Girðið ykkur í brók – semjið í sátt!
Heiðveig María Einarsdóttir skrifar:
Nýafstaðnar kosningar til Alþingis sem knúnar voru fram með mótmælum, starfstjórn við völd þar sem ekki tekst að mynda ríkisstjórn, taktlaus hækkun kjararáðs á launum æðstu embættismanna þjóðarinnar, brotið og bugað heilbrigðiskerfi, kjaramál í uppnámi og verkfall sjómanna: Þetta er staðan í dag. Flestallt framangreint angrar okkur öll en svo líður það hjá, þetta hlýtur að lagast, við höfum lítið um þetta að segja, það er jú lýðræði í landinu og við öll völdum þetta og verðum því að treysta þeim sem við kusum til þess að græja þetta fyrir okkur.
Kjaramál sjómanna eru hins vegar eitthvað sem hefur legið lengi í loftinu að þurfi að leysa, í dag er svo komið að komið er að endastöð. Það er yfirvofandi verkfall sjómanna, jú af því að þeir kusu með miklum meirihluta að grípa til verkfalls næðist ekki að loka og landa samningum við samtök sjávarútvegsfyrirtækja fyrir ákveðinn tíma. Fjölmiðlar hafa lítið fjallað um þetta að undanskildum síðustu dögum og þá í æsifréttastíl. Mörgum finnst þeir bara vera að væla þessir blessuðu sjómenn, þeir hafi nú rosagóð laun! Jú, stundum hafa þeir það en stundum ekki.
Nokkrir punktar til þess að skýra frekar þetta sem fjölmiðlar hafa ekki alveg tekið með í reikninginn:
Meðalvinnuvika háseta er rúmlega 80 klst. Háseti fer ekki heim í bælið sitt að vinnutíma loknum, háseti þarf að borða það sem fyrir hann er lagt, hann þarf að gera ráð fyrir því að vera ræstur (vakinn) sé mikið fiskirí. Háseti deilir klefa (herbergi) með allt að þremur öðrum einstaklingum, háseti deilir oft salerni og sturtuaðstöðu með 10–20 öðrum. Meðaltímakaup háseta er á bilinu 2.000–6.500 krónur, hann sjálfur hefur ekkert um það að segja. Skipstjórinn, útgerð, Hafró, fiskverð á markaði og kvótastaða á hverjum tíma ræður því hvað er fiskað, í hvaða magni og hvert það er selt. Til viðmiðunar er dagvinnukaup sérfræðings hjá ríkinu á bilinu 4–5.000 kr. og er þá átt við sérfræðing með grunnháskólamenntun. Laun hjá ríki eru oftar en ekki talin lægri en á almennum vinnumarkaði.
Réttindamenn og yfirmenn á skipum eru með hærri laun og er það alveg í takt við það sem gerist almennt, enda er hér um almenna viðmiðun að ræða og eru hásetar mikill meirihluti allra sjómanna. Hásetinn mætir í vinnuna og skilar sínu. Háseti rúllar sólahringnum á 6-8 tíma vöktum og hvílist á frívöktum, þá skiptir ekki máli hvort er dagur eða nótt. Ef háseti er veikur um borð þá mætir hann samt yfirleitt í vinnuna. Ný tillaga að kauptryggingu fyrir háseta er 288.168 kr. Háseti fær ekki sumarfrí, ef hann rær einn túr á sjó og einn í frí þá er hann í raun í vaktafríi túrinn sem hann er í „fríi“, fullur mánuður er 173,3 vinnustundir á vinnumarkaði i dag, háseti vinnur rúmlega 320 vinnustundir í einum túr. Aflaverðmæti er háð gengi erlendra gjaldmiðla gagnvart krónunni og því geta laun háseta verið 30-40% lægri á lágu gengi eins og í dag þrátt fyrir að verð á afurðum sé hátt. Það eitt og sér getur ekki kallast afkomuöryggi nema síður sé.
Enn eru samt til karlar og reyndar konur einnig þó í minnihluta séu sem kjósa sér þennan starfsvettvang, ég gerði það og bæði pabbi og maðurinn minn gengu enn lengra og ákváðu að mennta sig til stýrimanns. Þetta er jú ein af okkar elstu og stærstu starfsstéttum í dag.
