Sálfræðingar í fílabeinsturni
Guðmundur Ingi Þóroddsson skrifar:
Sálfræðingur hafði ekki stigið fæti inn í fangelsið á Akureyri í næstum tvö ár þar til nýverið, daginn eftir að fangi svipti sig þar lífi. Forstöðumaður fangelsisins sagðist í viðtali eftir þennan hörmulega atburð ekki hægt að tryggja að fangar styttu sér ekki aldur. Ef vilji væri fyrir hendi gætu fangar framið sjálfsmorð. Vistarverur fanga væru allajafna búnar nútíma þægindum.
Um svipað leyti var upplýst um atvik á Litla-Hrauni þar sem fangaverðir þurftu að bregðast við ástandi hjá veikum einstaklingi sem reyndi að kveikja í sér. Sá hafði ekki fengið þá faglegu aðstoð sem hann þurfti á að halda, en ljóst að hann þarf á aðstoð að halda sem ekki er til staðar í fangelsum landsins. Afstaða telur með öllu ótækt að sú „heita kartafla“ sem geðheilbrigðismál fanga eru, sé látin enda í fanginu á starfsfólki fangelsanna sem hefur um árabil sömuleiðis bent á þessa brotalöm: að enginn geðlæknir þjónusti fanga, né hafi gert um árabil, og að hræðilega erfið mál séu bara skilin eftir hjá starfsmönnum sem geta ekki veitt málum einstaklinga í annan farveg en þau nú þegar eru í – að þeir séu vistaðir í fangelsum.
Afstaða sendi dómsmálaráðherra áskorun 4. apríl sl. vegna atviksins á Litla-Hrauni þar sem krafist er úrbóta. Innanríkisráðuneytið hefur upplýst að unnið sé að svari, sem sé að vænta innan skamms. Það er einfaldlega sameiginlegt baráttumál, bæði fanga og fangavarða, að á þessu verði fundin lausn – og það án tafa. Ekki er lengur hægt að sætta sig við, eftir margra ára baráttu, að ráðuneytið sem fer með málaflokkinn sýni engan áhuga á því að finna lausn fyrir þá sem sitja geðsjúkir eða veikir í fangelsum landsins. Þetta er í raun þjóðarskömm!
Á hinum Norðurlöndunum er starfi sálfræðinga í fangelsum sinnt með öðrum hætti en hér á landi. Til dæmis þá borða þeir með föngum, stunda jafnvel íþróttir með þeim ásamt því að veita bæði viðtöl í hópum og einrúmi. Sálfræðingarnir þar taka einnig ákvarðanir sem varða daglegt líf fanga, til dæmis um veitingu leyfa úr fangelsi, reynslulausnir og flutning á milli deilda og fangelsa. Sérstaklega mikilvægt er að fyrrgreindar ákvarðanir séu teknar af teymi fagfólks en ekki einstaklingum sem virðast vart gera sér grein fyrir afleiðingum ákvarðana sinna. Enda eru mörg dæmi um vanlíðan, þunglyndi og jafnvel ótímabær dauðsföll vegna vanhugsaðra ákvarðana stjórnenda fangelsa, sem ekki eru heilbrigðismenntaðir.
Hér á landi hefur stefnan verið sú að fjölga beri stöðugildum á skrifstofu fangelsismálastofnunar á Seltjarnarnesi í stað þess að leggja áherslu á staðbundna þjónustu sérfræðinga í nærumhverfi þeirra sem aðstoðina þiggja – og vinna þannig í nánum samskiptum við skjólstæðinga fangelsismálastofnunar auk þeirra starfsmanna sem eiga í mestum samskiptum við nefnda skjólstæðinga.
Íslensk fangelsismálayfirvöld telja það mögulega ekki í þeirra verkahring að aðstoða skjólstæðinga sína við að vinna á þeim margvíslegu vandamálum sem upp geta komið þegar menn afplána dóm í fangelsi. Fangelsismálastofnun vill kannski heldur reka ágætt geymsluhúsnæði eins og lýsing forstöðumannsins í fangelsinu á Akureyri, bar með sér.
Forstöðumaður fangelsisins á Akureyri (sem er einnig forstöðumaður fangelsisins á Hólmsheiði) virðist enda misskilja hlutverk fangelsisyfirvalda og tilganginn með dómskerfinu, ef miðað er við yfirlýsingar hans eftir hinn hörmulega atburð sem gerðist í fangelsi sem hann stjórnar. Og það virðist einnig uppi einhver misskilningur hjá stjórnendum fangelsismálastofnunar um að gæði þjónustu verði mæld í fjölda þeirra sérfræðinga sem starfa á skrifstofu stofnunarinnar á Seltjarnarnesi.
Þvert á móti. Fagmenntað fólk þarf að vera til staðar þar sem ákvarðanirnar sem móta daglegt líf þeirra sem afplána dóma eru teknar, svo þær séu raunverulega teknar á faglegum grunni og gagnist – föngum sem hafa áhuga á að snúa út í samfélagið að nýju sem betri einstaklingar.
Höfundur er formaður Afstöðu, félags fanga á Íslandi.
Ljósmynd Vikudagur