Elly á yfirborðinu
Í prýðilegum pistli í leikskrá skrifar tónlistargúrúinn Jónatan Garðarsson um hina einstöku Elly Vilhjálms og nær að lýsa því sem var svo sérstakt við hana, í rökréttu samhengi við samfélagið, stöðu kvenna almennt og stöðu söngkvenna sérstaklega. Elly er með þeim fyrstu að sameina heimilisamstur og atvinnusöng, hún stofnar til þriggja sambanda með tónlistarmönnum sem hún vinnur með og lætur sér fátt um finnast þótt hún sé stöðugt milli tanna Gróu á Leiti. Þeir sem muna þessa tíma eiga tæplega í vandræðum með að komast að þeirri niðurstöðu núna að það þurfti enga venjulega hvunndagshetju til að standa undir þessu öllu og það á eigin forsendum eins og raunin var um Elly.

Elly
Það er nefnilega mikilvægt að hafa í huga að Elly er einfaldlega Elly – en það breytir því ekki að árekstur hennar við viðtekin viðhorf og venjur er fjölskrúðugt efni í spennandi, upplýsandi og átakamikið drama. Þetta styður lýsingin á henni í æfisögunni, sem Margrét Blöndal skrifaði um Elly og kom út fyrir um fimm árum; þar segir um Elly að hún hafi þótt “falleg kona, skarpgreind, gjafmild, vandvirk, samviskusöm og ósérhlífin, uppátækjasöm, glaðlynd og hlý í viðmóti, sannur vinur vina sinna. En persóna hennar geymdi líka mannlegar þversagnir: Víst var hún hlý og gjöful en jafnframt afar dul og hleypti ekki hverjum sem var að hjarta sínu. Hún var siðprúður daðrari sem hafði gaman af að bragða áfengi en hafði andúð á hvers kyns lausun og óreglu. Sumir dáðust að því hve hógvær hún var, öðrum fannst það jaðra við vanþakklæti hvað hún virtist stundum blind á eigin hæfileika. Stjórnsemi var henni nærtæk en hún gat líka verið fáskiptin við aðra. Hún var kjarkmikil en vanmat ætíð eigin getu. Hvatvís og varkár í senn. Mótsagnirnar voru margar. Tónlistarhæfileika hennar dregur þó enginn í efa.”
Þessi lýsing jafnast á við mannlýsingar Íslendingasagna, svei mér þá. En það er að fara í geitarhús að leita ullar að búast við að sýning Borgarleikhússins og Vesturports komi þeirri Elly til skila sem þarna er lýst. Til þess er frásögn sýningarinnar of einföld og fábrotin; hún skilar sögu Ellyar í einfaldri tímaröð, atvik og leiftur úr ævi hennar renna hjá ásamt viðeigandi tóndæmum, sem samkvæmt lista í leikskrá eru hvorki meira né minna en 40 talsins auk syrpu með átta lögum til viðbótar. Það gefur auga leið, að það er lítið rými fyrir díalóg á dýptina. Úr verður eins konar Elly á yfirborðinu. Það var nú kannski þannig, sem flestir þekktu hana.
Handritshöfundar gera sér líka grein fyrir því og vinna augljóslega með það í huga. Hér er látið nægja að kynna aðstæður í hverju atriði fyrir sig og svo er stefnt hraðbyri í endinn, næsta atriði tekur við og er samið eftir sömu formúlu. Þetta er vissulega snyrtilega gert, haganlegt handverk og vel það, og óhætt að segja að hvergi er að finna í sýningunni dauðan punkt. Það má reyndar minna á, að svipuð vinnubrögð voru viðhöfð í öðrum söngleik, sem Vesturport vann og sýndur var í Borgarleikhúsinu á sínum tíma – Ást – en þar var teflt saman gömlum slögurum og sígildum söngvum og búin til saga um ást á elliheimili, sem náði bara giska vel til fólks og naut feykilegra vinsælda.