Á bak við hvern sjómann er yfirleitt fjölskylda, mæður, feður, börn, eiginkonur, eiginmenn, kærastar, kærustur og svo mætti lengi telja. Það er oft erfitt að skilja hvers vegna fólk velur sér þennan vettvang en það er eins og með margt annað, þetta starf er alveg eins gott og mikilvægt og hvert annað og því ættum við ekki að bera virðingu fyrir því? Við veljum sjálf það sem við viljum og það bera að virða.

Stórfjölskyldan. Á myndina vantar manninn minn og bróður sem báðir voru á sjó.
Ég er elst í hópi fjögurra systkina og hef verið alin upp við sjómennsku allt mitt líf. Pabbi minn er alinn upp í sveit en fór snemma að stunda sjóinn og síðar menntaði hann sig til stýrimanns og skipstjóra. Pabbi stundaði sjómennsku fyrstu 20 ár ævi minnar.
Þegar seinna hollið af börnunum í fjölskyldunni fæddust (yngstu tvö) var ekkert sjálfsagðara en að pabbi væri viðstaddur, sem og hann var. Það hittist bara svo heppilega á í þessi skipti að hann var heima á þessum tíma. Upp úr því fór ég sjálf að velta fyrir mér hvort pabbi hefði ekki verið viðstaddur og bar það uppá hann. Hann sagðist nú hafa verið viðstaddur að sjálfsögðu en vildi samt ekkert sérstaklega ræða það. Ég velti þessu ekki mikið meira fyrir mér eftir þetta en viðurkenni þó að þetta hafi blundað aðeins í mér. Síðar kom í ljós að hann var ekki viðstaddur, hann kunni bara ekki við að segja annað og er ég nokkuð viss um að hann hafi innilega viljað vera þarna þegar frumburður hans fæddist.
Ég uppgötvaði þetta þegar ég hitti fyrir mann í samkvæmi í fæðingarbæ mínum sem kynnti sig fyrir mér og ég fyrir honum, þegar ég sagði nafnið mitt þá færðist yfir hann sólskinsbros og hann sagði við mig: þú ert hún! þú ert „stúlkubarn er fætt“! Þessi maður tók á móti skeytinu í túrnum sem pabbi var í þegar ég fæddist og færði honum fréttirnar. Þannig var það nú.
Tíminn leið og allt gekk sinn vanagang. Pabbi var á sjó og mamma rak heimilið af miklum dugnaði, hún menntaði sig og vann úti um tíma. Eftir að yngstu börnin voru fædd vann hún mest heima. Enda var fjölskyldulíf okkar bundið við stöðu föður míns á þessu tímabili, hann var nefnilega stýrimannsmenntaður og sinnti þeirri stöðu á þeim skipum sem hann var á. Oftar en ekki voru þessi skip skráð í litlum bæjarfélögum úti á landi og gerð út þaðan. Því þótti það sanngjörn krafa af hálfu útgerðar að þeir menn sem sinntu yfirmannsstöðum flyttu lögheimili sitt í sveitarfélagið til þess að útsvarið skilaði sér á,„réttan“ stað. Að sjálfsögðu hafði þetta í för með sér að öll fjölskyldan yrði að flytja þvert yfir landið því ekki var heimilt á þessum tíma að hjón hefðu sitt lögheimilið hvort, lögheimili barna fylgir vanalega foreldrum og því gátum við ekki verið í skóla eða fengið þjónustu nema í því bæjarfélagi sem útgerðin óskaði eftir að pabbi væri skráður hjá. Nú er það breytt þökk sé Dorrit og Ólafi Ragnari.

Við systkinin.
Það eru óteljandi hlutir sem að pabbi missti af hjá okkur krökkunum, ég hugsa að hann hafi t.d. náð ca 3ja hverju afmæli hjá okkur krökkunum, eins með afmæli mömmu og brúðkaupsafmæli þeirra. Fermingar, brúðkaup og aðrir samfagnaðir voru oft á tíðum sóttir af okkur mömmu og krökkunum einum, pabbi var að vinna. Flestir í kringum okkur höfðu oftast skilning á því að pabbi ætti ekki heimangengt, sumir ekki.
