Vopnaðir á Hlölla
Það er eins og sú skipun hafi verið gefin út af Ríkislögreglustjóranum Haraldi Jóhannessyni að vopnaðir lögreglumenn láti sja sig sem víðast og þó einkum og sér í lagi á veitingastöðum. Þannig bárust fréttir af vopnuðum lögreglumönnum í Múlakaffi í gærkvöld, innan um matargesti og í kvöld voru vopnaðir sérsveitarmenn sjáanlegir við skyndibitastaðinn Hlölla við Ingólfstorg að panta sér þar bita, eins og meðfylgjandi mynd sem vegfarandi sendi Kvennablaðinu, ber með sér.
Vopnaburður lögreglu var ræddur á fundi allsherjarnefndar Alþingis í dag og kom þar fram að þessi stefnubreyting, að lögregla beri vopn á viðburðum, m.a. Litahlaupi, landsleikjum, tónleikum og þjóðhátíðardaginn, hafi ekki verið borin undir dómsmálaráðherra landsins. Borgaryfirvöldum var heldur ekki tilkynnt um þennan sýnilega vopnaburð. Haraldur Jóhannessen, Ríkislögreglustjóri ver ákvörðunina með vísan í óljósa hættuaukningu, án þess að rökstyðja það frekar, en ítrekar á sama tíma að engar upplýsingar séu fyrirliggjandi um yfirvofandi hryðjuverk gegn þjóðinni.