Lofaði „besta heilbrigðiskerfi í heimi“ en nú er umræðan „hundleiðinleg“ og „árviss faraldur“
Nýr þingmaður Samfylkingarinnar Guðjón S. Brjánsson komst á þing með loforðum um „besta heilbrigðiskerfi í heimi“ en gagnrýnir nú stjórnendur Landspítalans fyrir að fjallað sé um bága fjárhagsstöðu stofnunarinnar samhliða umræðum um fjárlög. Guðjón kallaði umræðuna „hundleiðinlega“ og „árvissan faraldur“ í þættinum Í bítið á Bylgjunni í morgun. Guðjón var þar gestur ásamt Jóni Gunnarssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins. Vel fór með þeim Jóni og Guðjóni sem báðir virðast telja vanda Landspítalans ímyndarlegan fremur en fjárhagslegan. Allavega voru þeir sammála um að vinda þyrfti ofan af umræðunni. Hér er því enn einu sinni um að ræða vanda sem fyrst og fremst snýst um hvað umræðan er vond gagnvart stjórnmálamönnum fremur en að umræðan spretti upp frá raunverulegum vanda.
Sjá einnig: Alþingi Íslendinga, þjóðin er þinn herra, ekki satt ? Opið bréf til löggjafans
Þingmenn hræra upp í menningarstríði milli Landspítala og höfuðborgar
Báðir þingmenn höfðu talsvert meiri áhuga á að ræða stöðu Landspítalans sem byggðamál fremur en heilbrigðismál. Þeir gáfu sér þá forsendu að fyrst og fremst sé vandamálið að Landspítalinn taki um of frá heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni. Sem sagt er hér enn eitt tækifærið til að stilla málum þannig að hér sé aðallega um átök um skiptingu gæða milli landsbyggðar og höfuðborgar, en ekki að árum saman hafi verið rekin hörð fjársveltisstefna í heilbrigðismálum.
Sjá einnig: Ásmundur Friðriksson segir Landspítalann hýsa sjúka á göngum fyrir „sjónvarpsvélarnar og fréttamenn“
Þar slást þeir félagar í hóp með mönnum eins og Ásmundi Friðrikssyni og Kjartani Má Kjartanssyni, bæjarstjóra Reykjanesbæjar. Ásmundur sagði opinberlega í gær að Landspítalinn vistaði sjúklinga á göngum „svo sjónvarpsvélarnar og fréttamennirnir geti flutt ljótar sögur úr heilbrigðiskerfinu.“ Þingmaðurinn, eins og Guðjón og Jón Gunnarsson, benti svo á að heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni væru illa nýttar.
Í öllum tilvikum virðast þingmennirnir nokkuð illa að sér í stefnumótandi hlutverki þingstarfsins sem þeir þó fara sjálfir með en ólíkt Guðjóni hafa þeir Jón og Ásmundur einmitt starfað á þingi árum saman og haft í hendi sér að móta stefnu fyrir heilbrigðismál á landinu öllu. Það hefur þó undanfarin ár strandað á fjármagni en fjárframlög til heilbrigðismála hafa almennt lækkað sem hlutfall af þjóðarframleiðslu hér á Íslandi, allt frá síðustu aldamótum. Viðbrögð við því var endureisnarkrafa sem 87 þúsund manns skrifuðu undir. Undirskriftalistinn var afhentur ráðamönnum í lok apríl og enginn flokkur sem náði þingmanni kjörnum komst þangað án þess að lofa stórfelldum umbótum í heilbrigðismálum.
Sjá einnig: Hvað eiga stjórnmálamenn að komast oft upp með að lofa endurreisn heilbrigðiskerfisins?
