Konur, fangar og önnur ‘úrhrök’
Bergljót Davíðsdóttir skrifar:
Í síðustu viku hitti ég stúlku sem nýlega var laus úr fangelsinu á Hólmsheiði. Hana þekkti ég frá fyrri tíð, sem barn og ungling og vissi af erfiðleikum hennar. Þar sem hún stóð fyrir framan mig og spurði hvort ég þekkti hana ekki, var mér hugsað til þáttanna Fangar í RÚV sem komu mjög við mig eins og fleiri sem á horfðu.
Ég hefði ekki þekkt hana, nema fyrir myndirnar af henni í Stundinni fyrir stuttu í viðamikilli úttekt Ingibjargar Daggar Kjartansdóttur blaðamanns um fangelsismál.
Það sjokkeraði mig meira en ég átti von á að það sem við sáum í þáttaröð Ragnars Bragasonar og hans teymis, Föngum, er óhugnanlega nákvæm lýsing á hvernig búið er að þessum minnihlutahópi í íslensku samfélagi. Ekki eins og það var – heldur eins og það er enn í febrúar 2017.
Stúlkan hafði ekki lesið umfjöllun Stundarinnar og spurði mig hvort hún hefði orðið sér til skammar. Ég taldi svo ekki vera enda kannski öngvu að tapa og það væri öllum hollt að lesa um þann harm sem þessar stúlkur eiga við að etja. Hún hefði örugglega lagt sitt af mörkum til að vekja athygli þeirra Íslendinga sem búa í litlum kössum og sjá ekki út fyrir ramma kassaglugganna en lifa í því öryggi sem það veitir að sjá ekki né heyra það sem gerist utan þeirra.
Síðan sagði hún nokkuð sem fékk mig til að hrökkva við, því það tónaði við eigin reynslu þegar ég átti viðtöl við fólk í fangelsum og stúlkur sem áttu undir högg að sækja og áttu að baki dvöl “neðanjarðar” til margra ára.
“Þegar blaðamaður kemur inn í fangelsið, og gefur sig á tal við okkur, stendur út úr manni bunan og maður segir miklu meira en maður ætti að segja í samtali við blaðamann. Maður talar bara og gleymir sér því það er svo sjaldan sem manni gefst færi á að létta á sér.”
Nákvæmlega það sem ég þekkti sjálf. Þær opnuðu sig fyrir mér og treystu mér og ég brást þeim ekki, reyndi að koma frásögninni af lífi þeirra frá mér þannig að lesa mætti á milli lína í stað þess að nota sterk lýsingarorð. Það olli mér hins vegar hvað mestum erfiðleikum eftir birtingu, hve þær sóttu mjög á um áframhaldandi samband við mig sem manneskju, en ekki blaðamann.Vildu gjarnan fá að hitta mig reglulega og tala við mig áfram.
Ég gerði mér ljóst að þær höfðu ekki fengið þá hjálp sem þær þurftu. Þær þyrsti í að tala og opna sig fyrir einhverjum sem þær treystu. Segja frá óttalaust, því það geta þær ekki inni á meðferðarstofnun, jafnvel þó einhver sé til að hlusta, því hafi þær gerst brotlegar gagnvart barnaverndarlögum er heilbrigðisstarfsmönnum og félagsráðgjöfum skylt að tilkynna það til viðkomandi barnaverndarnefnda.
Það segir sig sjálft að það er ekki hægt að vinna með fólk sem ekki getur treyst. Því jafnvel þó að allt gangi þeim í hag þann daginn, kann það að koma í bakið á þeim síðar ef þær hrasa um steinvölu.
En þarna var hún fyrir framan mig, komin út og búin að afplána. Ég spurði hvort henni hefðu ekki boðist nein úrræði eftir afplánun, ekkert áfangaheimili, liðveisla, aðstoð við heimilisstofnun eða yfirhöfuð einhver eftirfylgni. Hún varaði neitandi og sagðist hvergi eiga heima, hún fengi að sofa nótt og nótt hjá gömlum vinum, en hún ætti öngvan fastan samastað. Hún sagðist samt ætla að standa sig og væri með félagsráðgjafa sem væri að reyna að útvega henni íbúð, en það væru langir biðlistar.
Og staða þessarar stúlku sem hafði átt hryllilega ævi, sem gerandi og fórnarlamb, var nákvæmlega sú sama og við sáum í Föngum og ég hafði orð á sem ég skrifaði á síðu mína og fara hér á eftir.
