Það er ekki von á góðu
„Við erum í raun og veru að horfa á tímasprengju í heilbrigðiskerfinu þegar kemur að vaxandi sykurneyslu.“
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna
Í Kastljósi kvöldsins var rætt við tvo sérfræðinga um mikla sykurneyslu og hvernig draga má úr henni. Bæði vilja þau að lagður verði og voru undrandi á neikvæðri afstöðu margra stjórnmálamanna til skattlagningar sem lið í því að draga úr neyslu sykurs.
Laufey Steingrímsdóttir, prófessor í matvæla- og næringarfræði, er sömu skoðunar og bendir réttilega á að skattlagning sé áhrifarík leið til að hafa áhrif á og draga úr neyslu á sykri. Samkvæmt trúarbrögðum hægrimanna er skattlagning alltaf vond. Sumir þeirra segja skatta vera ofbeldi. En hvað segja stjórnmálamennirnir?
Í stuttri ræðu sinni árið 2009 tók Guðlaugur Þór Þórðarson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, orðið „sykur“ sér í munn í einhverri mynd oftar en tuttugu sinnum og alltaf í þeim tilgangi að tala gegn sykurskatti. Merkileg ræða!
Haustið 2014 hélt Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra því fram að sykurskattur hefði engan veginn náð þeim tilgangi sem ætlað var og hafi aldrei verið líklegur til þess, því ætti að afnema hann. „Þetta var einfaldlega enn einn skatturinn á íslensk heimili, sem er tímabært að afnema,“ sagði Bjarni. Þetta reyndist rangt eins og svo margt annað.
Í umræðu um fylgifrumvörp fjárlagafrumvarps ríkisstjórnarinnar fyrir síðustu jól lýsti þingmaður Pírata því yfir að sá hópur hafi aldrei verið hrifinn af sykurskatti. Formaður Samfylkingarinnar var heldur ekki tilbúinn til að leggja þeim lið sem lögðu til að aftur yrði lagður á sykurskattur. Sömu sögu var að segja af Bjartri framtíð sem gagnrýndi jafnframt og lagðist gegn öllum tillögum um nýja tekjuöflun.
Hér er aðeins stiklað á stóru um afstöðu stjórnmálamanna til sykurskatts.
Með einni undantekningu, þ.e. Vinstri grænum, er ekki að sjá að nokkur stjórnmálaflokkur sé viljugur til að taka undir með þeim sérfræðingum sem vilja leggja á sykurskatt.
Það er ekki von á góðu.