Ég viðurkenni það að framanaf þá gat ég ekki með nokkru móti skilið hvernig pabbi gat gert okkur þetta, að vera í burtu frá okkur heilu vikurnar og mánuðina og jafnvel allt upp í 100 daga í einu þegar mest var. Á þessum tíma þá var eingöngu hægt að eiga samskipti í gegnum gervihnött sem var svakalega dýrt og nánast ógerlegt. Hvað þá að hann gæti gert eiginkonu sinni þetta! Að skammast ekki til að hjálpa henni við uppeldi og heimili þessara fjögurra krakka sem hann virtist bara hafa búið til og stokkið svo í burtu, gjörsamlega óskiljanlegt. Mamma kláraði þetta allt saman af stöku æðruleysi og sýndi að mínu mati brjálæðislega mikið umburðarlyndi gagnvart þessu. Ég man ekki eftir að hafa heyrt hana kvarta eða vola yfir því að hún væri alltaf ein, ég veit þó að stundum var hún einmana, en hún lét okkur aldrei finna það. Hún sýndi okkur alltaf (og gerir enn) endalausa ást og umhyggju. Það gerði pabbi líka á sinn hátt.
Það var nefnilega þannig að við stækkuðum og þroskuðumst á meðan pabbi var í burtu og því þurftum við alltaf að finna taktinn þegar pabbi kom heim, stundum gekk það mjög vel en stundum mjög brösuglega, sérstaklega á unglingsárunum. Það var eins og pabba fyndist tíminn standa í stað og hélt bara uppeldinu áfram þar sem frá var horfið þegar hann fór út á sjó, einum 80–100 dögum áður. En 80–100 dagar hjá ungling eru heil eilífð. Á þessum tíma fékk ég líka reglulegar martraðir um að pabbi hefði drukknað, ég man þessar martraðir enn í dag og ég veit að dóttir mín fær svona martraðir um pabba sinn í dag og það er sama hvað ég segi henni að allt sé í lagi þá er það samt vont.
Ég hef alltaf verið mjög forvitin, spurul, hvatvís og stunum nett ofvirk. Eitt af því sem mér lék forvitni á að vita var: Hvað var það sem heillaði pabba svona ógurlega við sjómennskuna að hann gat vogað sér að vera svona mikið í burtu frá okkur? Það lá beinast við að fá svar við þeirri spurningu með því að koma mér bara á sjó sjálf. Það beit ég í mig og í kringum tvítugt lét ég verða að því að koma mér í það minnsta eins og einn túr á sjó. Það gat nú ekki verið mikið mál fyrir mig þar sem ég var búin að vinna á öllum stigum fisk- og rækjuvinnslu í landi, þetta var jú það sama sögðu allir! Var það ekki annars?
Ég nefnilega tel mig hafa verið forréttindakrakka, já ég tel það hafa verið forréttindi að hafa fengið það tækifæri að byrja að vinna 13 ára gömul í fiski í frystihúsi. Í bæjarfélaginu sem ég bjó í þá vorum við flestar stelpurnar í bekknum að vinna í frystihúsinu. Á veturna unnum við á laugardögum og á milli kl.16-18 ef það var mikill fiskur sem var nú ætið oft. Við áttum að vera í skólanum til kl 16:15 alla daga en þá daga sem var vinna í frystihúsinu hringdi verkstjórinn í skólann og bað um „leyfi“ fyrir frystihúskrakkana og við vorum látin vita. Þessu tókum við ætið fagnandi og brunuðum heim í fataskipti og vorum mætt í frystihúsið áður en að klukkan hringdi inn kl 16. Í frystihúsinu hefði ég átt að læra stundvísi þar sem að allt gekk út á bjöllu eins og í skólanum. Þegar vinnudagur hófst var hringt inn, þegar það var pása í 7 mínútur fyrir hádegi var hringt inn og út, þegar það var kaffitími fyrir hádegi í 23 mínútur var hringt inn og út, eins í klst. matarhléi og pásum og kaffitímum eftir hádegi. Eins var hringt út að vinnudegi loknum, þarna vogaði maður sér ekki að fara of seint af stað, pásurnar voru notaðar í klósettferðir, létt spil eða 1–2 sígarettur hjá þeim sem reyktu. Lengi vel var sagt að 7 mínútur hefði verið tíminn sem var valinn fyrir pásur þar sem einhver hafði reiknað það út að það tók 7 mínútur að reykja eina sígarettu. Hvort það er satt og rétt hef ég ekki hugmynd um en viðmiðið er ágætt og getur alveg passað.
