Bjarni Benediktsson fetar í fótspor Sigmundar Davíðs: „Hughrif“ valda óánægju með heilbrigðismál
„Aukin útgjöld til heilbrigðismála á síðustu árum hafa ekki náð að lækna þessi hughrif,“ sagði Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, um óánægju vegna stöðu heilbrigðismála hér á landi í stefnuræðu sinni á Alþingi í gær. Forsætisráðherra notaði ræðuna til að fara yfir helstu mál ríkisstjórnarinnar þar á meðal háværa kröfu um mikla aukningu fjármagns til heilbrigðismála.
Í málefnasamning ríkisstjórnarinnar kemur fram að heilbrigðismál verði sett í forgang. Sérstaklega er fjallað um mikilvægi þess að hér á landi sé heilbrigðisþjónusta bæði örugg og góð en um leið verði aðgengi að henni að vera „óháð efnahag og þjóðfélagsstöðu.“ Ríkisstjórnin lofar að stefna að minni greiðsluþátttöku einstaklinga fyrir heilbrigðisþjónustu og að nýr spítali rísi árið 2023. Þó hefur borið á því eftir að ríkisstjórnin tók við lyklavöldum að bæði forsætisráðherra og fjármálaráðherra hafi séð ástæðu til að tala niður væntingar um betrumbót með því að benda á að fjármagn sé takmarkað. Stefnuræða forsætisráðherra var einnig á þann veg.
Sjá einnig: Bjarni segir 70% fólks í raun bagga á ríkinu að því er varðar tekjuskatt
Í ræðu forsætisráðherra í gær mátti þó greina tón væntingastjórnunar. Þar lagði ráðherra áherslu á að varlega yrði að fara í verkið, aukið fjármagn eitt og sér væri ekki nóg sem og að ýja að því að vandamál heilbrigðiskerfisins væri að hluta ímyndarskekkja hjá almenningi.
„Áskoranir í heilbrigðisþjónustu eru margar. Við leysum þær ekki allar með nýju fjármagni. Til þess er fjármagnið af of skornum skammti. En góð efnahagslega staða Íslands og gott lífeyriskerfi gera okkur samt sem áður betur í stakk búin en flestar aðrar þjóðir til að takast á við þennan vanda. Framleiðsla á hvern Íslending, leiðrétt fyrir kaupmætti, var ein sú mesta í heimi árið 2015, um fjórðungi hærri en að meðaltali í Evrópusambandsríkjunum. Þetta þýðir að við getum gert kröfu um að lífsgæði hér á landi endurspegli þessa afar sterku stöðu,“ sagði Bjarni.
Sigmundur Davíð taldi einnig að óánægjan byggði á misskilningi
Ummælin eru á pari við ummæli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrverandi forsætisráðherra, sem eins og Bjarni taldi óánægju fólks með stöðu velferðar á Íslandi, byggja á ímyndun eða hreinum ósannindum. Þetta kom fram í viðtali Eyjunnar við Sigmund Davíð umg mitt ár 2015 en og eins og í stefnuræðu forseta var umræðuefnið fjársvelt heilbrigðiskerfi. Blaðamaður Eyjunnar skrifar: Annað dæmi um það sem Sigmundur Davíð kallar rof milli raunveruleika og ráðandi umræðu er heilbrigðiskerfið. Rifjar hann upp að á seinni hluta síðasta árs hafi allt snúist um að heilbrigðiskerfið væri ónýtt og dregin upp sú mynd að Landspítalinn væri fjársveltur. Raunin hafi hins vegar verið sú að framlög til Landspítalans hafi aldrei verið hærri og það á föstu verðlagi.“
Sjá einnig: 25 þúsund neita sér um tannlæknaþjónustu – Bjarni Ben segir Íslendinga aldrei haft það eins gott
Sigmundur svarar á þessa leið: „Þannig að þessi ríkisstjórn hefur því ekki aðeins lagt áherslu á að bæta kjör fólks með milli og lægri tekjur, haft stöðu þessara hópa sérstaklega að leiðarljósi, heldur líka aukið framlög til velferðarmála þannig að þau hafa aldrei áður í sögu landsins verið jafnhá. Þetta sér maður hins vegar ekki glögglega á umræðunni þar sem menn komast allt of oft upp með það að halda hreinlega ósönnum hlutum fram,“ sagði Sigmundur um málið.
Sjá einnig: Bjarni hunsar efnahagsnefnd og telur skattaskjólsskýrsluna útrædda
Hughrifin eru vegna staðreynda
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, gerði hugmyndir Bjarna um hughrif þjóðarinnar að umtalsefni í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra.
