Engey og Kyrrþey
Lögbannsmálið verður enn undarlegra þegar lagst er yfir lögbannsbeiðni Glitni HoldCo sem undirrituð er af Ólafi Eiríkssyni hrl, lögmanni frá LOGOS. Kjarninn birti hana í gærkvöld. Beiðnin er svo yfirfljótandi af röklegum undarlegheitum að mann verkjar eftir lesturinn í ennisvöðva, eftir að hafa hnyklað brúnir, nær stöðugt í gegnum lesturinn.
Beiðnin er alls 10 blaðsíður.
Þar er í byrjun rakið hvernig Glitnir hafi einu sinni verið banki sem hafði með höndum fjármálastarfsemi en í kjölfar Hruns hafi slitastjórn tekið við rústunum sem síðan hafi tekið umbreytingum og nafnbreytingum og heiti nú Glitnir HoldCo. Sá sem gerir kröfu um aðgerðir að grunni laga um bankaleynd sé því eignarhaldsfélag stofnað 2015. Sé ekki banki – en hafi einu sinni verið það. Eða þannig.
Lagaspjallið hefjast síðan á einkennilegum kafla um umfjöllun fjölmiðla frá því í fyrra um hagsmuni dómara Hæstaréttar sem tengdust Glitni. Sum sé umfjöllun um Markús Sigurbjörnsson og fleiri í desember s.l. Þess er getið að umfjöllunin hafi byggst á upplýsingum sem ekki voru aðgengilegar almenningi. Ekki spekúlerar LOGOS í því hvaðan þær upplýsingar séu komnar og ekki á nokkurn hátt rökstutt hvað þetta mál frá því fyrra hafi með lögbannskröfuna að gera.
„Birting upplýsinga þeirra sem umfjöllunin byggði á var kærð af Fjármálaeftirlitinu til héraðssaksóknara, sem vinnur nú að rannsókn málsins“, segir svo í lögbannskröfunni og menn eru skyldir eftir með stórt spurningarmerki; Hvað kemur þetta málinu við? Ef þetta hefur einhverja tilvísun er það akkúrat sú að menn eigi EKKI að rjúka til í asnaskap með lögbannskröfu en vísa málinu til FME sem eftir atvikum kærir málið til saksóknara sem eftir atvikum gerir eitthvað í málinu (en að öllum líkindum ekki, miðað við fjölmörg önnur fordæmi). Lögbannsbeiðnin er sum sé í upphafi rökstudd með dæmi um aðgerðir þar sem lögbanni var ekki beitt, í máli sem er vandséð að hafi nokkuð með mál dagsins að gera.
„No shit, Sherlock“
Víkur sögunni svo í skyndi yfir til vorra daga með nokkuð greinargóðri samantekt yfir fréttir Stundarinnar og Reykjavik Media „Á tímabilinu 6.-13. október hafa verið birtar alls átta fréttir á vefnum stundin.is sem byggðar eru á trúnaðargögnum í eigu gerðarbeiðanda [Glitnis HoldCo]. Upp úr þessum fréttum hafa aðrir miðlar, svo sem Morgunblaðið/mbl.is, Fréttablaðið/vísir.is, DV/dv.is, Ríkissjónvarpið/ruv.is sem og erlendir fjölmiðlar, unnið fréttir“.
Þetta er sum sé góð ábending til þeirra sem hafa aðeins lesið þrjár fréttir úr lekanum að það séu a.m.k. fimm eftir ólesnar.
Að öðru leyti er vandséð hvaða erindi þessar upplýsingar úr fjölmiðlavöktun LOGOS eiga í lagarökstuðning fyrir lögbannskröfu.
Hefst svo sá kafli frá LOGOS-lögbannsþjónustu, þar sem velt er upp spurningunni: Hvaðan komu gögnin? Því er snöfurmannlega svarað: „Þá er ljóst að upplýsingarnar eru teknar frá gerðarbeiðanda [Glitnir HoldCo]“. Þessi niðurstaða er studd með niðurstöðum úr greiningar- og rannsóknardeild LOGOS; blaðamennirnir hafa sem sagt skilið eftir sig spor, „…ráða [má] þetta af þeim skjáskotum og skjölum úr kerfum gerðarbeiðanda [Glitnir Holdco] sem gerðarþolar [Stundin og Reykjavik Media] birtu með umfjöllun sinni, og þeim tölvupóstum milli starfsmanna gerðarbeiðanda sem birtir voru“.