Ég taldi það nú lítið mál að komast á sjó, ég verandi með alla mína frystihúsreynslu, en það var rangt mat hjá mér. Þrátt fyrir að mannskap vantaði á sjó þá kom ég ekki til greina sem háseti. Ekki af því að ég kynni ekki til verka heldur vegna þess að ég var kona!! Allsstaðar lenti ég á vegg, svörin sem ég fékk voru t.d. skellihlátur: „Ertu eitthvað rugluð?“ „Nei, við ráðum ekki stelpur.“ „Þú getur þetta ekki,“ og þar frameftir götunum. Sumir voru reyndar kurteisir en þurrir á manninn og höfðu ekki fyrir því að taka niður nafnið mitt. Nú voru góð ráð dýr, ég nefnilega elfdist við þetta, ég þurfti ekki bara að prufa að upplifa það sem pabbi hafði fórnað sér fyrir heldur þurfti ég líka að komast á sjó þrátt fyrir að ég væri stelpa.
Ég sagði pabba og öðrum sjómönnum í kringum mig ekki frá þessum fyrirætlunum mínum, því allra síst ætlaði ég að komast að á „klíkuskap“ verandi dóttir skipstjóra, nei ég hélt nú ekki!! Aðferðin sem ég notaði var að safna saman símanúmerum hjá öllum frystitogurum, ísfiskurum, línu- og netabátum sem gerðu út á Íslandsmiðum. Því næst fann ég út hverjir voru skipstjórar og hringdi í þá hvern og einn í skipulagðri röð, yfirleitt alltaf hafði ég samband við útgerðastjórana líka. Ég gekk meira að segja svo langt að skrá lögheimili mitt á Akureyri um tíma til þess að freista þess að komast að hjá stærstu útgerðinni þar í bæ. Þetta tók nokkurn tíma og ég var fljót að sigta út þá sem ekki vildu við mig tala og svöruðu mér líkt og að framan segir. Það sem ég gerði var að ég hringdi alltaf aftur þegar þeir sögðu mér að hringja aftur. Til að gera langa sögu stutta þá komst ég fyrst einn túr á Íslandsmiðum á frystitogara með því að eiginlega að gefa skipstjóranum engan annan kost en að taka mig um borð þar sem einn hásetinn mætti ekki.

Á Flæmska hattinum.
Það var afleysing í einn túr, en ég var komin á bragðið. Vopnuð reynslu af sjó auk frystihúsareynslunnar hélt ég missióninni áfram og fékk loks jákvætt svar, sama daginn meira að segja. Þá stóð mér til boða að fara annaðhvort sem afleysing með möguleika á fleiri túrum á línubát sem gerður var út frá Grindavík, eða að fara sem kokkur á frystitogara sem gerður var út frá Flæmska hattinum á Nýfundnalandi. Á togaranum var skilyrði að ég yrði að vera amk tvo túra þar sem kostnaður útgerðar við að fljúga með mig heim eftir einn túr þótti ekki svara kostnaði. Ég valdi síðari kostinn, sem fyrir tilviljun var rækjufrystitogari sem pabbi minn hafði verið stýrimaður og skipstjóri á 10 árum áður. Þegar þarna var komið sögu hafði pabbi ekki hugmynd um hvað ég var að bralla.
Við tók eitt lærdómsríkasta ferli í mínu lífi og hef ég þó reynt ýmislegt, ég starfaði bæði sem háseti á efra og neðra dekki og kokkur á þessum frystitogara nánast samfleytt í á annað ár. Það var til að byrja með blóð, sviti og tár, aumur líkami og langar og strangar vaktir. En þegar það var afstaðið þá fór ég að skilja pabba, mér fannst þetta algjörlega geggjað og ég meira að segja sakna þess enn þann dag í dag. Þetta var drulluerfitt, einmanalegt og að mörgu leyti skrítið á stundum, en það sem mér fannst verst voru fórnirnar, ég missti af mörgum merkisdögum og samverustundum hjá fjölskyldu og vinum. Ég gat lítið haft samband heim þar sem eingöngu var hægt að hafa samband í gegnum gervihnött. En það sem mér fannst standa uppúr var friðurinn, já friðurinn til þess að mæta bara í vinnunna, vinna hana og fara svo að sofa og að vera í fríi þegar ég var í fríi. Allt áreiti var í algjöru lágmarki og maður eiginlega sónaði aðeins út.