„Sú ríkisstjórn sem nú hefur tekið við boðar nefnilega íhaldssama stefnu. Það má kalla hana jafnvægi, það má líka kalla hana kyrrstöðu því að ætlunin er að fresta nauðsynlegri eflingu velferðar og menntakerfis, það á ekki að byggja meira upp en rúmast innan hagsveiflunnar. Það má ekki afla aukatekna til að byggja upp aðþrengt velferðarkerfi, heilbrigðiskerfi og menntakerfi. Undir þetta er kvittað í ræðu hæstv. forsætisráðherra þegar hann segir: Fjármagnið er af of skornum skammti. Hins vegar, segir ráðherrann, þarf að gera eitthvað í þeim hughrifum að samfélagssáttmálinn um tryggt aðgengi að heilbrigðisþjónustu hafi brostið,“ sagði Katrín. „Hughrifin birtast líklega í 86.000 undirskriftum frá Íslendingum sem kröfðu stjórnmálamenn um aukin framlög til heilbrigðismála. Hughrifin birtast í því að greiðsluþátttaka sjúklinga hér á landi er umtalsvert meiri en annars staðar á Norðurlöndum á sama tíma og skortir fjármuni til að tryggja mönnun og viðunandi aðstæður. Og ætli það skapi ekki líka ákveðin hughrif að í tíð núverandi hæstv. forsætisráðherra í fjármálaráðuneytinu lækkaði skattbyrðin á tekjuhæstu hópana og þyngdist á aðra hópa. Sumir myndu reyndar kalla þetta staðreyndir fremur en hughrif.“
Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata, gagnrýndi sýn forsætisráðherra á heilbrigðismálin og vitnaði um leið í viðtal sem tekið var við Bjarna Benediktsson fyrir kosningar. Þá sagði Bjarni „að 20% sjúklinga treysta sér ekki til að leita heilbrigðisþjónustu vegna bágrar fjárhagsstöðu“. Ásta benti á misræmið í sýn Bjarna fyrir kosningar og eftir kosningar. „Í dag segir hæstv. forsætisráðherra hins vegar að ótryggt aðgengi að heilbrigðisþjónustu séu bara hughrif. Alveg eins og það er víst geðveiki að finnast ekki allt vera í fína lagi á Íslandi. Að tala svona til þjóðarinnar um okkar alvarlegu vandamál, viðkvæmustu vandamál okkar, heilsu okkar, ber ekki vott um virðingu fyrir nýfengnu umboði,“ sagði þingkonan.
Skýr loforð fyrir kosningar
Allir stjórnmálaflokkar lofuðu fyrir kosningar betrun þegar kemur að fjármögnun heilbrigðiskerfisins. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í umtöluðu viðtali sem birtist í Morgunblaðinu að stóraukin áhersla yrði á bætta samfélagsþjónustu, minni greiðsluþátttöku sjúklinga, eflingu Landspítalans og bætta heilbrigðisþjónustu með stórauknum fjárframlögum. Það vakti þá reyndar meiri athygli á sínum tíma að Bjarni stillti sér upp við garðyrkjustörf en í viðtalinu setti Bjarni tóninn fyrir áherslu Sjálfstæðisflokksins. Það var þó ekki aðeins Bjarni sem lofaði betrumbót eftir áralangan sult heilbrigðiskerfisins.
Píratar lofuðu gjaldfrjálsri heilbrigðisþjónustu fyrir alla óháð búsetu. Auka átti fjármagn til heilbrigðismála og færa sálfræðiþjónustu og tannlækningar í almannatryggingakerfið sem og að halda áfram uppbyggingu Landspítala við Hringbraut en skoða aðrar staðsetningarkosti.
VG boðuðu félagslega rekið og gjaldfrjálst heilbrigðiskerfi. Flokkurinn hafnaði einkavæðingu heilbrigðismála í ágóðaskyni. Þá lofaði flokkurinn að uppfylla kröfur áskorunar um endurreisn heilbrigðiskerfisins sem hátt í 90 þúsund skrifuðu undir. VG vildi efla sjúkraflug, halda áfram uppbyggingu við Hringbraut og færa sálfræðiþjónustu, tannlækningar, sjúkra-, tal- og iðjuþjálfun inn í almannatryggingakerfið.
Framsóknarflokkur boðaði nýjan Landspítala en á nýjum stað. Framlög til heilbrigðisstofnana yrðu aukin og heilsugæsla efld. Þá vildi flokkurinn stytta biðtíma, fjölga heimilislæknum og sálfræðingum. Lækka greiðsluþátttöku og auka forvarnir til bættrar lýðheilsu.
