Sóley og „helvítis dóninn“
Sóley Tómasdóttir segir að hefði kona reiðst í ræðustól líkt og minn góði pírat Jón Þór í dag og notað blótsyrði hefði hún umsvifalaust misst þingsætið. Sóley vill greinilega hafa þingið þannig að það sé vont við konur.
En þarna fer sú mæta kona öldungis villur pólitískra vega. Svipað hefur gerst a.m.k. þrisvar á minna en tíu árum. Í öll skiptin velktist þau atvik um miðlana. Í eitt skiptið mjög hressilega. Minnið er nefnilega svikult verkfæri.
Tvisvar á aldarfjórðungi tók ég andköf undir ræðum . Mér svelgdist á þegar Steingrímur Jóhann kallaði Davíð Oddsson „gungu og druslu.“ Steingrímur lifði það af en mátti ekki miklu muna.
Í síðara skiptið fossaði reitt blóð um æðar helsta kvenskörungs Alþingis sem hafði raunar næstlengstu ráðherrareynslu þingkvenna á þeim tíma. Núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins bað hana þá nokkuð yfirlætislega um að „róa sig.“
Henni hitnaði í hamsi og endaði á því að kalla hann af innlifaðri bræði „helvítis dóna.“
Á þeirri konu hef ég einna mestar mætur haft á minni þingtíð. Þetta var Katrín Júlíusdóttir. Hún var ekki rekin af þingi.Eftir gispið braust fram aðdáun hjá mér og fleirum. Bjarni var átalinn fyrir kvenfyrirlitningu og sýndi sjaldgæf merki um iðran. – Þetta var 2014.
Tímarnir eru, þrátt fyfir allt, breyttir, einsog sést best á því að m.a.s. Brynjar Níelsson er orðinn femínisti.