Fyrir barnið í okkur öllum
Á eigin fótum er fjarska falleg, einföld og einlæg saga, ætluð börnum frá tveggja ára aldri og fjölskyldum þeirra og víst er að ekki lætur sýningin meira yfir sér en svo; þó leynir hún á sér, það býr meira undir en virðist í fyrstu og það á fleiri en einu plani.
Ef litið er fyrst til þess sem við blasir, þá er sýningin ákaflega vel samin. Sagan er sögð blátt áfram, framvindan er eðlileg og gerð hæfilega spennandi bæði að efni og listrænni útfærslu til að vera vel til þess fallin að barnshugur skilji hana og kveiki á þeim hugmyndum sem þar koma fram; hún er sögð á hugmyndaríkan hátt þannig að fullorðnir hljóta líka að geta hrifist og þá eru allir möguleikar á að kynslóðirnar taki leikhúsupplifunina til sín, eigi hana saman og geti rætt um hana löngu eftir að leikhúsljósin eru slokknuð og sýningunni lokið – enda er sagan það nálægt raunveruleika barna að þeim hlýtur að finnast hún mikilvæg og það er okkur fullorðna fólkinu hollt að vera minnt á hvað brennur helst á litla fólkinu okkar.
Höfuðpersóna verksins heitir Ninna, hún er sex ára stúlka sem elskar hann pabba sinn, sem er henni góður og skemmtilegur faðir. Ninna lendir í ævintýrum sem lítil börn og stór skilja; hafi þau ekki reynt þau á eigin skinni, sér samhygðin til að halda vitundinni vakandi og hjartanu í hæfilegum slætti.
Ninna er send í sveit yfir sumarið og þetta nýja umhverfi er henni ókunnugt og framandi, eins ólíkt bænum þar sem hún á heima. Í þessum nýju heimkynnum birtast henni alls konar undarlegar verur, sem hún þarf að kynnast: kýr, kindur og hundur og það reynir á þor hennar og áræði; og þá ekki síður þegar hún lendir í óveðri og erfitt reynist að rata aftur heim á bæ. En verstur er kannski einmanaleikinn, tilhugsunin um að sjá kannski aldrei aftur hann pabba sinn, sem reynist Ninnu erfiðust og sem yfirgnæfir allan annan ótta.
En Ninna er áræðin telpa, hún er snögg að átta sig á aðstæðum og takast á við þá erfiðleika sem þær hafa í för með sér. Hún bregst við þannig að hún viðurkennir ótta sinn, tekst á við hann, og veit ávallt innst inni hvað hún vill. Hún er hugrökk og leitar uppi vináttu, hvort sem það er við menn eða dýr, enda hefur það komið greinilega fram í upphafinu, að samband hennar og pabba hennar byggir á vináttu. Og þetta er gert á trúverðugan máta í sýningunni, enda er sagan byggð á endurminningum raunverulegrar telpu, Signýjar Óskarsdóttur, sem er amma leikstjórans, Agnesar Wild.
Agnes hefur tekið sögu ömmu sinnar og fært í búning leikhússins og sniðið að barninu í okkur öllum; atriði sögunnar og tilfinningar hitta beint í mark og kveikja löngun til að sjá hvað verður um hana Ninnu – því hún er persónan í brennidepli og við látum okkur svo sannarlega varða afdrif hennar og örlög.
Og þá er ekki eftir nema ljóstra upp um þá skemmtilegu staðreynd, að Ninna er brúða. Brúða, sem liggur ekki á tilfinningum sínum, viðbrögðum eða vilja – og fátt er betur fallið til að vekja undrun, spennu, samúð og kæti en uppátæki brúðu og óvissan um örlög hennar og afdrif.
Brúðuleikhús er heillandi listform. Á Íslandi hefur alltof lítið farið fyrir því, en þó skal nefnt það sem vel hefur verið gert eins og ævistarf frumkvöðulsins Jóns E. Guðmundssonar; þá má nefna Leikbrúðuland sem þær Bryndís Gunnarsdóttir, Hallveig Thorlacius og Helga Steffensen stofnuðu og ráku um árabil og auðvitað Brúðubílinn, sem Helga Steffensen rekur á vegum Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkurborgar og hefur gert í meira en þrjá áratugi. Þá skal einnig nefndur Bernd Ogrodnik sem hefur um árabil rekið brúðuleikhúsið Brúðuheima sem hefur sett upp fjölda sýninga, nú seinustu árin í samvinnu við Þjóðleikhúsið. Bernd gerir brúður með margvíslegri tækni, Jón E. Guðmundsson gerði einkum strengjabrúður meðan Leikbrúðuland og Brúðubíllinn hafa aðallega notast við handbrúður og stangarbrúður, en leikbrúður eru af ýmsu tagi og stjórntækin jafn mismunandi og stærð þeirra og útlit. Einatt eru leikbrúður flokkaðar eftir uppruna, menningarsvæðum og tækninni sem þeim er stjórnað með.