“Endalok Unnar Aspar (leikkonan) voru alveg eftir bókinni; raunveruleikinn í sinni ömurlegustu mynd. Því svona er kerfið, nákvæmlega eins og við sáum. „Gjörðu svo vel, fársjúka illa farna kona, bjargaðu þér nú. Farðu að vinna og vertu heiðarleg! Öll í tætlum fór hún þangað sem hún varð að fara því hún gat ekkert annað, kunni ekkert annað og var dæmd til að lenda inni aftur ellegar deyja. Svona förum við með fársjúkt fólk sem er oft önnur eða þriðja kynslóð félagslegra vandamála og það fær öngva hjálp til að endurhæfa sig og byggja upp. Loka inn í öryggisfangelsi sjúkt fólk og láta það dúsa þar og henda síðan út á guð og gaddinn. Já, já, byggjum endilega fleiri öryggisfanglesi, en veltum ekkert fyrir okkur meðferðarfangelsum þar sem hægt er að hjálpa þessum illa förnu niðurbrotnu sjúku einstaklingum, sem völdu ekki það líf sem þeir lifa. Flest fæddust inn í þennan veruleika og átti ekki séns þá og eiga ekki enn með óbreyttu ástandi.”
Því var ég verulega hugsi eftir að hafa rætt við þessa stúlku. Það sýndi svo ekki er um að villast að þáttaröðin Fangar sýndi sjokkerandi staðreyndir – öngvar ýkjur eða dubbað upp í neinn búning, heldur raunverulega það sem er að gerast í “velferðarsamfélagi” okkar í febrúar árið 2017 í fangelsismálum, heilbrigðis- og félagslegri aðstoð.
Á meðan á spjalli okkar stóð fann ég og vissi innra með mér að þrátt fyrir löngun hennar og þeirra sem standa í sömu sporum til að lifa eðlilegu lífi að það yrði kraftaverk ef henni tækist það. Hvernig á kona sem lokuð hefur verið inn í ömurlegu fangelsi með örfáum konum í svipuðum sporum í tæpt ár að geta fótað sig hjálparlaust. Hún þekkir enga nema sína líka. Frá unglingsaldri hefur hún barist, eignast börn og misst þau og um leið sokkið dýpra og dýpra. Fjölskylda hennar búin að loka og enginn skilningur á að hún og hennar líkar eigi sér fortíð sem er þungur baggi að bera.
Skömmin, reiðin, sársaukinn og samviskubitið hamrar á dag hvern. Það hlýtur að vera meira en erfitt að horfa framan í veröldina og kasta öllu aftur fyrir sig. Hreiðra sig síðan inn í eins kassa og allir hinir, með fortíðina óuppgerða í farteskinu. Ég held að það sé ekki gerlegt neinum þeirra sem gengið hafa í gegnum þann harm sem fylgir því að deyfa frá sér vit og rænu. Og það er ekki að ástæðulausu því þær og þeir villast ekki af leið vegna þess að það hafi verið staðföst ákvörðun þeirra, heldur áttu fáir þeirra val.
Og hvað er þá fyrir fólk í sporum umræddrar stúlku að gera til að lifa af með allan pakkann á bakinu sem dregur alla orku úr henni og sligar niður? Jú, hún veit hvað getur linað þær andlegu þjáningar. Að fá sér eitthvað sem deyfir, því sársaukinn, vanmatið og sjálfsfyrirlitningin nístir inn að beini. Og ofan á það er að standa einn á götunni, eiga öngvan að nema gömlu neyslufélagana og horfa framan í hina sem fyrirlíta hana fyrir gjörðir hennar, miklu meira en nóg.
En í hugum þeirra sem búa í kassaklasanum eru þeir sem ekki fá þar inni – úrhrök. Þeir skilja ekki hvers vegna þær geti ekki bara hætt að dópa og hegðað sér eins og manneskjur. Hvers vegna þær fái sér ekki bara kökur, ef ekkert brauð er til að bíta í. Þær geti bara spjarað sig eins og samfélagið gerir kröfu um.
Þess vegna er litið á þær konur sem og stúlkuna sem ég hitti sem ræfla sem ekki eiga neitt betur skilið, fíkla sem taka dóp. Stela, ljúga, beita ofbeldi og hrækja á yfirvaldið þegar þær eru gripnar. Aumingjar sem ekki geta staðið á eigin fótum og hugsa bara um sjálfa sig. Auðvitað hefðu þær ekki misst börnin annars. Þær tóku dópið fram yfir þau, eða hvað?
Það er einfalt að horfa á stöðu þeirra og dæma. En saga þeirra er margslungin og má jafnvel rekja tvær, þrjár kynslóðir. Foreldrar og jafnvel afar og ömmur áttu í sama vanda og þurfum við að spyrja hvernig standi á að félagsleg staða þeirra sé svona? Hvers vegna þær séu bara ekki í háskóla að læra eitthvað eins og allar eðlilegar manneskjur? Nei, vegna þess að baki liggur hugsanlega djúpstæður sársauki og reiði sem óhjákvæmilega grefur sig inn í sálartetur þeirra sem verða barnungir fyrir ofbeldi, höfnun, niðurlægingu og einelti, skömm og kvíða sem þær verða að deyfa og það er aðeins ein leið sem þær þekkja til þess.
