Vopnað valdarán
Kristinn Hrafnsson skrifar:
Þegar lögregla gengur um meðal almennra vopnlausra borgara, jafnvel á barnahátíðum, gefur hún þau skilaboð að þjóðin sé andstæðingur; lögreglan sé armur valdsins og vopnin séu til að verja það. Verja valdið fyrir borgurunum. Það sem á yfirborðinu á að heita fælingarmáttur verður ögrun. Ögrun gegn grunngildum.
Aðeins þeim sem eru svo firrtir að snúa því á haus hvar lýðræðisvaldið liggur, dettur í hug að grípa til jafnróttækrar ögrunar og að láta lögreglumenn með alvæpni ganga um á meðal borgaranna, án þess að haldbær rökstuðningur sé borin á borð. Þess vegna fer um menn við síðustu tíðindi. Skilaboðin eru augljós; þau eru andlýðræðiseg og þau eru hættuleg.
Fólkið í landinu ræður. Það framselur sitt vald til hóps, í vali sem fer reglulega fram. Hópurinn sem er valinn til að stjórna, á allt sitt undir almenningi. Sú samkunda sem á að fara með þetta vald er vettvangur þar sem allar meiriháttar stefnubreytingar eru ræddar í þaula. Sá vettvangur hefur aldrei samþykkt að vopnuð lögregla ögri almenningi á þjóðhátíðardaginn 17. júní, á fjölskyldu- og barnahátíðum, á tónleikum eða útihátíðum.
Vopnuð lögregla á almannafæri er því valdarán.
Hættan á hryðjuverkum á Íslandi er sáralítil. Sú litla hætta sem er til staðar er bein afleiðing af stuðningi stjórnvalda við hernaðaraðgerðir í löndum eins og Afganistan og Írak. Hún er bein afleiðing af því að Ísland sendi hermenn til beggja landa. Ef einhver hryðjuverkaógn er í landinu er hún á ábyrgð þeirra sem tóku þær ákvarðanir. Ef hryðuverk er framið, bera þeir stjórnmálamenn ábyrgð.
Helsta ofbelisógn Íslendinga er vegna ástands sem grasserar í ölvunarumhverfi. Miðborg Reykjavíkur er iðulega víðgvöllur um helgar hvaðan fólk er flutt illa lemstrað og margir með varanlega skaða. Ofbeldið viðgengst líka inn á heimilum. Kynferðisofbeldi er ógn.
Byssur leysa ekki þann vanda og skapa ekkert öryggi.
Árum saman hefur sú krafa verði hávær að sýnileg löggæsla sé aukin. Það, að vita af lögreglu og sjá til þjóna laga og reglu, skapi öryggi. Þeirri kröfu er ekki sinnt, sýnilegt öryggi er ekki aukið. Kröfunni er svarað með sýnilegu valdi og sýnilegum skotvopnum.
Byssuhlaupið snýr að þér.