Elly allra tíma
Minning sögunnar er mikilvægari en flest í okkar lífi. Minning um ástsælustu söngkonu síðustu aldar, Elly Vilhjálms er mikilvæg og frábær sýning Borgarleikshússins nær að fanga allt það sem skiptir máli í speglun sögunnar; tíðarandann, gleði og harm persóna og þá einstæðu konu sem náði að grípa fólk og skapa því minningu sem lifir.

Elly
Það er ótrúlegt afrek að ná að minnast minninganna og vekja upp nýjar á leiksviðinu. Leikhúsgestir voru flestir komnir yfir miðjan aldur og maður fann taugarnar þenjast í hlátrinum, jafnt og í sorglegu köflum. Mikið var um minningu um ástina á sýningunni; ástir hennar og þá óneitanlegu staðreynd að harmur hlýtur að fylgja ást ef hún verður fleiri en ein. Á sýningunni skynjaði maður að fólk, sem í upphafi sat beint, hallaðist nær hvort öðru og einhver grunur var um að hendur fundust í laumi.
Ég man ekki eftir Elly sem persónu, þó miðaldra sé, en ég man lögin sem ómuðu úr útvarpsviðtækjum ríkisstöðvarinnar í þá daga þegar allir hlustuðu á það sama. Mörg lögin snertu streng sem maður vissi varla að væri til. Mamma mín var með á sýningunni og þessi besta kona heims, flökti á milli sveiflunnar, gleðinnar og endurupplifun tíðarandans sem hún lifði. Mundi snúninginn með pabba á dansgólfinu undir lifandi bandi og söng sem hrærði; hafði skilning á örlögum konunnar sem saumaði og varð að kljást við dómhart samfélag hertra þorskhausa sem voru til þá, eins og þeir eru til í dag.

Elly
Sýningin er um svo miklu meira en um Elly Vilhjálms. Hún er hlið á sögu þjóðar sem allir eiga að kynnast og verða ríkari fyrir vikið. Vonandi verður þessi sýning lengi á fjölunum og nauðsynlegt að yngri kynslóðir mæti og fái bragðkeim af sjötta, sjöunda og áttunda áratugnum og átti sig á að líka þann tíma lifiði fólk sem fann til, elskaði, syrgði og lifði fyrir að skapa.

Elly
Allir aðstandendur þessara sýningar eiga mikið hrós skilið. Þeir Gísli Örn Garðarsson og Ólafur Egilsson ná að búa til sýningu sem er hröð en samt næm og umfram allt uppfull af virðingu. Leikararnir standa sig vel og bregða sér hver í nokkur hlutverk. Björgvin Franz Gíslason er óborganlegur og nær að halda sinni túlkun innan sprengjusvæðis grínrammans þó hann daðri við hættumörkin á stundum. Þegar menn leika Ragga Bjarna er svigrúmið samt rýmra en ella.

Elly
Stjarna þessarar sýningar er Katrín Halldóra Sigurðardóttir, sem hreinlega er Elly Vilhjálms. Hún syngur af djúpri tilfinningu og með mótaðri rödd; stekkur milli laga og blæbrigða á milli stuttra en merkingarþrungra samtalsatriða eða eintals af svo mikilli hæfni og innlifun að hver einasti gestur salarins er með henni í gleði, sorg og dansi. Nafnið Katrín Halldóra verður hér eftir leikhúsnafn sem allir muna.
Ég fór á þessa sýningu og hélt að hún væri allt öðruvísi. Bjó mig undir að umbera flutning á gömlum lögum og upprifjunum um söngkonu sem lést fyrir tuttugu árum. Ég gékk hins vegar úr leikhúsinu fullur af þakklæti fyrir allt það miklu meira sem sýningin var. Hún opnaði glugga í heim sem ég þekkti bara úr þurrum sögnum eða sem óm úr útvarpstæki bernskunnar. Sýningin sagði mér þarna sögu foreldra minna en umfram allt sagði hún mér sögu konu sem kunni að elska meira og stærra en örlögin ætluðu henni. Það eru nú örlög margra, ekki bara þá heldur nú og um ókomna tíð og þá skiptir engu þótt einhver þykist öðrum þröstum meiri, þenur brjóst og sperrir stél.
Það er Elly í öllum og þess vegna er hún eilíf.
Myndir: Borgarleikhúsið