Helga Vala og Ágúst Ólafur leiða Samfylkinguna í Reykjavík
Helga Vala Helgadóttir, lögmaður og leikkona og Ágúst Ólafur Ágústsson, fyrrverandi alþingismaður, munu leiða lista Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur í komandi Alþingiskosningum. Framboðslistar flokksins voru samþykktir með lófataki á fjölmennum fundi á Reykjavík Natura í dag.
Helga Vala leiðir listann í Reykjavík norður en í 2. sæti á eftir henni situr Páll Valur Björnsson, fyrrverandi þingmaður. Ágúst Ólafur leiðir í Reykjavík suður og á eftir honum kemur Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri við Háskólann í Reykjavík. Listana í heild sinni er að finna hér í viðhengi.
Helga Vala Helgadóttir er héraðsdómslögmaður og leikkona auk þess sem hún er umboðsmaður rokkhljómsveitarinnar Mammút. Helga Vala starfaði um árabil á fjölmiðlum þar sem hún sinnti dagskrárgerð af ýmsum toga áður en hún sneri sér að fullu að lögmennsku en hún er eigandi Völvu lögmanna. Í lögmannsstörfum sínum hefur Helga Vala meðal annara sinnt réttargæslu fyrir brotaþola kynferðisbrota, sinnt mannréttindamálum og málefnum útlendinga, barna- og fjölskyldurétti auk annars.Síðustu ár hefur Helga Vala sinnt fjölmörgum trúnaðarstörfum, meðal annars setið í stjórn Félags íslenskra leikara, í Þjóðleikhúsráði og Höfundarréttarráði. Árin 2009-2010 var Helga Vala formaður Samfylkingarfélagsins í Reykjavík.
Ágúst Ólafur Ágústsson er fyrrverandi alþingismaður og varaformaður Samfylkingarinnar. Ágúst hefur upp á síðkastið unnið sem aðjúnkt við Háskóla Íslands. Hann er fyrrverandi efnahagsráðgjafi forsætisráðherra, sat í bankaráði Seðlabanka Íslands og vann um tíma hjá Sameinuðu þjóðunum í New York. Ágúst Ólafur hefur hlotið viðurkenningu Barnaheilla fyrir að sérstök störf í þágu barna og hafa með störfum sínum bætt réttindi og stöðu barna. Ágúst er lögfræðingur og hagfræðingur að mennt.
Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir er framkvæmdastjóri Tengsla hjá Háskólanum í Reykjavík en þar hefur hún starfað síðastliðin sex ár. Þar áður starfaði Jóhanna Vigdís sem framkvæmdastjóri Listahátíðar í Reykjavík, sem markaðsstjóri Borgarleikhússins og sem forstöðumaður markaðsmála Straums-Burðaráss fjárfestingabanka. Jóhanna Vigdís er menntuð í bókmenntafræði frá Háskóla Íslands, með MSc-gráðu í menningarfræði frá Edinborgarháskóla og MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Í störfum sínum undanfarin ár hjá Háskólanum í Reykjavík hefur Jóhanna Vigdís lagt höfuðáherslu á uppbyggingu alþjóðlegs samstarfs og verkefni sem snúa að því að auka veg stúlkna og kvenna í tæknigreinum.
Páll Valur Björnsson er fyrrverandi alþingismaður og sat áður í bæjarstjórn Grindavíkur. Páll Valur er menntaður grunnskólakennari og starfar nú sem kennari við Fiskvinnsluskólann í Grindavík en hefur áður meðal annars sinnt kennslu í Grunnskóla Grindavíkur og Njarðvíkurskóla. Páll Valur lagði í þingstörfum sínum mikla áherslu á mannréttindi, velferðamál og ekki síst á málefni barna. Páli Vali voru á síðasta ári veitt Barnaréttindaverðlaun ungmennaráðs UNICEF á Íslandi, Barnaheilla og ráðgjafarhóps umboðsmanns barna fyrir óþreytandi baráttu sína fyrir hagsmuni barna, ekki síst þeirra sem höllum fæti standa í samfélaginu.