Viðreisn ætlaði að ljúka byggingu Landspítalans við Hringbraut fyrir árið 2022. Styrkja heilsugæsluna um allt land. Stytta biðlista og leggja áherslu á meðhöndlun geðrænna vandamála. Þá átti að bæta forvarnir og auka aðgengi að sálfræðiþjónustu sem í skrefum átti að fara inn í almannatryggingakerfið. Greiðsluþátttöku átti að miðast við fjölskyldu og vera í samræmi við greiðslugetu allra samfélagshópa.
Björt framtíð lofaði því að allir hefðu jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu og efnahag í gegnum sameiginlegt sjúkratryggingakerfi. Þá lofaði flokkurinn að færa tannheilbrigðisþjónustu í auknum mæli undir sjúkratryggingar.
Samfylkingin lofaði svo afnámi á gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu. Það átti þó að gera í nokkrum skrefum. Tryggja átti heilbrigðisþjónustu um allt land og byggja upp heilsugæslukerfið. Samfylkingin vildi að nýr Landspítali yrði byggður við Hringbraut og boðaði uppbyggingu 500 hjúkrunarrýma fyrir aldraða og langveika.
Samkvæmt þessu er því engin fyrirstaða frá nokkrum flokki við endurreisn heilbrigðiskerfisins. Á þingi er ekki einn einasti þingmaður sem kosinn er út á andstöðu við aukin fjárframlög til heilbrigðismála. Það má því ganga út frá því að fjárframlög til heilbrigðismála verði hækkuð umtalsvert í meðferðum þingsins.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, var gestur í þættinum Þjóðbraut á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í lok síðasta nóvember. Páll fjallaði þá um niðurstöðu OECD-skýrslu um stöðu heilbrigðismála í heiminum. Ísland skrapar botninn ásamt Rúmenum þegar kemur að fjárframlögum til heilbrigðismála. Ísland skorar þó vel þegar kemur að forvörnum gegn unglingadrykkju og reykingum sem Páll sagðist telja að spiluðu þær nokkuð inn í málin.
Þá benti Páll á að skýrsla OECD sýni að Íslendingar eru eftirbátar í mörgum málum. „Við erum eftirbátar í mörgu, við sjáum það bara varðandi lýðheilsuna. Þá erum við t.d. ekki nægilega dugleg að bólusetja ungabörn. Það má sjá á mislingabólusetningum og bólusetningum við kíghósta og öðru slíku. Þar er 90% af börnum sem fá bólusetninguna hér á meðan meðaltalið í Evrópu er 96%. Þetta er ekki gott svo dæmi sé tekið,“ sagði Páll.
Páll sagði sláandi að sjá hversu litlu Íslendingar eru að eyða til heilbrigðisþjónustu almennt og svo til innviða. „Varðandi stóru málin í þessari skýrslu þá er það tvennt. Annars vegar hvað við erum að verja almennt til heilbrigðismála og hins vegar hvað við erum að verja til innviða. Ef við byrjum fyrst á þessu almennt þá hefur verið talsvert rætt um það að við séum ekki að verja nægilega stórum hluta af þjóðarkökunni til heilbrigðismála. Um það bil 8.8% af vergri landsframleiðslu er að fara í heilbrigðismál á meðan meðaltal Evrópuþjóðanna eru 9.9%,“ sagði Páll. Þá kom fram í þættinum að 1% í vergri landsframleiðslu séu um 18 milljarðar.
Fyrir kosningar skrifuðu rúmlega 86 þúsund einstaklingar undir kröfugerð Kára Stefánssonar um endurreisn heilbrigðiskerfisins. Þá hafði í raun þegar verið gefið loforð um stóraukin framlög til heilbrigðismála en þrír ráðherra undirrituðu árið 2013 viljayfirlýsingu um framtíðar fjármögnun heilbrigðiskerfisins. Loforðið um endurreisn heilbrigðismála hefur því margsinnis verið gefið.
