Ungu leikararnir miðla trú á mannkynið!
Á Bláa hnettinum búa börn sem eldast ekki. Þau lifa sínu eigin lífi, enginn segir þeim til, þau eru án fullorðinna, án afskipta annarra og haga lífi sínu eftir þörfum: sofa, þar og þegar þau verða syfjuð, borða, ef þau verða svöng og leika sér þegar þau langar til. Þeirra helsta ánægja er að horfa á undur náttúrunnar og fegurst verður hún þegar fiðrildin fljúga úr helli sínum. Þetta er einfaldlega rétt eins og paradís á jörð, nema fyrir börnunum er þetta ástand eðlilegt. Hvergi örlar á þeirri þekkingu sem þarf til að gera samanburð við eitthvað annað. Það er sakleysið fullkomnað.
Tvö þessara barna eru Hulda og Brimir og kvöld eitt sjá þau stjörnu á himni sem lendir hjá þeim með hvelli, í reyknum af sprengingunni mótar fyrir skuggalegri veru og nú hefst ævintýri sem reynist bæði hættulegt og afdrifaríkt. Það varðar hvorki meira né minna en afkomu lífs og vistkerfis og sagan af Bláa hnettinum er, þegar öllu er á botninn hvolft, dæmisaga um okkur mennina á hnettinum okkar, henni móður Jörð.
Þessi vera, sem hefur lostið niður í fagurri friðsæld hins Bláa hnattar barnanna er enginn annar en geimryksugumaðurinn Gleði-Glaumur, sem kynnir ný hugtak og fyrirbæri til sögu barnanna: skemmtun, gleði og gaman – sem auðvitað er það sem máli skiptir. Gleði-Glaumur sýnir börnunum fram á að það að horfa á náttúruna, að láta sig dreyma og að horfa á fugla og fiðrildi er langt frá því stuði og fjöri sem hann getur boðið þeim uppá. Hefst nú söluherferð þar sem Gleði-Glaumur rænir fiðrildin fiðrildaduftinu sem gerir þeim mögulegt að fljúga, gefur börnunum fyrsta skammtinn (nema hvað!) og kynnir leiðindin til sögunnar!

Blái Hnötturinn
Leiðindi eru afleit – það sér auðvitað hvert heilvita barn um leið og reynt hefur! – og það þarf að kaupa sig frían frá þeim, hvað sem það kostar. En það er bót í máli að það kostar ekki nema lítið brot af æskunni (!) og raunar eru öll vandamál sem upp kunna að Gleði-Glaumi einföld þraut – hann breytir vistkerfinu, veðrinu, hverju sem breyta þarf til að börnin þurfi ekki að láta sér leiðast. Það er ekki laust við maður fari að kannast við ýmislegt.
Auðvitað er sá veruleiki, sem Andri Snær Magnason fjallar um í sögu sinni, Blái hnötturinn, mun flóknari en það upphaf dæmisögu sem hér hefur verið rakið og sagan heldur enda áfram. En með áframhaldinu hefst líka ákveðinn vandi, sem leiksýningin Blái hnötturinn á við að stríða og ástæða að spyrja, hvort ekki hefði þurft að takast á við það. Þegar kemur að því að ljóstrað er upp leyndarmálinu sem Blái hnötturinn býr yfir – börnunum í myrkrinu og villidýrunum hinum megin á hnettinum – vandast málið, því þá vaknar eðlilega spurningin, hvort börnin á Bláa hnettinum hafi ekki vitað af þessum ágöllum hins fullkomna heims? Eru þau, sem hallast að hinu fagra og náttúrulega, svona ómeðvituð um umhverfi sitt? Eða er til önnur skýring?