Í þeim tilgangi að ræða fjársvelti heilbrigðisþjónustunnar á Íslandi sem byggðamál fremur en fullkomið dæmi um pólitíska vanrækslu og fjársvelti sagði Ásmundur í gær „töluvert af lausum rýmum á sjúkrahúsum akkúrat núna allt í kringum Landsspítalann.“ Þá sagði Jón Gunnarsson í morgun að „þegar sviðsmyndin var sett upp, að Landspítalinn setti upp sjúkrarúm í bílageymslunni á Hringbraut. Þá var ekki eitt einasta símtal í nágrannasjúkrahúsin; getið þið tekið við sjúklingum frá okkur til að létta á okkur?“ Guðjón bendir svo á að endurskilgreina verði hlutverk Landspítalans og að hann geri of mikið. Í grein sem hann skrifaði fyrir kosningar segir: „Á sjúkrahúsinu á Akranesi er t.a.m. sterkur vilji til að koma á fót sérstakri liðskiptadeild með lágmarks tilkostnaði. Með skipulags- og áherslubreytingum væri hægt að fjölga valaðgerðum verulega, til hagsbóta fyrir alla aðila. Á Suðurnesjum og á Suðurlandi eru öflugar heilbrigðisstofnanir sem axlað geta ábyrgð á ýmsum valaðgerðum, umfram það sem nú er. Þetta er mikilvægt byggðamál, jafnréttis- og sanngirnismál fyrir íbúa landsbyggðarinnar. En þetta er einnig til hagsbóta fyrir Landspítalann og léttir á álagi þar á bæ, sem engum dylst að hefur verið mikið undanfarin misseri.“
Sjá einnig: Jón Gunnarsson telur Panamaskjölin hvítþvo Sjálfstæðisflokkinn
Þótt vissulega sé nauðsynlegt að ræða byggðasjónarmið heilbrigðismála þá vekur það furðu að stjórnmálamenn sameinist um að gagnrýna Landspítalann fyrir umfjöllun um stöðu heilbrigðismála í kringum fjárlög – og skömmu eftir kosningar – líkt og í landinu séu ekki frjálsir fjölmiðlar með sjálfstætt fréttamat. Það kann að koma stjórnmálamönnum á óvart en fréttir af fjárþörfum stofnana eru bæði fréttnæmari og gagnlegri í kringum fjárlög en til að mynda um páska. Það má líkja þessu við fréttir af dagskrá Þjóðhátíðar, en flestir átta sig á því að frétt af dagskrá hátíðarinnar er umtalsvert fréttnæmari og gagnlegri vikuna fyrir en á mánudeginum eftir. Þetta er nú stóra samsærið á bak við það hvers vegna fjárskortur stofnanna er meira í fréttum í kringum fjárlög og þarf nú engan snilling í fréttamennsku til að sjá þennan augljósa sannleik.
Þá er vert að benda þingmönnum á að forstjórar ríkisstofnana fara með rekstur og ábyrgð á stofnunum. Þeim er ætlað að tryggja að starfsemi þeirra sé í samræmi við lögbundnar skyldur en til þess þarf fé. Það er svo um leið þingmanna að ganga úr skugga um að stefnumótun sé til staðar og að fjárlög til verkefna séu í samræmi við lögbundnar skyldur. Þingmenn geta ekki endalaust samþykkt lög sem festa lagaskyldur á stofnunum án þess að þeim fylgi fjármagn. Vera má að Guðjón sé enn að læra þetta en hvaða afsökun hafa Ásmundur og Jón Gunnarsson?
„Hundleiðinleg umræða“
Guðjón er fyrrverandi framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Vesturlands og hóf umræðuna á því að gera lítið úr umræðunni „úr ranni Landspítalans“ og kallaði það hið „mikla völundarhús.“ Þingmaðurinn viðurkenndi að stofnunin væri mikilvæg en taldi að vandamálið væri ekki fjárhagslegt heldur skortur á stefnumótun. Þess skal getið að Landspítalinn hefur sjálfur sagt tólf milljarða hækkun á framlagi nauðsynlega til að bregðast við bráðavanda. – Hvernig finnst þér umræðan? „Mér finnst hún hundleiðinleg sem utan frá komandi sem sagt,“ svaraði Guðjón spurningu þáttastjórnandans. Þá lýsti hann áhyggjum yfir vellíðan starfsmanna vegna „neikvæðrar umræðu.“ Starfsmenn Landspítalans hafa alla jafna kvartað yfir álagi og fjárskorti fremur en neikvæðri umræðu og því ætti þingmaðurinn að geta sofið rótt yfir þeim vanda.
