Má bjóða þér eftirmat?
Munið þið eftir því þegar allir borðuðu eftirmat. Ég er ekki að tala um eftirrétti. Þeir eru enn á borðum á veitingahúsum og í heimahúsum spari. Nei, það er eftirmatur sem ég er að tala um. Súpur og grautar sem eru borðaðir eftir aðalrétti á virkum dögum. Hrísmjölsgrautur með kanilsykri og hindberjasaft, sagógrjónagrautur með kanil og saft, Kakósúpa með tvíbökum, makkarónumjólk með rúsínum, Royal búðingur með rjómablandi, ávaxtagrautar, brauðsúpa með rjóma. Á sunnudögum dillandi hlaup með kokteilávöxtum úr dós eða ís.
Ég fór að hugsa um þetta eftir fjörugar umræður um Royal búðing á síðu Önnu. Flestir áttu það sameiginlegt að hafa borðað hann sem barn, þó minningarnar um hann væru misgóðar. Margir áttu líka sameiginlegt að hafa reynt að bjóða börnum sínum búðinginn við dræmar undirtektir. Enda borðar fólk ekki lengur eftirmat… og krakkarnir gretta sig ógurlega ef maður reynir að gefa þeim sagógrjónagraut eða hrísmjölsgraut. Sennilega hefur þetta verið gert til að drýgja í den. Verið ódýrara að fylla upp með þessu en að kaupa meira af kjöti eða fiski.
Eini grauturinn sem hefur lifað af og trónir enn á vinsældalista margra barna er hrísgrjónagrautur. En ég þekki hins vegar engan sem notar hann sem eftirmat lengur. Hann er full máltíð, í mesta lagi í félagi við brauð með áleggi eða með slátri.
Mér fannst allir þessir grautar óhemjugóðir þegar ég var krakki. Bjargaði að fá eftirmatinn þegar maður var búinn að láta sig hafa það að innbyrða viðbjóð eins og sigin fisk eða gellur.Mér sýnist ég búin að leysa ráðgátuna um hvarf eftirmatsins. Það liggur ekki í hvarfi húsmæðra af heimilum landsins eins og ég hélt í fyrstu… og sennilega ekki heldur í betri efnahag. Nema óbeint… fólk fær jafnan svo góðan aðalrétt að það þarf ekki að bjarga særðum bragðlaukum með eftirmat. Kjúklingaofnréttur kallar ekki á kakósúpu. Á eftir hamborgurum myndi maður gubba ef maður ætti að borða hrísmjölsgraut. Og hvern langar í brauðsúpu á eftir pastanu?
En að öðru, má bjóða einhverjum HRÆRING í morgunmat?
Sigríður Pétursdóttir hélt um árabil úti vefritinu Kvika þar sem hún skrifaði aðallega um kvikmyndir og tengt efni en einnig um daginn og veginn. Greinin er birt með góðfúslegu leyfi höfundar en hún birtist fyrst hér.