari nú allar vísitölur í fokk, hagvöxtur fari til fjandans og þetta hafi allt í för með sér hækkanir vöruverðs og almenn vansæld hagkerfisins.
Fyrirgefið á meðan ég æli.
Hvernig getur nokkur þingmaður með snefil af virðingu fyrir sjálfum sér, þeim sem hann vinnur fyrir, já það erum við almenningur, og samfélaginu sínu, sagt já takk við þessari hækkun. Hvernig ætlar viðkomandi að réttlæta fyrir sjálfum sér þvílíka hækkun á meðan að fólk lepur bókstaflega dauðann úr skel. Berst allan mánuðinn til að geta borgað húsnæðis- og matarkostnað sem er stjarnfræðilega klikkaður á launum eða bótum sem eru allt að helmingi lægri en þessi hækkun FYRIR SKATT. Guð forði viðkomandi frá því að þurfa að endurnýja einhvern fatnað í leiðinni.
Það verður að gera róttæka hluti í þessum ömurlega kjarahalla á Íslandi. Hættið að væla um að almennir launþegar verði að fara í hóflegar hækkanir. Hættið að koma inn hjá launþegum eilífu samviskubiti yfir því að vísitöluhækkanir, hagvaxtaflökt og viðskiptahalli sé þeim að kenna. Finnið bara leið til þess að hver einasta manneskja á þessu blessaða skeri geti lifað mannsæmandi lífi.
Það er alltaf til leið og það er alltaf til lausn og ég skora á þingheim, verkalýðsfélög, SA og alla aðra sem hafa eitthvað um kjaramál að segja að finna þessar lausnir. Ef kerfin sem við búum við eru svo léleg og viðkvæm að það sé ekki hægt að hækka laun í þeim, finnið þá önnur kerfi.
Ekki eftir ár eða 3 heldur í gær.