pabbi komin heim.
Ég skildi pabba þó ekki meira en svo að ég gat ekki hugsað mér að vera á sjó eftir að ég eignaðist börnin mín, eflaust er þetta öðruvísi með konur en karla og kannski er það ástæðan fyrir kven- og karlastéttum. Kannski er ég bara sjálfselsk og finnst ég eiga meiri rétt á að vera heima hjá börnunum okkar heldur en maðurinn minn, sem er líka sjómaður. Ég hef oft rætt við manninn minn hvort við ættum að „skipta“ , ég færi á sjó og hann ynni í landi. Í okkar huga er það alveg möguleiki, en í sannleika sagt þá er ég nokkuð viss um að ég myndi guggna þegar á hólminn væri komið. Maðurinn minn hefur rétt eins og pabbi minn misst af mörgum afmælisdögum barna okkar, brúðkaupum, fermingum, skírnum og fæðingu barna sinna, veikindum barna sinna, veikindum foreldra sinna, jarðarförum og svo mætti lengi telja.

Brúðkaupsdagurinn.
Undanfarin 5 ár hefur maðurinn minn og kollegar hans verið án samninga um kjör sín. Það er kapítuli út af fyrir sig að fara út í það hvers vegna menn láta bjóða sér það að vera samningslausir allan þennan tíma, en ég ætla ekki að fara út í það, staðan í dag er þessi: Samningar tókust ekki, sjómenn ákváðu að nýta sér það eina tól og tæki sem þeir hafa til þess að leiðrétta kjör sín, verkfall!
Menn tala um gríðarleg efnahagsleg áhrif á þjóðina, útgerðina og viðskipti við útlönd fari sjómenn í verkfall. Já, það er alveg rétt, það hefur líka áhrif á afkomu sjómannanna sjálfra, þeir eru jú launalausir í verkfalli. Þeir samt sem áður ákveða með miklum meirihluta að nota þetta vopn.
Af fjölmiðlum hefur mér skilist að deilurnar snúist um nokkur stór atriði, fiskverð, nýsmíðiálag, skiptaprósentu, mönnun og þátttöku í kostnaði.
Vígreifir aðilar útgerðarmanna telja rétt og sanngjarnt að óska eftir frestun á verkfalli, sem á að hefjast eftir nokkrar klukkustundir. Hvurslags hrokaþvæla er í gangi. Það er löngu löngu fyrirséð að fara þurfi í þessa vinnu, þ.e. samninga á milli útgerðar og sjómanna og að það standi til að fara í verkfall. Hvers vegna í fjandanum er ekki búið að lenda þessu til þess að koma í veg fyrir að skipafloti landans liggi við bryggju án þess að afla nokkurra tekna vegna einhverrar bölvaðrar frekju í þessum sjómönnum að vilja fá meiri og meiri laun. Málið snýst ekki um hærri laun, málið snýst um samninga sem báðir aðilar geta unað við og unnið eftir. Þrátt fyrir að laun einhvers vélstjóra einn túrinn á stærsta fjölveiðiskipi landsins hafi einhvern tíma einn mánuðinn verið á pari við sjálftöku-forstjóralaun hjá einhverjum af lífeyrissjóðunum eða bönkunum þá er það ekki málið.
Ekki misskilja mig, ég skil útgerðina, þeir eru í bisness og hafa lagt út í gríðarlegar fjárfestingar til þess að geta rekið þessi skip og keyrt þau áfram, útgerðirnar þurfa líka að skila hagnaði til eigenda sinna sem jú lögðu inn fé i upphafi, þeir þurfa að fá svokallaða ávöxtun á eigið fé.
Bilið á milli útgerðar og sjómanna er of breitt. Því þarf að breyta, þá fyrst fara menn að ná saman, það hins vegar gerist ekki á nokkrum klukkutímum kortér í verkfall. Ef útgerðir landsins væru reknar með þjónandi forystu að leiðarljósi værum við ekki á þessum stað í dag. Í dag er iðkuð óttastjórnun eða bara stjórnunarstíllinn „Þetta hefur alltaf verið svona“ hjá allflestum útgerðum í dag.
