„Fjárlög eru siðferðisyfirlýsing“
Þetta sagði Dr. Martin Luther King jr. þegar hann gagnrýndi forgangsröðun fjármuna til verkefna í forsetatíð Johnsons Bandaríkjaforseta („Budgets are moral documents“). King gagnrýndi að á sama tíma og fjármunum (og mannslífum) væri sóað í stríðsrekstur gegn fátækum í Vietnam væri forsetinn að svíkja loforð um að segja fátækt í eigin heimalandi stríð á hendur. Stríðsmaskínan fékk peninginn en framlög til velferðarmála voru skorin niður.
Martin Luther King hafði rétt fyrir sér. Ráðstöfun opinberra fjármuna endurspeglar siðvitund þeirra manna sem samþykkja tilhögunina. Á einu plani geta fjármálaáætlanir eða fjárlög sýnt svik á loforðum sjórnmálamanna fyrir kosningar. Það endurspeglar augljósan siðferðisbrest. Hitt er að í gruggugri pólitískri orðræðu er oft látið líta svo út sem standa eigi vörð um vissa þjónustu sem rík samstaða er um í samfélaginu, en fjárhæðirnar á fjárlögunum eða lengri tíma plönum eins og fjármálaáætlunum, sýna þveröfuga stefnu. Það er loddaraháttur og gróf svik við grunngildi sem samstaða er um í samfélaginu.
Í heilbrigðismálum á Íslandi endurspeglar þetta stefnu sem leynt og ljóst er verið að innleiða; einkavæðingu heilbrgðiskerfisins. Hún er komin nokkuð vel á veg nú þegar, en augljóst er að það á að bæta í svo um munar. Þar er fylgt eftir alþekktri þriggja punkta formúlu:
1) Skera niður framlög til opinbera heilbrigðiskerfisins þannig að útilokað sé að það veiti fullnægjandi þjónustu.
2) Ýfa upp orðræðu um að brotalöm í þjónustunni sanni að ríkisrekstur sé af hinu illa og að miklu betra sé að einkavæða þjónustuna.
3) Innleiða auknar heimildir til einkavæðingar. Þegar upp er staðið situr þjóðin uppi með samfélag þar sem fjármálaáhyggjur vegna veikinda er enn einn óttaþátturinn sem nagar einstaklinginn. Kerfi þar sem veikindi jafngilda gjaldþroti. Þetta er við lýði í Bandaríkjunum þar sem meirihluti gjaldþrota einstaklinga er vegna veikinda eða slysa. Lyfja- og sjúkrahúskosntaðurinn setur menn í þrot. Á meðan almenningur býr við stöðugan ótta um sökkva til botns, ef áföll verða, græða einkarekin heilbrigðisfyirtæki á tá og fingri. Hvergi í heiminum fer eins hátt hlutfall landsframleiðslu til heilbrigðismála og í Bandaríkjunum. Þessir fjármunir eru gróði fyrirtækja. Landstjórnin sem hefur það meginverkefni að tryggja öryggi borgaranna tryggir þeim aukið óöryggi.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans er að sjá þessa stefnu í birtingu hér á landi. Í forstjórapistli á síðu spítalans í gær gerði hann nýja fjárhagsáætlun til næstu fjögurra ára að umtalsefni. „Fjármálaáætlunin gerir ráð fyrir að Landspítali dragi verulega saman í rekstri á næsta ári…… okkur er óneitanlega talsvert brugðið“. Páli ætti ekki að vera brugðið því þetta lá í kortunum og hefur raun verið undirliggjandi stefna árum saman. Í íslenskri sérútgáfu pilsfaldakapítalisma sækja hinir gráðugu beint í ríkissjóð. „Útgjöld ríkisins til einkareksturs hafa aukist um 40 prósent á síðastliðnum árum, meðan þau hafa nánast staðið í stað til opinbers reksturs“, segir í frétt á Vísis í vikunni en upplýsingarnar eru frá Landlæknisembættinu. Yfirskriftin er: „Landlæknir segir einkarekstur nánast stjórnlausan“. Þetta er að sumu leyti misskilningur hjá Birgir Jakobssyni, landlækni, því þessari einkavæðinarstefnu er einmitt stýrt býsna haganlega – af þeim sem ætla að græða á henni.
Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir greinir þessa undirliggjandi einkavæðignarstefnu í heilbrgðisgeiranum ágætlega í pistli. Hún bendir á að hin svokallaði einkageiri seilist í auknum mæli í opinbert fé. „Þessir hópar munu ná sínu fram um aukna einkavæðingu og fjármálavæðingu kerfisins og þannig mun opinbert fé leka í gegnum einkarekstur kerfisins og í vasa fjárfesta“. Þeir sem eru þessa dagana í stöðu rottunar að naga sig inn að blóðstreymi úr opinberum sjóðum eiga sína tryggu fulltrúa við stjórnvölinn, eins og Sigurbjörg bendir á: „Við höfum fjármálaráðherra og forsætisráðherra sem báðir eiga fjölskyldutengsl við það fyrirtæki sem með skipulögðum hætti hefur verið búið undir það hlutverk í einkavæðingu kerfisins að taka við stórauknum verkefnum frá háskólasjúkrahúsinu og fá greitt fyrir þau verk úr opinberum sjóðum“.
Það er svo einstaklega nöturlegur kafli í grimmúðlegum leik græðgisloddarana að hafa stillt í framvörslu sinnar hagsmunabaráttu, stjórnmálamanni úr flokki mélkisumanna sem helst hefur verið áberandi fyrir áherslu á að finna friðsamlegar og málefnalegar lausnir á öllum hlutum. Það er bara mjálmað en ef til vill er búið að tryggja Dr. Spock stöðu á Klínikinni eftir næstu kosningar.
Á hans vakt er verið að naga samfélagið innanfrá af holræsarottum græðgisvæðingar og bitförin eru nú um alla hryggjarsúluna sem heldur uppi sátt, samvitund og öryggistilfinningu þjóðarinnar. Þetta er óværa sem engu eirir og endurspeglar stórkostlega siðblindu. Martin Luther King sagði að fjárlög væri ekki bara fjármálaskjal heldur siðferðisyfirlýsing. Við sjáum nú birtingarform siðvitundar þeirra sem vilja græða á veikindum borgaranna. Kaus meirihluti landsmanna þessa stefnu?