„Ég græt á meðan ég skrifa því ég sakna Amir svo mikið“
Samtökin No Borders stóðu í gær fyrir samstöðufundi á Austurvelli gegn fordómum í garð flóttamanna. Á fundinum voru skilaboð frá eiginmanni Amir Shokrgozar, samkynhneigðs hælisleitanda frá Íran sem var nýlega vísað úr landi og sendur til Ítalíu. Amir flúði heimaland sitt til Ítalíu áður en hann kom til Íslands. Amir var hópnauðgað í flóttamannabúðunum í Ítalíu og í kjölfarið lifði hann á götunni og sá sér farborða með vændi. Þrátt fyrir þetta taldi hvorki Útlendingastofnun né Kærunefnd útlendingamála að Amir væri í sérstaklega viðkvæmri stöðu.
Vinir Amirs hafa stofnað söfnunarreikning fyrir hann til að bregðast við aðgerðum íslenskra yfirvalda. Amir var sendur úr landi án stuðnings og allslaus en ekki hafði verið gengið úr skugga um að hann hefði húsnæði, stuðning eða að umsókn hans um vernd væri í eðlilegu ferli á Ítalíu.
Söfnunarreikningur Amirs: Banki: 526 Höfuðbók: 14 Reikningsnúmer: 403211. Kt: 040986-2869, reikningurinn er í nafni Semu Erlu Serdar, formanns Solaris, hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi.
Amir var sendur úr landi eftir að lögregla sat fyrir honum og beið þess að hann kæmi út af geðdeild. Amir óskaði sjálfur eftir geðrænni aðstoð vegna mikils þunglyndis í kjölfar þess að fá synjun um efnislega meðferð hér á landi þrátt fyrir harða og langa baráttu. Til Ítalíu var hann sendur allslaus og án þess að gengið hefði verið úr skugga um að honum mætti nokkuð stuðningsnet. Svo langt var gengið í skort á stuðning að Amir fékk ekki að hlaða símann sinn svo að hann hefði þó það í leit sinni að aðstoð. Kvennablaðið hefur fengið ljósmyndir af Amir þar sem sjá má mar á höfði og upphandlegg. Þetta segir hann að sé í kjölfar hörku lögreglunnar þegar hann var sendur úr landi. Í Mílanó á Ítalíu fékk Amir húsaskjól hjá vini en ítölsk yfirvöld geta ekki hitt hann og farið yfir mál hans fyrr en í júlí.
Sjá einnig: Grapevine birti bréf frá eiginmanni Amir fyrr í mánuðinum sem er efnislega það sama og lesið var upp á samstöðufundi No Borders
„Við höfum verið saman í um það bil ár. Amir bað mig um að giftast sér 23. desember síðastliðinn,“ segir í bréfi frá eiginmanni Amir sem lesið var upp á samstöðufundi No Border. „Síðastliðið ár hef ég fylgst með umsókn Amir að landvistarleyfi og baráttu hans við kerfið hér á landi. Áhrifin á Amir vegna þess alls hafa verið margþætt en viðbrögð hans að morgni loka höfnunarinnar voru djúpstæð sárindi. Honum var endanlega hafnað í nóvember árið 2016 og eftir það hrakaði andlegri heilsu hans vegna vitneskjunnar um að hann yrði sendur aftur til Ítalíu þar sem honum var nauðgað árið 2010.“
Tæplega fimmtán hundru hafa skrifað undir áskorun á stjórnvöld um að hleypa hælisleitandanum Amir Shokrgozar aftur til Íslands og heimila honum að vera hér.
Rithöfundurinn Andri Snær Magnason var nýlega staddur í Mílanó þar sem hann hitti Amir skömmu eftir að honum var vísað úr landi. „Amir er blíður og brothættur ungur maður sem flúði heimaland sitt Íran vegna kynhneigðar sinnar en þar geta samkynhneigðir sætt dauðarefsingu. Amir flúði gegnum Tyrkland til Grikklands og Ítalíu fyrir átta árum þar sem hann mátti þola skelfilegt ofbeldi í flóttamannabúðum. Amir komst til Svíþjóðar en þar sem fingraför hans voru tekin á Ítalíu þótti ólíklegt að hann fengi hæli, hann komst til Íslands þar sem hann hefur dvalið í næstum tvö ár. Amir hefur verið virkur þátttakandi í samfélaginu, hann hefur lært íslensku, hann á íslenskan unnusta og tengdamóður sem lítur á hann sem eigin son og syrgir brottvísun hans. Hann hefur verið sjálfboðaliði hjá Samtökunum ’78, Rauða Krossinum, virkur í bænahóp Toshiki Toma, hann er liðtækur hárgreiðslumaður og með menntun til að sinna umönnunarstörfum,“ skrifaði Andri Snær.