Ninna, sem birtist okkur í Á eigin fótum, á sér líka uppruna. Hún er svonefnd Bunraku-brúða, en slíkar brúður eru ættaðar frá Osaka í Japan og eiga sér sögu allt frá seinni hluta 17. aldar, þegar þessi sérstaka tegund brúðuleiklistar kom til sögunnar þar. Bunraku er einatt aðskilið frá kabuki-leiklist, þar sem leikarinn hefur frelsi til að bæta við texta og sprelli frá eigin brjósti; bunraku er aftur á móti leikstíll þar sem handriti er stranglega fylgt og sagan sögð með aðstoð sögumanns; samkvæmt ströngustu hefð er sögumaðurinn sá sem leikur öll hlutverkin en með aðstoð brúðustjórnenda, sem eru yfirleitt þrír um hverja brúðu og er stöðumunur nokkur á þeim – sá elsti og reyndasti stjórnar höfði og hægri hendi brúðunnar, sá sem næstur honum kemur stjórnar vinstri hendi, en nýliðinn í hópnum sér um fætur brúðunnar. Þeir bera hvert sitt starfsheitið, en sameiginlegt starfsheiti þeirra er “kuromaku” sem merkir svart tjald, eða í yfirfærðri merkingu “sá sem dregur í spottana á bak við tjöldin”. Það er ekkert auðvelt verk að stjórna bunraku-brúðu; stjórnendur hennar verða að bogra við starf sitt og ganga um verulega hoknir í hnjám og það krefst þess að þeir séu í góðri líkamlegri þjálfun, séu fimir og kattliðugir og hafi jafn mikið vald á eigin líkama og brúðunni. Stjórnendur brúðunnar eiga svo gjarnan um tvo kosti að ræða þegar kemur að leik og hegðun brúðunnar og það er “furi”, sem er nokkuð raunverulegur leikstíll eða “kata” sem er stílfærð túlkun.
Lýsingin hér á að öllu leyti við Ninnu og leikstíll hennar myndi teljast nær hinum raunverulega – viðbrögð hennar, hreyfingar og ryþmi er með náttúrulegra móti og það hygg ég sé gert til að ná betur til hinna ungu áhorfenda og gekk að mínu viti alveg upp – þeir fylgdust með af athygli og fylgdu Ninnu eftir í öllum atriðum, stórum sem smáum.
Það er held ég allt í lagi að segja, að eins og Ninna lendir í mörgum ævintýrum og mikilli óvissuferð í sveitinni og eigin tilfinningaheimi, þá fer allt vel að lokum og við áhorfendur finnum, rétt eins og Ninna sjálf, til ekta og fölskvalausrar gleði yfir endalokunum.

Aðstaðdendur sýningarinnar.
Samræður eru í lágmarki í þessari sýningu, það er brúðan Ninna sem ræður för ásamt fjölda aðstoðarbrúða og reyndar nokkurra leikara af holdi og blóði einnig; einkum eru það dýrin í sveitinni, sem vekja ósvikna hrifningu sakir hugkvæmni í gerð þeirra – þar birtist nútíminn í brúðugerð svo ekki verður um villst; á meðan Ninna er hefðbundin bunraku-brúða eru dýrin í sveitinni gerð úr því sem hendi er næst. Mjólkurskjóla, ferðataska og ýmislegt fleira tekur breytingum fyrir augum áhorfenda, öðlast líf og skapgerð og hefur áhrif á gang mála í sögunni. Það er bæði fallegt og fyndið og vekur hrifningu.
Brúðugerðin, eins og reyndar smekkleg og látlaus leikmyndin, sem og búningar, skrifast á Evu Björgu Harðardóttur, sem notið hefur aðstoðar Brynhildar Sveinsdóttur. Þær vinna ákaflega glæsilega og listræna umgjörð utanum söguna hennar Ninnu, fullkomlega í stíl við einfaldleika og einlægni sýningarinnar. Þeirra verki er vel fylgt eftir í lýsingu Kjartans Darra Kristjánssonar, sem setur fókus þar sem við á og skapar stemningu í átökum og skerpir á þeim – þegar Ninna kveður föður sinn, lendir í óveðrinu og víðar.
Ógetið er tónlistarinnar, sem er frumsamin og flutt af þeim Sigrúnu Harðardóttur og Margréti Arnardóttur; þær skapa hógværa hljóðmynd sem ýtir vel og eðlilega undir þær tilfinninningar sem við eiga hverju sinni; einkar notalegt er sú lausn að láta Ninnu og pabba hennar skapa tengslin sín í millum með litlu lagi, sem verður svo að eins konar leiðarstefi í gegnum alla söguna. Þar er unnið fyrir barnið í okkur öllum, sem þráir og elskar að skynja allt, sem þekkist aftur og finna fyrir örygginu og traustinu, sem það vekur.
Á eigin fótum er vel unnin og þekkileg sýning sem vonandi verður langra lífdaga auðið; sannarlega á allt lítið fólk þessa lands skilið að sjá svo vandaða sýningu og fær með henni seiðmagnaða og töfrandi leiðsögn fyrir yngstu áhorfendurna inn í undraheim leikhússins.
Tjarnabíó: Leikhópurinn Miðnætti í samstarfi við Lost Watch Theatre Company: Á eigin fótum
Leikstjóri: Agnes Wild
Höfundar: Leikhópurinn Miðnætti og Lost Watch Theatre Company
Tónlist og tónlistarflutningur: Sigrún Harðardóttir og Margrét Arnardóttir
Leikmynd/búningar/brúðugerð: Eva Björg Harðardóttir
Ljósahönnuður: Kjartan Darri Kristjánsson
Leikarar: Nick Candy, Olivia Hirst, Rianna Dearden, Þorleifur Einarsson