Ríkisstjórnin hvellsprakk í nótt. Kosningar líklegar á næstunni
Alþingiskosningar innan tíðar virðast blasa við eftir farsakennda atburðarás frá því ljóst varð síðdegis í gær að Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra, hefði verið einn meðmælenda með uppreistri æru Hjalta Sigurjóns Haukssonar, dæmds barnaníðings. Sú staðreynd að Sigríður Andersen, dómsmálaráðherra játaði í kvöldfréttum að hafa sagt Bjarna frá þessu fyrir sex vikum síðan án þess að þeim upplýsingum hafi verið miðlað til samstarfsmanna í ríkissjórn, gerði útslagið. Stjórn Bjartrar framtíðar fundaði í gærkvöld og var yfirgnæfandi meirihluti á þeirri skoðun að slíta bæri stjórnarsamstarfinu. Tilkynnti flokkurinn það um miðnætti og bar við trúnaðarbresti. „Stjórn Bjartrar framtíðar hefur ákveðið að slíta samstarfi við ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar.
Ástæða slitanna er alvarlegur trúnaðarbrestur innan ríkisstjórnarinnar.“
Viðreisn vill kosningar
Sá möguleiki að einhver flokkur tæki við keflinu af Bjartri framtíð sem þriðja hjól í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Viðreisn var síðan útilokaður af Viðreisn í nótt. Um fjögurleytið sendi Viðreisn frá sér þessa tilkynningu: „Fréttir gærdagsins af málsmeðferð um uppreist æru hafa vakið sterk viðbrögð líkt og í samfélaginu öllu. Vinnubrögð í málum af þessu tagi verða að standast stranga skoðun þar sem ekkert er undan dregið. Það er skylda stjórnvalda gagnvart almenningi og þolendum þeirra alvarlegu glæpa sem málið varða.
Í ljósi stöðunnar sem nú er komin upp telur þingflokkur Viðreisnar réttast að boðað verði til kosninga hið fyrsta.“
Staða Bjarna í uppnámi
Bjarni Benediktson, forsætisráðherra virðist eiga fáa aðra kosti en að segja af sér sem forsætisráðherra og ganga á fund forseta í dag. Pólitísk framtíð hans hlýtur að teljast í uppnámi eftir þessa atburðarás. Undangengnar vikur hefur verið stöðug og þung pressa um opið uppgjör við þær stjórnvaldsákvarðanir að veita þekktum barnaníðingum uppreist æru og hafa mál Róbert Downey og Hjalta Sigurjóns Haukssonar farið hæst. Mikil tregða hefur verið bæði að fá uppýsingar um þá einstaklinga sem hafa mælt með uppreistri æru og eins að fá málefni brotaþola rædd í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd en Brynjar Níelsson veitir henni forstöðu. Þurfti atbeina úrskurðanefnda til að þvinga fram upplýsignar og umræðu.
Sigríður Andersen upplýsti svo í gærkvöld að hún hefði veitt Bjarna Benediktssyni þá sérmeðferð að upplýsa hann um að faðir hans hefði mælt með uppreistri æru Hjalta Haukssonar sem var árð 2004 dæmdur í 5 og 1/2 árs fangelsi fyrir að brjóta gróflega gegn stjúpdóttur sinni í 12 ár frá því hún var 5 eða 6 ára gömul. Bjarni fékk þessar upplýsingar frá Sigríði í lok júlí en málsaðilar og almenningur fékk fyrst þessa vitneskju í gær. Sigríður er sökuð um að hafa farið á svig við lög. Þessi staðreynd virðist hafa verið dropinn sem fyllti mælinn hjá Bjartri framtíð. Í samtali við RUV í nótt tekur Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra og formaður Viðreisnar þó ekki undir ásaknir um trúnaðarbrest en segir m.a. í ljósi þess að átta vikur tók að mynda þessa ríkissjórn eftir síðstu kosningar sjái hann ekki annað stjórnarmynstur í stöðunni án kosninga.
Þögn Bjarna
Undir morgun hafði enn ekkert heyrst opinberlega frá Bjarna Benediktssyni um stöðu málsins og hefur þögn hans síðan í gærdag ekki verið björguleg fyrir Sjálfstæðisflokkinn og hans eigin pólitíska stöðu. Yfirlýsing Benedikts föður hans sem send var út eftir að ljóst var að mikil fjölmiðlaumræða yrði um málið virkaði lítt trúverðug. Reyndi Benedikt að fjarlæga sig Hjalta eins og kostur var og sagði hann tengjast kunningjafólki hans og eiginkonunnar frá skólaárunum og að Hjalti hefði leitað til sín í nokkur skipti vegna „fjárhagsmála eða í tengslum við atvinnuleit“. Hjalti starfaði hjá Kynnisferðum, fyrirtæki Benedikts í 5 ár þar til honum var sagt upp vegna ábendinga utan frá um refsidóminn sem hann hafði á bakinu og sagði Hjalti við það tilefni við Erlu Hlynsdóttur blaðamann að þegar hann var ráðinn hafi yfirmenn fyrirtæksins haft fulla vitneskju um dóminn. Erla upplýsti þetta á facebook. Auk þess sagði Hjalti í samtali við DV í gær að Benedikt sé vinur sinn: „Við höfum verið vinir. Það er ekki þar með sagt, mér finnst að trúnaður á milli vina eigi að vera trúnaður á milli vina.“
Eins og fjármálaráðherra bendir á er erfitt að úthugsa stjórn úr því mynstri sem er í þinginu nú eftir dramatíska atburðarás síðustu klukkustunda. Jafnvel er erfitt að sjá að sátt skapist um að fráfarandi stjórn sitji sem starfsstjórn með Bjarna Benediktsson í forsæti fram að kosningum, eftir það sem undan er gengið. Boltinn er að nokkru leyti hjá forsetanum sem ætla má að sjái framan í forsætisráðherrann í dag.