Í septemberlok árið 2013 tilkynnti Björn Zoëga, þáverandi forstjóri Landspítalans, að hann hefði sagt starfi sínu lausu. Hann sagði nokkrar ástæður fyrir uppsögn sinni og nefndi sérstaklega fjárskort spítalans. Nauðsynleg uppbygging væri ekki í augsýn. Björn hafði þá starfað sem yfirmaður á spítalanum í sex ár. Fyrst sem framkvæmdastjóri lækninga og síðar forstjóri. Á þeim tíma hefði spítalinn gengið í gengum miklar breytingar og linnulausan niðurskurð. Nú væri ekki lengra haldið á þeirri braut. Björn kveðst margoft hafa talað um að rekstur spítalans hafi verið kominn að bjargbrúninni. „Ég ætla ekki taka þátt í því að taka fram af brúninni. Ég held að við verðum aðeins að staldra við og einhver annar verði að taka við keflinu til að leiða spítalann í því umhverfi sem verður boðið upp á á næstunni,“ sagði hann í samtali við RÚV.
Landsspítalinn Háskólasjúkrahús varð til árið 2000 þegar Sjúkrahús Reykjavíkur og Ríkisspítalar sameinuðust. Það er um það leiti sem 2-4% sparnaðarkrafa á ári er lögð á spítalann. Þröng fjárhagsstaða heilbrigðismála er því uppsafnaður vandi en ekki aðeins afleiðing efnahagshrunsins í lok ársins 2008.
Innan landa Efnahags- og framfarastofnunarinnar er almenna reglan sú að meðal þróaðra ríkja hefur hlutfall þjóðarframleiðslu til heilbrigðismála hækkað jafnt og þétt. Á Íslandi hefur þróunin verið þveröfug og raunar hefur hlutfallið lækkað. Árið 2009 voru útgjöld Íslendinga 9.6% af þjóðarframleiðslu en fjórum árum síðar, árið 2012, var það hlutfall komið niður í 9.1%. Hálft prósent virkar ef til vill ekki mikið við fyrstu sýn en þegar kemur að heilbrigðisútgjöldum telur hvert prómill rúmlega hundrað og fimmtíu milljónir króna. Sé það svo sett í samhengi við útgjöld ársins 2003 sem námu 10.4% af landsframleiðslu birtist okkur myndin af viðvarandi aðhaldi í heilbrigðismálum.
Kjaradeila lækna á sér því meðal annars uppruna í langvarandi þreytu heilbrigðisstarfsmanna á aðhaldsaðgerðum og kröfum yfirvalda á sparnaði sem leitt hefur til aukins álags, eldri tækjabúnaðar og atgervisflótta. Þrír ráðherrar ríkisstjórnarinnar undirrituðu nýlega yfirlýsingu um uppbyggingu heilbrigðiskerfisins. Meðal helstu atriða í viljayfirlýsingunni er bygging nýs Landspítala og markviss endurnýjun tækjabúnaðar. Hvoru tveggja er ætlað að bæta starfsaðstöðu heilbrigðisstarfsfólks og þjónustu við almenning. Auknu fjármagni verður veitt til heilbrigðismála og breytingar gerðar í þeim tilgangi að auka skilvirkni í kerfinu. Þá er stefnt að aukinni samvinnu heilbrigðisstofnana og markvissari verkaskiptingu auk þess sem íslenska heilbrigðiskerfið á að verða samkeppnishæft við það sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndum. Yfirlýsingin, sem í sjálfu sér vakti litla athygli, var undirrituð af forsætisráðherra, heilbrigðisráðherra og Illuga Gunnarssyni, menntamálaráðherra og starfandi fjármálaráðherra í fjarveru Bjarna Benediktssonar. Við lestur yfirlýsingarinnar er ljóst að hér er um að ræða loforð upp á milljarða, jafnvel milljarðatugi, í formi aukins fjárframlags til heilbrigðismála. Þá er uppbygging nýs spítala sett aftur á dagskrá auk þess sem unnið verður að því að jafna álag, vaktafyrirkomulag og grunnlaun heilbrigðisstarfsmanna svo það verði sambærilegt við Norðurlöndin. Íslenskir læknar og hjúkrunarfólk vinna meira og á lengri vöktum en fólk í sambærilegum störfum frændþjóða okkar.
Framlög til heilbrigðismála eru hæst í Danmörku af Norðurlöndunum en Finnland og Noregur eru hvað næst okkur. Sé ætlunin að Íslendingar fjármagni heilbrigðiskerfið með dönsku hlutfalli af landsframleiðslu er hér um að ræða loforð upp á 34 milljarða, ár hvert, miðað við verðlag ársins 2012. Í samanburði við Noreg er viðbótin tíu milljarðar á ári. Vert er að taka fram að hér er aðeins um framlag til reksturs að ræða en yfirlýsing ríkisstjórnarinnar lofar um leið nýjum Landsspítala. Áætlaður kostnaður við uppbyggingu hans er um 51 milljarður á verðlagi 2009. Vert er að taka fram að aldursuppsetning Íslendinga og annara Norðurlanda er ekki sú sama og því eru hlutfallstölur landsframleiðslu aðeins til viðmiðunar en ekki algildur sannleikur.
