Eiga stelpur val?
Þann 4. júlí 2014 birtist hér í Kvennablaðinu grein eftir mig undir yfirskriftinni: „Eiga stelpur val?“ Hér fer endurbirting þessarar greinar enda tel ég hana eiga fullt erindi. Þess ber að geta að eftir að þessi grein birtist fékk ég í fyrsta skipti svo til jöfn hlutföll stúlkna og drengja í Trommuskólann um haustið. Það var í raun mikill áfangi og vonandi verður það viðvarandi einn daginn. Mér þætti sjálfsagt að kynjakvótar væru settir á Sinfóníuhljómsveit Íslands sem og Stórsveit Ríkisútvarpsins. Ég fæ ekki séð að það skipti máli hvort slagverksleikari í Sinfó er kona eða karl, en það hefur þó gríðarlega mikla þýðingu fyrir þróun jafnréttismála hér á landi.
Ástæða þess að greinin er hér birt upp á nýtt er deila Íslenskra trommuleikara við Frosta Logason í Harmageddon vegna ummæla hans í þættinum þar sem hann sagðist telja karla frekar hæfa til að spila þungarokk & dauðarokk en stelpur. Yfirlýsing sem birt var á trommari.is er undirrituð af 236 trommuleikurum.
Sjálfur tel ég að nálgast megi hugarfarsbreytingu meðal almennings og kynna trommurnar sem hljóðfæri fyrir alla og að það sé verkefni sem nálgast megi friðsamlega. Dæmi: Tónlistarskólar og kennarar geta auglýst með þeim hætti að stúlkur og/eða konur séu sérstaklega hvattar til að sækja um. Þetta hef ég oft gert og held ég að ef þetta yrði að almennri praxis, þá gæti þetta litla atriði unnið kraftaverk með tíð og tíma.
Eiga stelpur val?
Eru stelpur nógu brjálaðar, eða eiga þær raunverulegt val? Ég hef kennt gríðarlega mörgu fólki trommuleik í gegnum tíðina. Ég hef ekki talið nemendurna en þeir eru eflaust vel á annað þúsund. Stelpur hafa verið allt of fáar, of fáar til að ég geti metið með réttu sérstöðu þeirra. En félagsleg sérstaða ungra stúlkna, þegar kemur að trommum, get ég þó sagt að ekki sé hægt að líta fram hjá.
Í gamla daga voru stúlkur frá vel efnuðum heimilum sendar í alls kyns fræðslu. Þær lærðu tungumál, sögu, raungreinar, og síðast en ekki síst þá var þeim kennt að syngja, dansa og spila á eitthvert hljóðfæri. Það stóð aldrei til að þær yrðu til neinna stórræða í neinu af þessu, einungis væru sæmilega færar í að vera góðar puntudúkkur sem gætu tekið þátt í samtölum án þess að verða manni sínum til skammar.
Þær stelpur sem ég hef kennt hafa verið ekkert síður hæfileikaríkar en strákar í trommuleik og ef eitthvað er þá eru þær oft á tíðum betri og agaðri nemendur. Svo langar mig að segja; „svo hætta þær bara“, en það er ekki rétt því þær hafa bara ekki verið nógu margar til að ég geti metið það.
Trommuleikur reynir á skrokkinn, ekki ósvipað og ballett, þetta er jafnt átak yfir allan skrokkinn og strákur sem getur tekið 120 kg í bekkpressu græðir ekkert á þeirri kunnáttu við trommusettið. Fyrst stelpur geta lært ballett geta þær alveg eins lært að spila hvaða tónlist sem er á trommur, þar með talið „extreme“ stefnur eins og dauðarokk og „extreme progressive metal“-tónlist. Strákar hafa enga líkamsburði fram yfir stelpur í þessu efni.
En er endilega best að vera stilltur og þægur nemandi, samviskusamur og undirgefin? Því þeir nemendur verða ekki endilega bestu spilararnir. Bestu spilararnir eru oft þeir sem æfa sig 10 tíma á dag í nokkra mánuði og taka síðan frí. Þetta má segja að sé nokkuð öfgafullt og það er rétt, en það er afar erfitt að komast yfir vissan þröskuld í þessu efni nema að ganga í gegnum þessar öfgar sem með tíð og tíma breytast úr því að vera öfgar en verða viðkomandi eðlilegt lífsmunstur, ef raunhæft er að tala um slíkt.
Útskriftarnemendur mínir hafa gengið í gegnum þessar lotur af 8 tíma æfingatörnum áður en ég hleypi þeim í útskriftarkonsert. En engin stelpa hefur verið hjá mér nógu lengi til þess að komast á þennan stað þar sem látið er sverfa til stáls. Þó eru margar konur að leggja þetta á sig á önnur hljóðfæri, ekkert síður en karlar. Þannig að stelpur geta vel tekið hlutina út í öfgar, svarið liggur annars staðar. Nefnilega í rangri hugmynd og staðalmynd fólks af hljóðfærinu.
Þannig að þegar dóttir ykkar segist vilja spila á trommur, þá skulið þið ekki reyna að tala hana ofan af því af því að ykkur finnst það óþægileg tilhugsun að hafa hávaðann inni á heimilinu. Því ef hún væri strákur þá myndi hann hamra málið í gegn. Stúlkur hafa fyrir augunum svo til eintóma karltrommara þannig að það er mjög auðvelt verkefni fyrir foreldra að tala stelpu ofan af því að fara í trommurnar.
Fagnið því að stelpan ykkar vilji læra á trommur því það sýnir að þarna fer stúlka með mikið sjálfstæði í hugsun sem hefur ekki hugsað sér að verða að einhverri uppstoppaðri tískubrúðu. Huggið ykkur við það að trommur eru mögulega eitt erfiðasta hljóðfæri sem hún getur valið sér sem krefst mikils aga og þekkingar og mun vinnan sem hún leggur í trommurnar því einungis þjálfa hana og undirbúa fyrir önnur verkefni í lífinu. Öll sú vinna sem hún þarf að leggja á sig við hljóðfærið mun gera hana að sterkari persónu.
Ljósmynd er af trommaranum Sheilu E.