Þarna hefði hugsanlega sögumaðurinn, Björninn, ágætlega leikinn af Hirti Jóhanni Jónssyni, hugsanlega getað leyst hinn dramatúrgíska vanda sem þarna verður, en hlutverkið er því miður helstil ófullburða til þess. Söguþráðurinn stenst hugmyndafræðilega skoðun, en gefur minna færi á innlifun og samsömun áhorfanda og það er dálítill skaði – eða er ekki leikhúsið sterkastur listmiðla þegar áhorfandinn er gripinn tilfinningalegum tökum? Tökum, sem hann getur ekki losað sig úr nema með því að taka afstöðu! Sú afstaða væri að standa með móður Jörð og vistkerfinu og vinna gegn því að óbermi eins og Gleði-Glaumur nái völdum á mannkyni og geti þar með ráðist gegn undirstöðu lífs á jörðu!

Blái Hnötturinn 2
Hvað sem líður slíkum vangaveltum, spillir þessi ágalli lítið fyrir sýningunni sem slíkri. Hún er glæsileg afþreying og ber vott um fagmennsku þeirra listrænu stjórnenda sem að hafa komið. Leikstjórn Bergs Þórs Ingólfssonar og tónlist Kristjönu Stefánsdóttur halda góðum dampi frá upphafi til enda, dansar Chantelle Carey eru fullir af fjöri og gáska, leikmynd Ilmar Stefánsdóttur með mörgum snjöllum lausnum, frábærir og skrautlegir búningar Maríu Th. Ólafsdóttur og litrík og lifandi lýsing Þórðar Orra Péturssonar gera allt sitt, samræmt og fallega, til að skapa bráðskemmtilega sýningu sem miðlar brýnum og viðkunnanlegum boðskap: að okkur beri að fara vel með jörðina okkar. Og Björn Stefánsson fer á kostum í hlutverki Gleði-Glaums.
En það sem öðru fremur vekur gleði þess sem hér skrifar er hinn stórkostlegi hópur barna, sem að öðrum ólöstuðum ber hita og þunga af sýningunni. Hér skal enginn nefndur, en enginn gleymdur heldur – hópurinn er skemmtilega jafn, allir fá að njóta sín og gera það ósvikið. Það leikhús er öfundsvert sem státar af slíkum hópi upprennandi stjarna, sem virðist hreinlega ráða við allt og geislar af óviðjafnanlegri og ósvikinni leikgleði. Sú trú á mannkynið sem leiksýningin Blái hnötturinn miðlar, sprettur fyrst og fremst af þeim krafti sem býr í þessum hópi ungra leikara og þeirri einlægu sannfæringu sem hvert og eitt þeirra smitar af sér yfir sviðsbrún og út í sal! Þessir krakkar eiga þakkir okkar áhorfenda skildar, þeirra er heiðurinn!
Borgarleikhúsið: Blái hnötturinn
Höfundur: Andri Snær Magnason
Leikstjórn, leikgerð og söngtextar: Bergur Þór Ingólfsson
Tónlist: Kristjana Stefánsdóttir
Danshöfundur: Chantelle Carey
Leikmynd: Ilmur Stefánsdóttir
Búningar: María Th. Ólafsdóttir
Lýsing: Þórður Orri Pétursson
Hljóð: Garðar Borgþórsson
Leikendur: Andrea Birna Guðmundsdóttir, Andrea Lapas, Ágúst Örn Wigum, Baldvin Alan Thorarensen, Bjarni Kristbjörnsson, Björgvin Ingi Ólafsson, Björn Stefánsson, Edda Guðnadóttir, Emilía Bergsdóttir, Erlen Ísabella Einarsdóttir, Gabríel Máni Kristjánsson, Grettir Valsson, Gríma Valsdóttir, Guðmundur Elías Knudsen, Guðríður Jóhannsdó´ttir, Gunnar Hrafn Kristjánsson, Hjörtur Jóhann Jónsson, Hjörtur Viðar Sigurðarson, Hulda Fanný Pálsdóttir, Iðunn Ösp Hlynsdóttir, Pétur Steinn Atlason, Rut Rebekka Hjartardóttir, Sóley Agnarsdóttir, Steinunn Lárusdóttir, Sölvi Viggósson Dýrfjörð, Vera Stefánsdóttir.