Næturfundi þings lauk án afgreiðslu Landsréttarmálsins
Ekki tókst að ljúka þingi í nótt eins og hafði verið stefnt að en útaf stóð ágreingingur um skipan dómara í nýjan Landsrétt. Sigríður Andersen, dómsmálaráðherra hefur sætt harðri gagnrýni fyrir að leggja til að gengið sé gegn tillögum hæfisnefndar. Píratar höfðu í hyggju að leggja fram vantrauststillögu ef ekki yrði farið að tillögu þeirra og málinu vísað frá. Í nótt náðist samkomulag um að fresta afgreiðslu málsins til klukkan ellefu í dag og ræða það í björtu.
Þingfundi lauk klukkan níu mínútum yfir tvö í nótt og höfðu þá verið afgreidd frá miðnætti tuttugu og fimm mál frá því fundurinn hófst klukkan hálf eitt, þar á meðal fjármálaáætlun til næstu fimm ára sem mikill styr hefur staðið um.
Búast má við fjörugum umræðum um Landsdómsmálið en dómsmálaráðherra leggur til frávik frá nöfnum þeirra fimmtán sem hæfisnefnd taldi hæfasta í dóminn og skáka þaðan út fjórum og taka inn fjóra aðra sem voru metnir minna hæfir af nefndinni. Tíðindi hafa borist af því að í einhverjum tilfellum íhugi þeir sem fengu ekki náð fyrir augum ráðherrans að leita réttar síns með málshöfðun gegn ríkinu verði þetta endanleg niðurstaða.
Myndin með fréttinni er af því þegar þingmenn yfirgefa salinn í nótt en að neðan má sjá upptöku af því þegar forseti þings slítur fundi og Birgitta Jónsdóttir, pírötum gerir grein fyrir því samkomulagi sem náðist um að fresta landsréttarmálinu til morguns.