Veikindasaga Virginíu Woolf
„Ég þreifa á glórunni í mér eins og á peru til að gá hvort
hún sé orðin þroskuð; hún verður fín í september.“
Úr bréfi til Vanessu 1910
Virginía Woolf (1882–1941) barðist löngum við erfið veikindi. Fyrst bar á þeim við lát móður hennar þegar hún var 13 ára, og þeim lauk ekki fyrr en með sjálfsvígi hennar þegar hún var 59 ára. Deilt hefur verið um orsakir veikindanna, en svo er þó tæpast lengur ef dæma má af nýlegum ævisögum hennar eftir ýmsa bókmenntafræðinga og geðlækna.
Á seinni hluta 20. aldar bar nokkuð á þeirri skoðun að veikindi Virginíu mætti rekja til kynferðislegrar misnotkunar í bernsku og æsku. Louise DeSalvo er líklega sá bókmenntafræðingur sem hvað mest hefur rakið veikindi hennar til slíkra orsaka.
Skömmu fyrir lát sitt ritaði Virginía minningar um bernsku- og æskuárin: “A Sketch of the Past” eða „Leiftur frá liðinni tíð“, en ætlaði þær ekki til birtingar og þær voru ekki gefnar út fyrr en 1976 – eða 35 árum eftir lát hennar – og þá með öðrum minningum hennar undir samheitinu Moments of Being. En being og non-being voru hugtök sem hún notaði til að lýsa fyllingu lífsins og tómleika eða auðn. Þar fjallar hún meðal annars um hálfbræður sína, þá Gerald (12 árum eldri) og George (14 árum eldri en Virginía), hvernig Gerald káfaði á henni innanklæða þegar hún var krakki (6–7 ára) á meðan fjölskyldan var í árlegri sumardvöl sinni í St Ives í Cornwall, en George skapar sér seinna eins konar föðurhlutverk (með kynferðislegu ívafi þó) gagnvart þeim systrum Vanessu og Virginíu. Að „ganga út“ er að hans dómi æðsta takmark kvenna og til þess þurfa þær að vera gjaldgengar í samkvæmislífinu, læra að dansa, sækja partí – „vera innan um fólk sem hlær að því sem manni er annt um,“ ritaði Virginía – og giftast svo að lokum inn í aðalinn. Þær systur gera óspart gys að George, finnst hann heimskur og snobbaður.
„Kvöldin sem hún klæddi sig uppá og fór út með George [ritar Virginía um sjálfa sig í þriðju persónu] enduðu með því að hann hjálpaði henni að hátta, eða þá að hann kom inn í herbergið eftir að hún var háttuð, lagðist upp í rúmið hennar og fór að kjassa hana.“
„Aldrei grunaði gömlu frúrnar í Kensington [hverfinu í London þar sem fjölskyldan bjó] að George Duckworth væri ekki bara faðir og móðir, bróðir og systir heldur líka elskhugi veslings Stephen-systranna.“ – Þetta flangs kærði Vanessa síðan til heimilislæknisins dr. Savage í veikindum Virginíu 1904 þegar hún var 22 ára.
Hermione Lee – sem vafalítið má kalla virtasta ævisagnaritara Virginíu – fjallar um málið í kaflanum Abuses í ævisögu Virginíu og segir alveg umbúðalaust: “There is no way of knowing whether the teenage Virginia Stephen was fucked or forced to have oral sex or buggered. Nor is it possible to say with certainty that these events, any more than Gerald Duckworth’s interference with the child Virginia, drove her mad.” – Hún gagnrýnir þá kenningu Louise DeSalvo að Virginía hafi misst meydóminn 6–7 ára, enda verður það – að dómi þeirra ævisagnahöfunda sem mér finnst mest mark takandi á – vart kallað annað en heilaspuni. (En þau orð H. Lee að ekki verði með vissu sagt hvort athæfi hálfbræðranna hafi valdið veikindum hennar eru hæpin – að ekki sé meira sagt – og skoðun lækna er núorðið eindregið sú að skýring af því tagi komi ekki til greina. Ég vík að því síðar.)
