Sannleikur kirkjunnar gegn sannleiksleit fjölmiðla
Í Morgunblaðinu í dag, síðasta mánudag fyrir kosningar, er haft eftir biskupi Þjóðkirkjunnar, Agnesi M. Sigurðardóttur: „Ein leið til að komast að rót vandans er að greina hann, draga sannleikann fram í hverju máli og núllstilla hlutina.“ Síðan virðist Agnes draga í land um hinn afdráttarlausa forgang sannleikans og núllstillingarinnar, eða bætir í öllu falli eftirfarandi við, samkvæmt blaðamanni:
Ég er ekki sammála því að allt sé leyfilegt í sannleiksleitinni. Mér finnst til dæmis ekki siðferðilega rétt að stela gögnum og fara á bak við fólk til að afhjúpa mál og leiða sannleikann í ljós.
Þessi síðari ummæli hafa reynst umdeild nú á mánudagsmorgni. Ekki er ljóst hvort biskup lagði að fyrra bragði þessa áherslu á kurteisi í meðferð sannleikans, eða hvort hún bregst þar við hugsanlegum efasemdum blaðamanns Morgunblaðsins, sem skrifar ekki upp spurningar sínar í viðtalinu.
Knappt viðtal kemur víða við
Beint í kjölfarið víkur Agnes aftur máli að mikilvægi sannleikans – og loks því sem hún segir hlutverk kirkjunnar í siðferði stjórnmála:
Við þurfum að byrja upp á nýtt með sannleikann að leiðarljósi og þá eru trúmennska, virðing og kærleikur ekki langt undan í þeirri vegferð. Umræðan um nýja stjórnarskrá er hluti af þrá fólks eftir traustari grunni til að standa á, líka í siðferðislegum efnum. Og til þess að aftur skapist nauðsynlegt traust í samfélaginu hefur kirkjan hlutverki að gegna.
Í hinu knappa viðtali ræðir biskup fleira sem varðar brýnustu málefni líðandi stundar: „Ég er mjög hugsi yfir því hvers vegna við getum ekki veitt fólki í neyð vernd eða tekið almennilega á áfengis- og fíkniefnavandanum,“ segir hún meðal annars. „Flestar fréttir snúast um afleiðingar þess.“ En það eru ummælin um að ekki sé allt „leyfilegt í sannleiksleitinni“ og „ekki siðferðilega rétt að stela gögnum,“ sem reynast nú þegar umdeild, enda virðast þau gefa til kynna afstöðu biskups gegn uppljóstrunum fjölmiðla í málum sem valdhafar vilja heldur að njóti leyndar.
Prestarnir og sannleikurinn
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem fulltrúar þjóðkirkjunnar tjá efasemdir um mikilvægi sannleiksleitar fjölmiðla. Guðni Þór Ólafsson, sóknarprestur í Melstaðarprestakalli, flutti prédikun við þingsetningu eftir kosningarnar 2013, og hafði við það tilefni eftir siðfræðingi að „það að vera ærlegur“ væri „ekki alltaf það sama og að segja satt“. Þannig hafi verið ærlegra af stjórnmálamönnum að lofa upp í ermina á sér, þegar Lehmann Brothers bankinn riðaði til falls, og segja bankainnistæður almennings tryggar, „þótt þeir vissu að kannski væri ekki hægt að standa við það. En það var sagt til að koma í veg fyrir örvæntingu og gífurlegar hörmungar.“ Ennfremur sagði presturinn:
Stundum getur það að segja sannleikann verið eins og að kasta grjóti. Það getur verið ærlegra að láta sannleikann í liggja þagnargildi þegar hann er ekki í almannaþágu og gerir meira ógagn en gagn.
Tveimur árum fyrr, í október 2011, flutti þáverandi biskup, Karl Sigurbjörnsson, prédikun í Hallgrímskirkju, þar sem hann lagði út af orðunum „sannleikurinn mun gera yður frjálsa“ í Jóhannesarguðspjalli. Þar má heita jafn ljóst að hugtak kirkjunnar um sannleikann sé annað en hugtak fjölmiðla, en Karl sagði:
Bankahrunið og meðfylgjandi þrengingar heimila og fjölskyldna, vonleysið og neikvæðnin hafa lagst þungt á þjóðarsálina. Leitin að sökudólgum og blórabögglum tekur á og reiðin spýtir galli sínu um þjóðarlíkamann. En hún mun engu skila! Þar er ekki sannleikann að finna, lausnirnar, framtíðina. Það mun ekki heldur fást í vísitölum og greiningum. Engar hagtölur hugga í sorg. Hvað þá hatrið og hefndin. Heldur hin andlegu verðmæti, andlegu viðmið, sem beina sjónum sálar og anda til birtunnar. Sannleikurinn. Og sem helst og fremst verður tjáður og þekktur með ljóði og list, söng og bæn, elsku til Guðs og náungans.
Þar sem ummæli Agnesar biskups eru knöpp og birtast án ítarlegrar ritskýringar er ekki ljóst hvort hún hefur sama viðmið í huga og Guðni prestur fyrir fjórum árum eða Karl biskup fyrir sex.
Ör viðbrögð við afstöðu Agnesar
Reynir Traustason, fyrrverandi ritstjóri og nú stjórnarformaður Stundarinnar, lýsti því yfir, strax fyrir hádegi á mánudag, að hann hygðist segja sig úr Þjóðkirkjunni vegna afstöðu biskups. Kristinn Hrafnsson, blaðamaður, skrifaði á Facebook:
Þarna afgreiddi Þjóðkirkjan alla uppljóstrara á einu bretti, þ.m.t. Daniel Ellsberg, Chelsea Manning og Edward Snowden. Hafi einhver efast um takmarkaða siðvitund þessa biskups, ætti sá efi nú að vera úr sögunni.
– Og Helgi Seljan bendir á að umfjöllunin sem varð til að stöðva kynferðisbrot Karls Vignis Þorsteinssonar hafi að hluta byggt „á gögnum sem biskup Íslands kallar „stolin““.
Ítök Þjóðkirkjunnar í íslensku samfélagi hafa dregist verulega saman frá aldamótum. Árið 2005 voru rúmlega 85% íbúa Íslands skráðir meðlimir í trúfélaginu, en tíu árum síðar hafði hlutfallið lækkað um 11 prósentustig, niður í tæplega 74% íbúa.