Ábyrgð fjölmiðla, eða þegar DV bullaði um mig á þórsdegi
Flest höfum við heyrt minnst á ekki-fréttir, rangar fréttir, upplognar, misvísandi og villandi fréttir. Hér er saga af einni slíkri. Ég veit hún er villandi, því DV tók mín orð og skrumskældi.
Að morgni fimmtudags setti ég inn hugmynd á Pírataspjallið. Hvernig væri að breyta nöfnum daganna yfir í það sem var fyrir kristnitöku? Facebook hafði minnt mig á að ég setti þetta fram fyrir 2-3 árum og fékk eitt læk fyrir. Ég brosti, fannst þetta sniðugt og henti því inn á Pírataspjallið.
Eins og flestir sennilega vita er Pírataspjallið óformlegur vettvangur og meðlimir að minnsta kosti þrisvar sinnum fleiri en skráðir eru í flokkinn. Það hefur þó ekki stoppað suma fjölmiðla í að klína öllu sem þar fer fram á flokkinn. En hvað gerðist í dag?
Hugmyndin sem ég setti fram var svohljóðandi:
Breytum vikudögunum aftur. Tökum aftur upp nöfnin sem kirkjan stal af okkur í afbrýðisemiskasti.
Mánudagur, Týsdagur, Óðinsdagur, Þórsdagur, Freyjudagur, Laugardagur, Sunnudagur.
Auðvitað hefði mátt orða þetta varlegar. Kirkjan sem átt er við er auðvitað kaþólska kirkja 12. aldar sem vildi losa sig við nöfn gömlu goðanna og stakk upp á þessum afar ófrumlegu nöfnum, þriðjudagur af því hann er þriðji dagur vikunnar, miðvikudagur, fimmtudagur. Föstudagur er dagur föstu og sá síður lagðist af við siðaskipti, en hvað um það. Það mátti kannski vanda sig betur svo að Þjóðkirkja nútímans yrði ekki bendluð við málið, en það var auðvitað ekki ætlunin að þessi hugmynd yrði frétt.<
En svo kom DV. Slengdi þessu fram með fyrirsögninni:
Píratar vilja breyta nöfnum á vikudögum: „Tökum aftur upp nöfnin sem kirkjan stal“
Mikil eru mín völd. Þessi hugmynd sem ég setti inn af því mér fannst hún krúttleg og hefði gaman af umræðum um, var orðin stefna flokksins. Píratar vilja breyta nöfnum á vikudögunum. Píratar. Ekki bara ég, Píratar. Það hafði auðvitað enginn samband við mig. Það hafði enginn fyrir því að athuga hvort þetta væri virkilega stefna flokksins, enda veit ritstjórn DV örugglega að svo er ekki. Ég verð að gera ráð fyrir að DV sé viljandi að blekkja lesendur sína til að koma höggi á Pírata.
Þetta var hugmynd sem ég henti inn af því mér finnst hún skemmtileg og hafði áhuga á að sjá hvað fólk hefði um hana að segja. Þetta kom af stað líflegum samræðum og þar með var takmarkinu náð. Hvorki ég né flokkurinn erum á leið í herferð gegn nöfnum vikudaganna, svo það sé á hreinu. Það var aldrei takmarkið að einhver snepill tæki mín orð, skrumskældu þau og eignuðu flokkunum. Hefði einhver haft samband við mig, hefði ég getað sagt að þetta kæmi flokknum ekkert við og að ég hafi engin áform um að setja saman stefnu um málið. Þetta er mér ekkert hjartans mál þó ég hafi áhuga á að ræða það.
Það er ekki erfitt að hafa samband. Höfundur fréttarinnar hafði það af að finna út að ég var í framboði fyrir Pírata, svo einhver vinna hefur farið í að skrifa þessa þvælu. Hann eða hún hefði getað sent mér skilaboð, en það var ekki gert. Þessu var hent upp, án þess að sannleiksgildi væri rannsakað. Sennilega viljandi villandi.
Í fréttinni segir að ég sé virkur í starfi flokksins. Það er stórlega ýkt. Ég hefði getað leiðrétt það ef einhver hefði haft áhuga. Þó ég hafi hafnað í sextánda særi í suður, er ég ekki virkur í starfi flokksins. Ég háði enga kosningabaráttu, kynnti mig sama og ekkert og lenti því ekki ofar en raun ber vitni. Svo virkur er ég, svo mikil eru mín völd. Ég hef vissulega rætt við fólk, en hvorki setið fundi (nema aðalfundinn) né reynt að hafa teljandi áhrif á stefnur flokksins. Ég er sennilega það sem kallað er baklandið. Meira ekki. Svo því sé haldið til haga.
Þessi frétt er röng, fyrirsögnin kolröng og DV hefur ekki aðeins gjaldfellt sig, það hefur gert sig málefnalega gjaldþrota.
Þetta væri rosalega fyndið ef fólk væri ekki að falla fyrir svona drasl blaðamennsku. Ég hló þegar ég sá fréttina, en hætti að hlæja þegar ég sá athugasemdir þar sem fólk var að bendla Birgittu við þetta (ég veit ekki til þess að hún viti af málinu), tengja þetta við kirkjuheimsóknir skólabarna (fullkomlega óskyld mál), kallaði þetta tímasóun því það væru þarfari mál sem þyrfti að leysa (ég er ekki að taka þátt í stjórnarmyndunarviðræðunum og veit ekki til þess að fólkið sem er í því hafi verið að eyða tíma í umræður um þetta). Það er nefnilega svo auðvelt að afvegaleiða umræðuna ef þú ert fjölmiðill. Fjölmiðlar geta plantað hugmyndum í huga lesenda. Það er ástæða fyrir því að fjölmiðlar eru kallaðir fjórða valdið.
Það má líka taka fram að það er óþolandi að fjölmiðill sem vill láta taka sig alvarlega taki eitthvað sem ég setti fram á óformlegu spjalli og skrumskæli það þannig að meðlimir flokksins þurfi að svara fyrir. Það er óþolandi að geta ekki tjáð sig á óformlegu spjalli án þess að þurfa að óttast að orðin verði notuð í annarlegum tilgangi. Það er óþolandi að við getum ekki treyst því sem við lesum í fjölmiðlum. Ég hef engan áhuga á að vera fréttamatur fólks sem nennir ekki að vinna vinnuna sína, eða er í einhverju áróðursstríði. Ef við getum ekki sett inn hugmyndir á óformlega spjallþræði á netinu án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því að einhver troði einhverri meiningu á okkur, blási samræður okkar út sem eitthvað sem þær eru ekki, er tjáningarfrelsið orðið illa laskað.
Það er hægt að læra af þessu. Trúum fréttum ekki blint. Reynum að lesa þær gagnrýnt. Látum ekki ljúga að okkur. Lesum ekki fjölmiðla sem verða vísir, trekk í trekk, að rangfærslum og áróðri. Verum gagnrýn. Látum ekki draga okkur á asnaeyrunum. Og ef þú ert blaðamaður, vanda sig. Þú hefur áhrif og það er óafsakanlegt að ljúga að lesendum. Þú ert næstum því jafn hættulegur og læknir sem gefur vísvitandi röng lyf. Í sumum tilfellum hættulegri.
Það er kominn tími til að fjölmiðlar á Íslandi hysji upp um sig brækurnar og fari að taka starf sitt alvarlega. Við höfum engin not fyrir handónýta áróðurssnepla.
Takk fyrir mig og gleðileg jól!
„Vilhjálmur Geir Ásgeirsson eða Villi Ásgeirsson eins og hann er gjarnan kallaður“