Gagnrýndi ofbeldið sem Amir varð fyrir
Það þótti greinilega ekki nóg að senda Amir aftur til Ítalíu þar sem hann hafði orðið fyrir hrottalegu ofbeldi. Þangað mátti hann fara allslaus og án nokkurs stuðnings. „Yfirvofandi brottvísun og vonleysi um hvar í heiminum hann væri þá yfirleitt velkominn lagðist þungt á hann. Amir var vistaður samkvæmt læknisráði í tvær nætur á geðdeild, þar sem hann var handtekinn við útskrift. Lögreglan beitti hann óþörfu harðræði, gleraugun brotnuðu, hann er marinn á höfði og upphandlegg. Hann var fluttur í járnum úr landi, fjórir lögreglumenn alla leið til Milano og honum voru gefin óþörf olnbogaskot þótt hann væri bundinn. Honum var sleppt peningalausum með óhlaðinn síma, án húsaskjóls, í landi þar sem hann var beittur ofbeldi í flóttamannabúðum, þar sem innviðir eru sprungnir í þessum málaflokki. Ung stúlka, félagi í No Borders hefur skotið yfir hann húsaskjóli og leitað er leiða til að mál hans fái hraða og sanngjarna meðferð. Í hörðum heimi eigum við ekki að vera aflið sem brýtur niður fólk með járnhnefa. Ég mun ekki mæla styggðaryrði um Trump fyrr en Amir er kominn í fang kærasta síns, við erum nefnilega líka Trump,“ skrifaði Andri Snær á Facebook.
Sjá einnig: Samtökin ’78 fordæma „forkastanleg vinnubrögð“ í máli samkynhneigðs hælisleitanda
Í tvö ár á Íslandi
Amir hafði verið á Íslandi í hátt í tvö ár þegar yfirvöld handtóku hann fyrir utan geðdeild og létu hann dúsa í fangaklefa þar til þeir brottvísuðu honum aftur til Ítalíu morguninn eftir (s.l. fimmtudag, 2. febrúar 2017). Amir á unnusta á Íslandi og hefur m.a. verið að læra íslensku í Tækniskólanum og unnið sem sjálfboðaliði hjá Samtökunum ’78 og Rauða krossinum á meðan hann hefur beðið eftir úrlausn sinna mála. Hér leið honum vel og upplifði meir frið og ró en hann hefur upplifað lengi. „Það er óásættanlegt og með öllu ómannúðlegt að yfirvöld hafi sent Amir aftur á þann stað sem hann þurfti að upplifa andlegt og líkamlegt ofbeldi sem hófst á nýjan leik um leið og hann kom aftur til Ítalíu. Þar er hann einn, peningalaus og án húsnæðis (fær að vera hjá góðum vini í bili en getur ekki verið þar nema tímabundið) enda getur hann af augljósum ástæðum ekki leitað í flóttamannabúðirnar!“ segir í texta undirskriftasöfnunarinnar.
Hræsni íslenskra yfirvalda
„Stjórnvöld á Íslandi geta ekki setið í makindum sínum og gagnrýnt aðra fyrir mannvonsku, mannréttindabrot og fasískar aðgerðir og látið þetta viðgangast á sama tíma. Sýnið mannúð og samkennd í verki og leyfið Amir að koma heim. Sýnið að þið trúið því að öll mannslíf skipta máli, líka Amirs. Við krefjumst þess að Amir fái að koma aftur heim til Íslands þar sem unnusti hans bíður eftir honum! Veitið Amir vernd og skjól hér á Íslandi hér frá frekari áföllum, ofsóknum og hryllingi,“ segir í texta undirskriftasöfnunarinnar. Þar vitna aðstandendur undirskriftasöfnunarinnar til yfirlýsinga íslenskra ráðmanna um Donald Trump Bandaríkjaforseta. Trump hefur verið harakalega gagnrýndur af íslenskum stjórnmálamönnum og ráðamönnum en samhliða þeim yfirlýsingum hefur Ísland stundað haraklega og á tíðum ómannúðlega stefnu gagnvart fólki sem hingað leitar eftir vernd.