Fleira er tínt til en allur sá tíningur verður voðalega einkennilegur í ljósi þess að bent var á í næstu málsgrein á undan þessum rannsóknarniðurstöðum að blaðamennirnir sjálfir hafa aldrei dregið neinn dul á að þetta væru gögn frá Glitni; hefðu raunar sagt það berum orðum. „Byggir umfjöllun þessi um fjármuni og viðskipti nafngreindra viðskiptamanna gerðarbeiðanda, samkvæmt gerðarþolum sjálfum, á gögnum sem stafa frá gerðarbeiðanda (hér eftir nefnd ,,gögnin“)“.
Í Ameríku segja þeir „No shit, Sherlock“.
Þeir viðurkenna svo að þeir viti ekkert hver sé heimildarmaðurinn. „Ekki er vitað hver stóð að því að koma umræddum gögnum í hendur gerðarþola…“. Ekkert er skýrt hvað það kemur málinu svo sem við. Það er heldur ekki gerð krafa um að blaðamennirnir gefi upp heimildarmann eða -menn sína. Vert er að gefa höfundi lögbannsbeiðninnar prik fyrir það og aldrei að vita nema dómurinn yfir Agnesi Bragadóttur, blaðamanni, frá árinu 1995 þar sem tekið var skýrt fram að blaðamaður verði ekki þvingaður til að gefa upp heimildarmann, hafi dúkkað upp í Seríóspakkanum sem aukavinningur með lögmannsréttindunum.
Cry Me a River
Hefst þá kafli sem LOGOS kallar „málsástæður og lagarök“. Tilgreind eru lög um bankaleynd, – þessi frægu sem segja að starfsmenn banka (sem Glitnir hafi einu sinni verið – eða þangað til hann hætti að vera það), megi ekki segja frá fjármálum viðskiptamanna. Í lögunum undarlegu segir líka að „..sá sem veiti viðtöku upplysingum af því tagi sem um geti í 1. mgr. sé bundinn þagnarskyldu með sama hætti og þar greini“.
Þessi málsgrein #2 á sem sé að eiga við um blaðamenn, skv. LOGOS. Vandinn er bara sá að hún gerir það ekki. Það er ekkert dómafordæmi fyrir því. Þvert á móti eru mýmörg lagarök og haugur af málsástæðum sem segja allt annað; ef blaðamaður fær bankagögn og það varðar almannahagsmuni að birta þau og um þau fjalla, má hann og á hann að birta þau. Þetta vita meira að segja fréttamenn Stöðvar 2, sem annars gleymdu alfarið að fjalla um lögbannsmálið í kvöldfréttum sínum í gærkvöld. Fréttir um fjármálavafstur forsætisráðherra og hans nánustu fjölskyldu varða almannahagsmuni.
Ólafur Eiríksson hrl hjá LOGOS þarf að sitja eftir, eins og Bart Simpson og skrifa þetta hundrað sinnum á töfluna: FRÉTTIR AF FJÁRMALAVAFSTRI FORSÆTISRÁÐHERRA VARÐA ALMANNAHAGSMUNI, FRÉTTIR AF FJÁRMÁLAVAFSTRI FORSÆTISRÁÐHERRA….
En eftir þennan misskilning tekur LOGOS fyrst flugið. Kynnt er til sögunnar partur úr stjórnarskrá Lýðveldisins og ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu sem fjalla um FRIÐHELGI EINKALÍFSINS. Í tómu tjóni bullar lögmannsstofan fína, sem tekur 20 þúsund kall á tímann, um að þó að fjölmiðlar hafi ákveðin réttindi, sé það svo að það verði að takmarka þau réttindi – væntanlega útaf friðhelgi einkalífsins. LOGOS hefur alveg gleymt að fara yfir öll þau 7 eða 8 dæmi frá Mannréttindadómstóli Evrópu (MDE) þar sem Ísland hefur tapað málum sem blaðamenn hafa sent þangað. Þar hefur dómum Hæstaréttar verið snúið í málum blaðamanna svo oft að dómarar þar hljóta að þjást af roða í kinnum. Þeim neðri. Í öllum dómum MDE er talað um skyldur fjölmiðla og þá ríku almannahagsmuni sem felast í umfjöllun um mál, þó svo að þau snerti mögulega eitthvert einkalíf.
