Macron kærir Le Pen: Dylgjaði að hann ætti leynireikninga í skattaskjóli
Emmanuel Macron hefur kvartað formlega til franskra saksóknara vegna meintra meiðyrða, Marine Le Pen, andsæðings síns í komandi forsetakosningum á sunnudag, vegna þess að hún dylgjaði að því að hann væri með leynilega bankareikninga í skattaskjóli. Hafin er rannsókn á þessum dylgjum og eru þær teknar alvarlega.
Dylgjur Le Pen féllu í sjónvarpskappræðum gærkvöldsins þar sem hún sagði: „Ég vona að við komumst ekki að því síðar að þú eigir aflandsreikninga á Bahamaeyjum“. Seinna viðurkenndi Marine að hún hefði engar sannanir í höndum til að styðja þessar dylgjur. Macron þverneitaði að eiga nokkra síka reikninga og taldi dylgjurnar það alvarlega að hann krafðist rannsóknar á dreifingu falskra frétta og lyga.
Sjonvarpskappræðurnar þóttu óvenju harðvítugar og þótti Marine Le Pen, sem bíður sig fram í nafni hægri öfgaflokksins Front National, í meira lagi óbilgjörn. Skyndikannanir sem gerðar voru eftir kappræðurnar virtust sýna að leðjuslettur Le Pen hefðu haft þveröfug áhrif og töldu flestir að Macron, þó hann teldist fremur litlaus, hefði haft betur í þessum kappræðum. Macron hefur mælst með yfirburðastöðu eða um 60% atkvæða en enn virðast margir óvissir um hvar þeir ætla að setja markið á kjörseðilinn. Allt að 20% hafa í könnunum síðustu daga sagst óákveðin.