Pawel afneitar kosningaloforðum Viðreisnar og sakar blaðamann um lygar
Pawel Bartoszek, þingmaður Viðreisnar, sakar Jóhann Pál Jóhannsson, blaðamann Stundarinnar, um lygar á Facebook eftir að Jóhann benti á að Viðreisn hefði lofað „tugmilljarða útgjaldaaukningu til heilbrigðis- og menntamála í aðdraganda kosninga en nú segir varaformaður flokksins ranglega í Kastljósi að slík aukning sé á skjön við lög um opinber fjármál.“ Jóhann bætir svo við að svona vitleysu sé ekki hægt að búa til eða „Can’t make this shit up.“
Hið rétta er að Viðreisn lofaði tugum milljarða útgjaldaaukningu ríkisins fyrir kosningar en hefur eftir kosningar talað gegn fjármögnun eigin loforða. Nú bætir þingmaðurinn í og sakar þá sem minna á loforðin sem komu honum á þing um lygar.
Ummælin sem Jóhann Páll vitnar til féllu í Kastljósi að kveldi þriðjudags 13. desember af hálfu Jónu Sólveigar Elínardóttur, varaformanns Viðreisnar. „Við skulum líka hafa það í huga og það er alveg ljóst að við erum nýbúin að samþykkja hér lög um opinber fjármál sem setja okkur ákveðnar skorður þegar kemur að útgjaldaaukningu.“ Þá sagði Jóna Sólveig að miðað við þær kröfur sem Vinstri græn lögðu fram hafi útgjalda aukningin ekki verið í samræmi við lög um ríkisfjármál. Ljóst væri að kröfurnar „myndu fara langt fram úr því sem að er heimilt innan ramma nýrra laga um opinber fjármál. Og það var ekki þannig að það væri búið að fjármagna allar þær tillögur sem búið var að setja upp á borðið.“
Pawel bregst ókvæða við og sakar Jóhann Pál um lygar. „You can make this shit up, cause you are. VG lofaði að fara með heilbrigðisútgjöld í 11% og gera allt ókeypis. Það gerði Viðreisn ekki.“ Þá hnýtir Pawel í kosningaloforð VG. „Munurinn stafar því af því að flokkarnir höfðu, FYRIRFRAM dálítið aðra sýn á ríkisfjármál og vöxt ríkissjóðs. Ekki að einn þeirra vissi hvað hann var að gera en hinn ekki.“
Jóhann Páll bendir á að hann hafi ekki verið að ræða um VG heldur Viðreisn en spyr Pawel hvað hann hafi verið að „making shit up?“
Þeirri spurningu svarar Pawel ekki. Þá spyr Jóhann Páll aftur: „ok, Pawel. en mér þykir sanngjarnt að þú standir fyrir máli þínu og útskýrir með hvaða hætti ég er making shit up.“
Pawel svarar þá með því að hlekkja í frétt Fréttatímans um loforð flokkanna vegna endurreisnaráskorunar Kára Stefánssonar. „Til að byrja með: erum við sammála um að þetta sé allt í lagi heimild um stefnu flokkanna fyrir kosningar?“ spyr Pawel. Fyrirsögn fréttarinnar er: „Tveir flokkar svara ákalli Kára – aðrir með óbreytt ástand.“ Jóhann svarar þá með því að spyrja Pawel hvað það komi málinu við. Pawel hefur síðan ekki svarað en liðnir eru tveir dagar síðan hann sakaði blaðamann um lygar.
Vert er að benda á að fréttin sem þingmaðurinn hlekkir í er birt 21. október. Tveimur dögum seinna birti Viðreisn stefnuyfirlýsingu sína vegna kosninga. Hún heitir „Viðreisn sýnir spilin.“ Í þeirri stefnuyfirlýsingu er tugum milljarða aukningu á útgjöldum boðið.
Viku fyrir kosningar lofaði Viðreisn að tíu milljörðum í nýjan Landspítala, 18 milljörðum í að eiga við uppsafnaða þörf á Landsspítalanum og fyrirsjáanlega útgjaldaaukningu vegna mannfjöldaþróunar, stórátaki í uppbyggingu öldrunarþjónustu sem flokkurinn mat upp á sex milljarða, auka átti framlög til heilsugæslu um milljarð á ári, lýðheilsa átti að fá annan milljarð og fjórum milljörðum átti að eyða í að draga úr greiðsluþátttöku almennings í heilbrigðisþjónustu.
Loforðadans Viðreisnar endar ekki þar því í sömu tilkynningu segir að útgjöld háskóla verði sex milljörðum hærri en í dag í lok kjörtímabilsins. Þá átti að fara í uppbyggingu innviða fyrir tuttugu milljarða og hækka skattleysismörk í 140 þúsund á mánuði.
Á þessu er því ljóst að nýbakaður þingmaður Viðreisnar hefur ekki aðeins komist á þing með loforðum um stórfellda aukningu á útgjöldum. Heldur sakar hann þá sem rifja upp þau loforð um að „making shit up.“
Pawel vakti talsverða athygli á fyrstu dögum þingmannaferilsins fyrir að kalla skatta ofbeldi. Ummælin vöktu athygli því Viðreisn er flokkur sem telur sig á miðju íslenskra stjórnmála. Hugmyndir um skatta sem ofbeldi má finna á ysta væng hægristjórnmála. Ummælin lét Pawel falla í vörn sinni fyrir hækkun á launum þingmanna. Hækkun sem samþykkt var af Kjararáði á kjördag en ekki tilkynnt fyrr en eftir kosningar. „Jú,jú, laun þingmanna þurfa að vera samkeppnishæf, þeir fjárhagslega sjálfstæðir og allt það. En engu að síður: Hækkanir á þingfarakaupi sem kjararáð færði okkur eru of háar. Þetta eru peningar sem teknir eru af öðru fólki með ofbeldi. Það er ekki endilega sjálfsagt að ég, verkefnastjóri hjá alþjóðlegu stórfyrirtæki, fái hærri upphæð við hver mánaðarmót við það að setjast á þing. Í rauninni er það algjört rugl,“ skrifaði Pawel.
Illugi Jökulsson, pistlahöfundur, blandar sér í umræðurnar og segir það ekki rétt að laun þingmanna séu tekin með ofbeldi af öðru fólki. „Við höldum úti þessu samfélagi með samkomulagi, ekki ofbeldi,“ skrifar Illugi meðal annars. „Já skattar eru ofbeldi,“ svarar Pawel og deilir í kjölfarið grein eftir Jón Steinsson hagfræðing þar sem Jón Steinsson kallar skatta einmitt ofbeldi.