„Ég held að öll þessi umræða hljóti að reyna mjög á alla starfsmenn á Landspítalanum. Þessi neikvæða umræða. Þið talið um vandamál Landspítalans en þarna inni er náttúrulega unnið gríðarlega gott starf og mikið og mörg vandamál leyst,“ sagði þingmaðurinn glænýi líkt og hann hefði aldrei gert annað en að snúa út úr í pólitískum tilgangi.
Sjá einnig: Pawel afneitar kosningaloforðum Viðreisnar og sakar blaðamann um lygar
Hann sagði umræðuna „algjörlega óviðunandi“ og gagnrýndi framsetningu hennar. „Bæði gagnvart þeim sem þarna starfa, stjórnvöldum og öllum sem vinna í heilbrigðisþjónustu. Við þurfum að vinda ofan af þessari orðræðu. Hún er til vansa.“ -Hvað er fyrst of fremst óviðunandi við þessa umræðu? „Ja þessi árvissi faraldur sem gengur í fjölmiðlum og beinist þá fyrst og fremst að Landspítalanum. Spítalinn er náttúrulega lang stærsta heilbrigðisstofnunin og sú mikilvægasta í landinu.“
Sjá einnig: Fjárlög Bjarna Benediktssonar „hamfarir“ fyrir Landspítalann og „svik við þjóðina“
Guðjón kallar eftir stefnumótun eins og er lagið þegar slá á umræðu út af borðinu. „Að þeir [stjórnendur Landspítalans] finni sig knúna til að fara í þennan leiðangur á hverju einasta ári gagnvart stjórnmálamönnum til þess að knýja fram aukið fé til rekstrar. Það er algjörlega óásættanlegt. Af hverju gerist þetta? Ég held mikilvægasta atriðið og það var nú á þetta bent í McKinsey skýrslunni – sem kannski hefur verið nefnd hér áður – að það vantar stefnumótun. Það vantar stefnumótun um heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Það vantar stefnumótun fyrir Landspítalann; hvað á hann að gera og hvað á hann ekki að gera. Hann er að gera alltof mikið í dag. Hann er að gera ýmislegt sem hann á alls ekkert að fást við. Þá aðallega í smærri atriðum.“
Sjá einnig: Hvað varð um heilbrigðiskerfið?
Stuttu fyrir kosningar skrifaði Guðjón um stöðu heilbrigðismála þar sem kom fram að hann teldi aukið fé eitt og sér ekki duga til umbóta. „En við vitum líka að það dugir ekki eitt og sér að leggja meiri fjármuni til heilbrigðismála, það er nauðsynlegt að endurskoða skipulag allrar heilbrigðisþjónustu, á hvaða stigi hún er veitt og hvert er hlutverk hinna ýmsu stofnana. Við viljum bæði skoða heilsugæsluna og sjúkrahúsþjónustuna sjálfa, skilgreina betur hlutverk Landspítala og tryggja að heilbrigðisstofnanir utan Reykjavíkur fái stærra hlutverk og verði nýttar betur í þágu íbúa á landsbyggðinni. Þannig náum við betri árangri, hagkvæmni og sátt.“
Og hvenær er besta tækifærið til að taka þessa umræðu? Jú, þegar örfáir dagar eru til áramóta, minnihlutastjórn í landinu og neyðarástand í heilbrigðismálum þjóðarinnar. Þá skal fara í stefnumótun sem snýst fyrst og fremst um það að láta stofnanir ríkisins rífast um brauðmylsnu líkt hleifurinn sé hvorki til né í boði til skiptanna.
Misskildir menn
Þrátt fyrir stuttan þingferil virðist Guðjón hafa tileinkað sér gildi og hegðun reynslumeiri þingmanna. Stuttu eftir viðtalið birti hann færslu á Facebook þar sem hann dró í land og vildi meina að snúið væri út úr orðum hans og að um misskilning væri að ræða. „Vegna túlkana á orðum mínum í útvarpsviðtali í morgun, vil ég segja alveg skýrt, að við í þingflokki Samfylkingarinar erum einhuga í baráttu okkar fyrir því að auka verulega fé til heilbrigðismála – þar með talið Landspítalans – á fjárlögum næsta árs. Sem starfsmaður heilbrigðiskerfisins um árabil myndi ég gjarnan kjósa að umræða um heilbrigðismál og fjármögnun þess, forgangsröðun og stefnumótum, væri ítarlegri en við sjáum þessa dagana og vara við því að orð séu toguð til til að reyna að búa til ágreining þar sem fólk er í hjarta sínu sammála.“
Leiðinlegt hvað fólk misskilur alltaf og rangtúlkar þegar stjórnmálamenn mæta í 15 mínútna spjall í útvarpi um stöðu Landspítalans og nota allan tímann til að tala um umræðuna frekar en hina raunverulegu stöðu. Skilur fólk ekki að þótt hann hafi eytt nánast öllum tímanum í að tala um allt annað en fjárþörf Landspítalans þá var hann að sjálfsögðu að reyna að meina eitthvað allt annað….