Bestu lýsingar á veikindum Virginíu er að finna hjá Lénharði manni hennar sem hélt nákvæmar dagbækur þar að lútandi. Hér er eitt dæmi, sem best er að hafa á frummálinu:
“In the first stage of the illness from 1914 practically every symptom was the exact opposite of those in the second stage in 1915. In the first stage she was in the depths of depression, would hardly eat or talk, was suicidal. In the second she was in a state of violent excitement and wild euphoria, talking incessantly for long periods of time. In the first stage she was violently opposed to the nurses and they had the greatest difficulty in getting her to do anything; she wanted me to be with her continually and for a week or two I was the only person able to to get her to eat anything. In the second stage of violent excitement, she was violently hostile to me, would not talk to me or allow me to come into her room. She was occasionally violent to the nurses, but she tolerated them in a way which was the opposite of her behavior to them in the first stage.” (Leonard Woolf: Beginning Again [sjálfsævisaga áranna 1911–1918, bls. 16]).
Þetta er augljóslega lýsing á geðhvarfasýki (e. manic-depressive illness eða bipolar disorder); Peter Dally, breskur geðlæknir, telur reyndar að um cyclothymia – ögn vægari tegund sjúkdómsins – hafi verið að ræða). Geðhvarfasýki er arfgeng, genetísk. Veikin er kunn í öllum þekktum þjóðfélögum og einkennum hennar var lýst vel af grískum læknum í fornöld.
Thomas C. Caramagno, bandarískur sálfræðingur og bókmenntafræðingur, bendir á að foreldrar Virginíu, Leslie og Julia Stephen hafi bæði verið þunglynd og í föðurættinni sé geðhvarfasýki arfgeng. Náinn ættingi Virginíu, Jim Stephen, var með þá veiki á háu stigi og svelti sig til bana. Leslie var sjálfur afar mislyndur, fékk bræðisköst – mágkona hans af fyrra hjónabandi lýsti honum á þá leið að hann væri „eins og köld sturta“ á allt sem þær systur langaði að gera – hann var fullur sjálfsvorkunnar og ætlaði Vanessu hreint lifandi að drepa, en hana setti hann yfir heimilið eftir lát konu sinnar. En meðan Júlía lifði talaði hann um að með henni og innan um börnin væri hann óhultur „eins og dýr í greni“. – Leslie stundaði ritstörf af kappi, átti frábært bókasafn sem Virginía sótti mjög í, og var fyrsti ritstjóri og einn höfunda flokks ævisagna þjóðkunnra Breta (Dictionary of National Biography). Kærleikar voru með þeim Virginíu þótt henni ofbyði oft fyrirgangurinn í honum. Hann var orðinn nánast heyrnarlaus undir lokin og það þurfti að æpa inn í eyrað á honum í gegnum trekt.
Það er örugglega rétt hjá Hermione Lee að við getum aldrei vitað með vissu hversu nærgöngulir hálfbræðurnir voru við Virginíu. Hitt hefur geðlæknisfræðin kennt okkur að kynferðisleg misnotkun getur að vísu valdið djúpri geðlægð og langvarandi þunglyndi. En hún getur ekki valdið maníu. Það var hinsvegar hvorttveggja þetta sem einkenndi veikindi Virginíu. (Þess má svo geta að lækningamáttur liþiums við geðhvarfasýki uppgötvaðist af hreinni tilviljun einungis átta árum eftir lát Virginíu og var viðurkennt af bandarísku geðlæknasamtökunum 1969.)
Athyglisvert er einnig að í “A Sketch of the Past”, sem áður er á minnst, lýsir hún hinni árlegu sumardvöl í St Ives þegar hún var krakki – og þar sem Gerald abbaðist upp á hana – hún lýsir henni sem paradís bernskunnar og ber saman við London, lýsir lífinu á stöðunum tveim sem being og non-being eins og áður segir, sem veru og veruleysi, sem fyllingu lífsins og eyðimörk.
Þá má benda á að hún velur Gerald sem forleggjara tveggja fyrstu bóka sinna og talar einkar hlýlega um George að honum látnum. Af því má ráða að hún hafi að minnsta kosti ekki borið haturshug til þeirra.