Lýðræði fyrir alla, alltaf
Við búum í samfélagi þar sem það þarf alltaf að mála yfir mygluna, þar sem stjórnmálamenn kalla fólk “geðveikt” fyrir að hrósa ekki málverkinu. Við búum í samfélagi þar sem þjóðaratkvæðagreiðsla er kölluð skoðanakönnun. Við búum í samfélagi þar sem ráðherrar gera vinum sínum greiða. Þetta er hins vegar allt í fortíðinni, við þurfum ekki að búa í fortíðinni. Við getum kosið að gera betur í framtíðinni.
Píratar bjóða upp á að gera betur. Á liðnum árum hafa Píratar bent á gallana og óþægilegu málin. Á nýliðnu þingi má þar nefna kjararáðsmálið, afturvirka skerðingu lífeyris, Vaðlaheiðarmálið, landsréttarmálið og uppreist æru. Píratar eru barnið sem bendir á nýju fötin keisarans, benda á að það er ekki sanngjarnt hvernig er farið með sameiginlegar auðlindir, hvernig húsnæðismarkaður þar sem leiguverð hækkar upp úr öllu valdi virkar ekki og hvernig byggðir eru lagðar í rúst út af ákvörðunum fárra.
Píratar bjóða betur. Fyrir síðustu kosningar lofuðu Píratar uppbyggingu í heilbrigðiskerfinu. Það var vegna baráttu Pírata að heilbrigðiskerfið er nú skuldlaust og þurfti ekki að glíma við niðurskurð á þessu ári. Þannig varð til kjörið tækifæri fyrir stjórnvöld til þess að hefja uppbygginguna sem kallað var eftir fyrir síðustu kosningar. Kjörið tækifæri sem stjórnvöld gripu ekki.
Píratar horfa fram á veginn og sjá ýmislegt spennandi á sjóndeildarhringnum. Þangað þurfum við að stefna og lengra. Inn í framtíð þar sem þjóðin er ekki geðveik. Inn í framtíð þar sem lýðræðið er ekki bara kosningar á fjögurra ára fresti. Inn í framtíð þar sem kjörnir fulltrúar sinna þjónustustarfi við alla landsmenn. Inn í framtíð þar sem við höfum ekki áhyggjur af því hvort við höfum þak yfir höfðinu á morgun og þar sem hægt er að flytja út frá hótel mömmu til að byrja sjálfstætt líf.
Við komumst þangað með því að hjálpast að til að velja bestu leiðina. Við komumst þangað með því að viðurkenna mistök, skipta um skoðun og axla ábyrgð þegar eitthvað fer úrskeiðis. Við komumst þangað af því að við viljum öll betra. Saman getum við tekið bestu ákvarðanirnar og Píratar geta opnað leiðina því við viljum að þú ráðir með rödd þinni, reynslu og atkvæði. Píratar treysta þjóðinni til þess að velja bestu leiðina.
Björn Leví Gunnarsson
Höfundur er þingmaður RN og í framboði í prófkjöri Pírata fyrir alþingiskosningar 2017