Ólafur Eiríksson hrl verður að fara aftur upp á töflu og skrifa 100 sinnum: FRÉTTIR AF FJÁRMALAVAFSTRI FORSÆTISRÁÐHERRA VARÐA ALMANNAHAGSMUNI, FRÉTTIR AF FJÁRMÁLAVAFSTRI FORSÆTISRÁÐHERRA…
Eftir þvældan lögmisskilning á stjórnarskrá og Mannréttindasáttmála Evrópu kemur að rökunum sem ef til vill vega þyngst , svona útfrá bæjardyrum Glitnis HoldCo, sum sé þeim að Glitnir HoldCo fái ef til vill yfir sig skaðabótakröfur frá bálreiðum viðskiptavinum, vegna þess að þeir pössuðu ekki nægjanlega vel uppá gögnin og EF Stundin, Reykjavik Media og Guardian passa heldur ekki nægjanlega vel uppá gögnin (hér eftir nefnd „gögnin“). Þetta geti valdið Bjarna Benediktssyni þjáningum og truflað nauðsynlega einbeitni við kökuskreytingar: „Ljóst er að birting slíkra upplýsinga getur rýrt orðspor einstaklinga, valdið þeim verulegum óþægindum, vanlíðan og andlegum þjáningum. Verði talið að varðveisla gerðaþola [Stundin et al, altso] á upplysingunum hafi ekki verið fullnægjandi getur það leitt til þess að gerðarbeiðanda [Glitnir HoldCo, sumsé] verði gert að bæta það tjón sem viðskiptamenn hans verða fyrir vegna birtingu upplýsinganna. Áframhaldandi birting upplýsinganna getur því valdið verulegu tjóni fyrir gerðarbeiðanda“.
Cry Me a River.
Til að það fari nú örugglega ekkert framhjá Sýslumanni, sem þarf að lesa í gegnum þetta torf að Glitnir HoldCo hafi miklar áhyggjur af því að fá á sig skaðabótakröfur ef lekinn komist nú í dreifingum er skaðabótakröfuóttinn ítrekaður í þrígang í næstu þremur málsgreinum, með aðeins mismunandi orðalagi. Ekki miklu.
Á eftir fylgir svo samantekt LOGOS á þeim hópi sem Glitnir HoldCo hefur greinilega mestar áhyggjur af að höfði mál gegn sér. Hverjir skyldu það nú vera?
„Í því sambandi verður að horfa til þess að í nýjustu frétt gerðarþola er að finna upplýsingar um lánveitingar til svokallaða ,,Engeyinga“ og viðskiptafélaga þeirra.(…) Þá er erfitt að mæla það tjón á ímynd og orðspori gerðarbeiðanda [Glitnir HoldCo] sem af háttsemi gerðarþola [blaðamannana] hlýst“.
Það jaðrar við að tárin hafi brennst inn í þennan texta og ekkinn bergmáli af blaðsíðunni.
Þetta snérist þá allt um Engeyinga.
Þessari makalusu lögbannsbeiðni líkur svo með kröfugerð og kjaftæði; 1) fjölmiðlarnir hætti að birta, 2) fjarlægi allt af vefnum og 3) afhendi öll gögn. Ráðvilltur fulltrúi sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu í Kópavogi lætur nú að minnsta kosti ekki þvæla sér í að verða við 2) og 3) en hefur týnt sér svo í þvælulestri þessara 10 blaðsíðna að hann hefur talið að það bara hljóti að vera þarna eitthvað til að réttlæta að þeir fái a.m.k. 1). Þetta er jú LOGOS. Þetta er jú Ísland. Við erum að tala um Bjarna fokking Ben. Já, og Engey, sem er, eins og allir vita, næsta eyja við Kyrrþey.
Þórólfur Halldórsson, sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu í Kópavogi, hefur misstigið sig svo hrapalega að það er meira en ámælisvert. Þegar hann kvittar undir þvælu eins og birtist í þessari makalausu lögbannsbeiðni verður það ekki metið öðruvísi en vítavert.