Elly
Leikhópurinn í Elly er ekki skipaður nema fimm leikurum og hlaupa allir úr einu hlutverki í annað nema Katrín Halldóra Sigurðardóttir, sem leikur og syngur titilhlutverkið. Björn Stefánsson skilar þremur smærri hlutverkum en ber auk þess ábyrgð á þéttingsföstu slagverki sýningarinnar og gerir hvorttveggja með ágætum; Katla Margrét Þorgeirsdóttir fer létt með fimm hlutverk, sem öll eru á vissan hátt áhrifavaldar í lífi Ellyar, Hjörtur Jóhann Jónsson leikur fyrsta og þriðja eiginmann Ellyar, þá Eyþór Þorláksson gítarleikara og Svavar Gests, trommara, hljómsveitarstjóra, útvarpsmann og plötuútgefanda og fer á kostum í báðum hlutverkum þótt ég væri sýnu hrifnari af útgáfu hans á Svavari Gests; svipurinn og taktarnir náðu fyrirmyndinni nákvæmlega. Björgvin Franz Gíslason brá sér í hvorki meira né minna en sjö hlutverk, sum að vísu smá, en hann átti sviðið og áhorfendur skuldlaust í gerfi Ragnars Bjarnasonar – hver einasta hreyfing, augngota, allt var það svo hárnákvæmt að það eitt var í sjálfu sér fyndið, en auk þess söng hann eins og Raggi Bjarna, tónhæð, áherslur, öndun, þetta var allt eins og Raggi Bjarna væri sjálfur ljóslifandi kominn – og eru þeir þó ekkert sérstaklega líkir í útliti. En svona virka snilldar eftirhermur, þær geta miðlað anda þess karakters sem hermt er eftir og skapað hina fullkomnu ímynd án þess að beita útlitinu. Raggi Bjarna í útgáfu Björgvins Franz Gíslasonar gæti hæglega orðið efni í sérstaka sýningu! (Reyndar birtist Raggi Bjarna sjálfur í uppklappinu eftir sýningu og það gafst þá ágætt tækifæri til að bera saman frumgerðina við eftirhermuna. Frumgerðin viðurkenndi – við mikinn fögnuð áhorfenda – að eftirherman væri miklu líkari sér en hann hefði sjálfur verið á yngri árum og tók svo My way á sinn óviðjafnanlega hátt og uppskar vitaskuld “standing ovations” – nema hvað!) Þá er Björgvin Franz ekki síðri í tilfinningasamri innkomu sem yngsti bróðir Ellyar, Vilhjálmur, hinn ástsæli söngvari sem hvarf alltof snemma úr þessum heimi. Það má svo vel skjóta því að hér, að margt í leiknum byggði á revíukenndum húmor og snöggum og fyndnum tilsvörum í anda Svavars Gests og uppátektarsömum leiklausnum; það var hægt að hafa gaman af því, þótt það yrði kannski ekki til að dýpka skilninginn á persónum leiksins.

Elly
En eins og gull ber af eiri, bar Katrín Halldóra Sigurðardóttir af í hlutverki Ellyar. Þar var að finna ekki einasta fullkomna eftirlíkingu hvað varðar útlit, framkomu og rödd – Katrín Halldóra lék og söng hlutverk Ellyar þannig að maður trúði hverju orði, tillfinningunni á bak við og viljanum, sem rak hana áfram. Elly hennar Katrínar Halldóru er Elly sem manni þykir vænt um án skilyrða, virðir og dáist að og það er hreint kraftaverk að Katrín Halldóra geti skilað öllu því frá sér útfrá þeim stuttaralega texta sem hlutverkinu er gefinn. Söngtúlkunin gerir vitaskuld sitt – og þar var einnig að finna þennan gyðjumlíka hæfileika að geta samsamað sig þeirri persónu sem verið er að segja frá. Hér sannaðist það sem örlaði á í fyrsta hlutverki Katrínar Halldóru, Henríettu í Hróa hetti – að hún er enginn aukvisi á sviði og það verður svo sannarlega gaman að fylgjast með henni í framtíðinni.
Það er vandað til hvers smáatriðis þegar kemur að leikmynd, búningum, leikmunum, gerfi og lýsingu – allt útpælt og gert af meistara höndum og vinnur að sama marki, að skapa vandaða afþreyingu sem áhorfendur og áheyrendur taka til hjartans. Það er nú einu sinni þannig, að Elly, söngkonan sem gladdi hug og hjörtu landsmanna frá því hún hóf söngferil sinn uppúr miðri síðustu öld og þar til honum lauk um miðjan tíunda áratuginn, lætur engan ósnortin. Því er að þakka fallegum melódíur og ljúfum ljóðum, en fyrst og fremst hennar eigin rödd og túlkun, sem snerti þann streng í hjörtum að hver sem hlýddi varð sjálfur listamaður um stundarsakir.
Það er þess vegna að sýningu Borgarleikhússins og Vesturports um Elly er hér hrósað með dálítilli angurværð og trega. Sýningin er vissulega vel gert módernt melódram, ef svo má að orði komast, hnökralaust og lipurt. En hvað hefði ekki verið hægt að gera úr þessum makalausa efnivið – hvaða sögur geymir ekki sú Elly, sem höfundar ákváðu að leggja til hliðar svo ekkert yrði til að trufla hina léttvægu skemmtun, Elly á yfirborðinu. Það er ekkert að því að leyfa fyndni og sprelli að hafa ofan af fyrir fullum sal Borgarleikhúss, en mér segir svo hugur að lífskúnstnerinn, baráttukonan og Elly sé ekki síðra efni í magnaða leiksýningu, sem kæmi til skila því lífsdrama sem leynist á bak við hina fallegu, skarpgreindu konu.
Leikhús: Borgarleikhúsið í samvinnu við Vesturport
Höfundar: Gísli Örn Garðarsson, Ólafur Egill Egilsson
Leikstjórn: Gísli Örn Garðarsson
Leikmynd: Börkur Jónsson
Búningar: Stefanía Adolfsdóttir
Lýsing: Þórður Orri Pétursson
Tónlistarstjórn: Sigurður Guðmundsson
Hljóð: Garðar Borgþórsson
Sviðshreyfingar: Selma Björnsdóttir
Raddþjálfun: Kristjana Stefánsdóttir
Í hlutverkum: Katrín Halldóra Sigurðardóttir, Björgvin Franz Gíslason, Hjörtur Jóhann Jónsson, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Björn Stefánsson.
Hljómsveit: Sigurður Guðmundsson (píanó og orgel), Aron Steinn Ásbjarnarson (blásturshljóðfæri), Björn Stefánsson (trommur og slagverk), Guðmundur Óskar Guðmundsson (bassi), Örn Eldjárn (gítar og slagverk)