Smæðin er dýrari
Það er eðli heilbrigðisþjónustu að henni fylgir gríðarlegur fastur kostnaður auk breytilegs kostnaðar. Það þýðir að almennt er lögð áhersla á að ná fram sem mestri stærðarhagkvæmni. Ísland er örríki og því hneigjast rök til þess að við getum búist við að greiða ákveðinn aukakostnað til reksturs kerfisins vegna smæðarinnar. Krabbameinsfélagið hefur raunar bent á þetta sérstaklega í skýrslu sem félagið lét vinna fyrir sig um Kostnaðarþátttöku krabbameinssjúklinga í eigin heilbrigðisþjónustu. „Sú spurning vaknar hvort ekki þurfi jafnvel enn hærri fjárframlög til að halda uppi jafn góðri heilbrigðisþjónustu á Íslandi og nú er gert í Danmörku, þar sem Íslendingar lifa í landi sem er í senn stærra að flatarmáli, harðbýlla og hefur færri íbúa,“ segir í skýrslunni. Komið er inn á þetta í yfirlýsingu yfirvalda og læknafélaganna og því lofað að tekið verði tillit til sérstöðu Íslands hvað varðar mannfjölda og staðhætti. Yfirlýsingunni rándýru fylgir ekkert kostnaðarmat, né er fé eyrnamerkt starfinu eða tölur settar á boðað aukafjármagn. Reykjavík vikublað reyndi í kjölfar yfirlýsingarinnar að fá skýra mynd af málinu og spurði hvað væri að baki loforðunum upp á nokkra milljarða ár hvert. „Hér er um að ræða viljayfirlýsingu þar sem ríkisstjórnin ákveður að snúa bökum saman með samtökum lækna að því að efla og bæta íslenska heilbrigðiskerfið,“ segir í yfirlýsingu heilbrigðisráðuneytisins til blaðsins er leitað var svara um hvaða vinna væri að baki slíkum loforðaflaum. Í stuttu máli segir svarið að á bakvið yfirlýsinguna sé fátt annað en fögur fyrirheit. Björn Zoëga, sá hinn sami og sagðist ekki ætla að taka þátt í að keyra heilbrigðiskerfið fram af bjargbrúninni, mun leiða verkefnahópinn sem skipaður verður vegna þessar vinnu. Þetta var tilkynnt um miðjan febrúar.
„Sú spurning vaknar hvort ekki þurfi jafnvel enn hærri fjárframlög til að halda uppi jafn góðri heilbrigðisþjónustu á Íslandi og nú er gert í Danmörku, þar sem Íslendingar lifa í landi sem er í senn stærra að flatarmáli, harðbýlla og hefur færri íbúa.“
„Þetta er til þess að ramma það inn að viljinn er að við stöndum jafnfætis Norðurlöndum,“ sagði Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands, um yfirlýsinguna í samtali við Reykjavík vikublað við sama tækifæri. „Með yfirlýsingunni eru ekki tilteknir vegvísar um hvernig við eigum að ná þessu eða að fráteknir séu fjármunir. Þetta er bara hugsað sem almenn yfirlýsing um það hvert við höfum áhuga á að stefna,“ segir Þorbjörn. Sérstaklega er tekið fram að taka eigi tillit til mannfjölda og staðhátta. Ísland er fámennt land þannig að stærðarhagræðingar njótum við ekki.
– Er ekki verið að segja hér að það þurfi meira fé en Norðurlöndin [verja til þessara mála] til að vega upp á móti? „Okkur í Læknafélaginu þótti nauðsynlegt að setja þetta inn. Ef við ætlum að halda upp tiltekinni þjónustu í dreifbýlinu t.d. skurðstofuþjónustu á minni stöðum þá verður hún alltaf fjárhagslega óhagkvæm vegna þess að þú nærð ekki sömu nýtingu og á stærri stað í Reykjavík. Okkur þótti þetta vera nauðsynlegur varnagli út af fámenni og smæð.“
– Er þá ekkert annað í hendi með þessari yfirlýsingu en að það er vilji til að hækka fjárframlög? „Þetta er vilji okkar og ríkisins að við stöndum jafnfætis Norðurlöndum varðandi gæði og þjónustu. Það er markmiðið,“ sagði Þorbjörn.