Enn og aftur þá breytir það því ekki að staðan í dag er yfirvofandi verkfall og ég skil sjómennina mjög vel. Krafa þeirra er m.a. gegnsæi í fiskverði sem skiptaprósentan og þar með launin þeirra byggjast á.
Önnur krafa er afnám nýsmíðiálags. Fyrir þá sem ekki vita þá er það svo í stuttu máli að ef útgerð ákveður að kaupa nýtt skip þá er útgerðinni heimilt að lækka skiptaprósentu skipverja um 10% í 7 ár eftir að nýja skipið kemur. Þegar ég heyrð þetta fyrst þá hélt ég að þetta væri djók, hver samdi þetta, hvernig gerðist þetta og hverjum datt þetta í hug!!! Það má líkja þessu við það að ég hefði í vinnunni minni fengið nýjan skrifborðsstól, tölvu og skrifborð sem atvinnurekandi minn keypti, þá yrðu laun mín 10% lægri næstu x árin!!
Þessar elskur (sjómenn) hafa nú ekki kippt sér mikið upp við það að greiða fyrir olíuna í veiðiferðinni hingað til, en þegar þeir föttuðu að olíugreiðslan sem var til frádráttarværi allt að 3-4 sinnum meiri heldur en fór í veiðiferðina vegna einhverrar undarlegrar formúlu eða hvað svo sem það kallast þá voru menn ekki til í þetta og óska eftir því að þetta verði leiðrétt samhliða kjarasamningum. Enn og aftur: Hverjum datt þetta í hug og hvað gerðist! Hversu flókið excelskjal þarf til þess að finna tölu úr olíureikningi útgerðarinnar til frádráttar?!
Síðan ég man eftir mér hafa mönnunarmál alltaf verið frekar skýr og skilgreind þá eftir stærð, tegund og þess háttar. Er það gert út frá vinnuálagi en fyrst og fremst öryggismálum. Útgerðirnar hafa verið að gambla með þetta með því að krefjast fækkunar á tiltekinni tegund skipa til þess að lækka launakostnaðinn þar sem sjómennirnir vinna víst minna en áður með tilkomu tækninnar. Það getur vel verið og alltaf er gott að hagræða, en gerið þetta þá málefnalega og í samráði við þá sem um ræðir, af þessum sömu skipum er líklega búið að taka af sjómönnunum nýsmíðiálag þar sem þetta á sér mestmegnis stað á nýjum fjölveiðiskipum. Þetta er ekki einstefna útgerðar, sjómenn hafa bara helling um þetta að segja, þeir vinna nú vinnuna og skila henni af sér. Þótt vinnan sé orðin léttari og kannski bara loksins mönnum bjóðandi þá er ekki boðlegt að menn þurfi að standa vaktir í 20-36 tíma hverju sinni þar sem mönnun er í lágmarki og unnið langar vaktir.
Sjómannaafsláttur var afnuminn með einu pennastriki af Steingrími J. Sigfússyni þáverandi fjármálaráðherra, þó í einhverjum málamyndaáföngum. Það þarf ekki að fara yfir rétt sjómanna til sjómannaafsláttar frekar en ríkisstarfsmanna sem þiggja dagpeninga á ferðalögum sínum erlendis vinnu sinnar vegna. Auk þess er sjómannaafsláttur nágrannaríkjanna margfalt hærri en nokkurn tíma hefur verið rætt hér á landi.Þá er ótalið fæðispeningar, hlífðarfatapeningar og fleira í þeim dúr sem er til háborinnar skammar í dag.
Í dag stend ég stolt upp og styð alla sjómenn og fjölskyldur þeirra í baráttunni um leiðrétt kjör. Maðurinn minn valdi það að vera sjómaður, ég valdi það að styðja hann og ég geri það með fullri reisn á sama tíma og ég skora á samningsaðila að leiðrétta þessa óreiðu, girða sig í brók og klára þetta eins og fagmenn og farið að vinna saman.
Hér á við máltakið góða, „Sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér!“
Það vilja allir vinna vinnuna sína. Það er allt og sumt.