Varla dettur nokkurri hugsandi manneskju í hug að stúlka sem þessi hafi ekki barist fyrir lífi sínu, tilveru og börnum sínum? Mér dettur ekki annað í hug, en vopnin sem henni og hennar líkum voru fengnar í hendur voru bara ekki þau sömu og kassafólkinu var rétt við fæðingu. Ó nei, þeirra vopn bíta ekki á neitt. Þá hefðu þær getað varið sig fyrir öllu því sem á þær herjaði, hvort sem var misnotkun, líkamlegt og andlegt ofbeldi, niðurlæging, skömm og vanræksla. Þá hefðu þær ekki þurft að deyfa sig til að halda lífi.
Fíknin sem ég kýs að nefna deyfingu á sársaukanum og það sem honum fylgdi var fyrir og kom langt á undan. En deyfingin tók frá þeim dómgreindina um leið og rændi þær allri skynsemi. Án þess að deyfa og sefa áttu þær ekki möguleika á að lifa með sársaukanum. Það sáum við svo berlega í þættinum um fangana.
Því spyr ég; hvað höfum við með öryggisfangelsi á Hólmsheiði að gera? Ég man ekki hve marga milljarða það kostaði, en ég veit að fyrir aðeins brotabrot af þeim, hefði verið hægt að koma fót úrræði fyrir fólk sem við hin lítum á sem úrhrök og aumingja; fólk sem kerfið hefur alið af sér með úrræðaleysi og valdníðslu á þeim sem ekki geta borið hönd fyrir höfuð sér. Þær áttu ekkert val. Hitt er svo annað að undantekning er þar á. Það eru ungt fólk sem á yfirborðinu átti ekki í neinum sýnilegum vanda og var frá heimilum sem það skammaðist sín ekki fyrir.
Mín skoðun er að undir niðri leynist sársauki og erfið reynsla sem enginn vissi um né veit um fyrr en um seinan. Ungt fólk sem fyri einhverjum árum var sent í meðferð og um leið fékk það “prime passa” inn í undirheimana og kornungt kennslu frá þeim eldri um hvernig kaupin á eyrinni gerast þar.
Það var vendipunkturinn sem lagði grunninn að framtíðinni. Það var nákvæmlega þann dag sem foreldrar samþykktu að senda erfiða unglinginn sinn á Tinda, Stuðla, Vog eða meðferðarheimili á landsbyggðinni, sem framtíðin var ráðinn og erfiðleikarnir með unglinginn varð fyrst að vandamáli. Þann dag sem þau Jón eða Gunna stóðu í pontu á Vogi og sögðu í fyrsta sinn; “Ég heit Jón og ég er alkóhólisti” sem þýddi einfaldlega; Ég heiti Jón og ég heiti Gunna og við erum aumingjar! Og vandinn var rétt að hefjast!
Stúlkan sem ég hitti stóð fyrir tíu, fimmtán árum ein af mörgum í þeim sporum. Fæstar þeirra lifa eðlilegu lífi og margar eru dánar. Einhverjar eru enn að ströggla og berjast fyrir því lífi sem þær hafa skapað sér. En ég efast um að það sem olli því að þær fóru að deyfa tilfinningar sínar, hafi verið frá þeim tekið eða þær við sig losað. Á meðan ekki er byrjað á grunninum og tekið á því hvað raunverulega veldur sársaukanum, er hann til staðar og þeir sem bera þann þunga kross, sligast fyrir rest undan honum. Og kassafólkið í klösunum dæmir þær úrhrök, því þannig er þær kynntar fyrir þeim sem ekki hafa víðsýni til að horfa út fyrir rammann.
Ætlum við sem samfélag að taka á þeim vanda sem núna í dag bíður fleiri ungmenna og mun kosta samfélagið meira fé og meiri harm en við ráðum við? Eða ætlum við að byrja á grunninum og spara um leið krónuna í stað þess að kasta henni og spara eyrinn?
Ljósmyndir eru af Unni Ösp Stefánsdóttur í hlutverki sínu úr þáttaröðinni Fangar sem sýnd var á RÚV fyrir skemmstu. Ljósmyndari Lilja Jóns.
Bergljót Davíðsdóttir er blaðamaður og hefur starfað á hinum ýmsu miðlum í þrjátíu ár. Hún er sjálfs sín herra og þolir ekki misrétti, ójöfnuð og mannréttindabrot. Hún er dýravinur og hefur skrifað í mörg ár um dýr og barist fyrir velferð dýra og rétti þeirra til lífs á þeirri jörð sem maðurinn hefur eignað sér. Fangelsismál, afglæpavæðing og uppræting undirheima, frelsi í stað forræðishyggju og röng refisistefna eru einnig hennar hjartans mál.