„Endurreisum heilbrigðiskerfið það þolir enga bið.“
Þingmaðurinn situr sjálfur á þingi fyrir flokk sem lofaði „besta heilbrigðiskerfi í heimi“ og þar á meðal var loforð um stóraukið fjármagn til heilbrigðisþjónustu. „Við tökum undir ákall 87.000 Íslendinga um að veita meira fé til heilbrigðismála. Það gengur ekki að sjúkrahús séu fjársvelt á sama tíma og efnahagurinn er á stöðugri uppleið, og útgerðin græðir á tá og fingri. Veikir Íslendingar og fjölskyldur þeirra eiga að hafa forgang. Við eigum öll að geta gengið að öflugri opinberri heilbrigðisþjónustu um allt land. Ókeypis. Alltaf.“
Í þessu samhengi vekur furðu að þingmaður Samfylkingarinnar taki sé stöðu með þingmönnum Sjálfstæðisflokksins og gagnrýni stjórnendur Landspítalans fyrir að vekja athygli almennings og stjórnmálamanna á bágri fjárhagsstöðu spítalans samhliða fjárlagagerð; eða á sama tíma og stjórnmálamenn geta brugðist við.
Tekið skal fram að heilbrigðisstefna Samfylkingarinnar gerir ráð fyrir því að efla heilbrigðisgæslu og byggja upp öflugar stofnanir um allt land. Flokkurinn lofaði því talsverðri endurskoðun á kerfinu og stefnumótun. Þau loforð eru þó ekki til þess fallin að aftengja loforð um tafarlausa endurreisn heilbrigðiskerfisins eða eins og flokkurinn orðaði það: „Endurreisum heilbrigðiskerfið það þolir enga bið.“
Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að það var ekki skilningur kjósenda á þessum loforðum að enn eitt ár fjársveltis biði Landspítalans á meðan þingmenn Samfylkingarinnar föndruðu við stefnumótun, heildarendurskilgreiningu og tæknileg smáatriði eins og það í hvaða skurðstofu liðaskiptaaðgerðir yrðu framkvæmdar. Nei, ég tel nokkuð ljóst að loforð Samfylkingarinnar voru efnislega túlkuð sem svo að staðið yrði með Landspítalanum og heilbrigðisstofnunum í fyrstu fjárlögum eftir kosningar og þar á eftir.
Báráttan gegn „hundleiðinlegri“og neikvæðri umræðu og orðræðu „sem vinda þarf ofan af“ til að enda „árlegan faraldur“ held ég að hafi verið ansi neðarlega á lista loforða sem komu Guðjóni á þing. Allavega fann ég ekki vott af slíku á vefsvæði flokksins.
Ætla má að kjósendur geti gert þá kröfu á þingmann flokks með slík loforð á bakinu að fjármögnun heilbrigðisstofnana fyrir árið 2017 sé kláruð áður en umræða um heildarendurskoðun og stefnumótun heilbrigðismála hefst.
Nema að ætlunin hafi alltaf verið að klára fjárlög og algjöra endurskoðun á framkvæmd heilbrigðismála á þeim ellefu dögum sem eru eftir fram að áramótum. Guðjón, Jón og Ásmundur verða allavega að fara að bretta upp ermar ef það á að takast. Sem betur fer eru þeir þegar orðnir miklir kumpánar í pólitískum skilningi og sameiginlega fórnarlömb neikvæðrar umræðu vegna yfirvofandi hruns heilbrigðisþjónustunnar.