Heimastjórn Katalóníu mætir til yfirheyrslu í Madrid
Fólk sem gegndi embættum ráðherra í svæðisstjórn Katalóníu þar til um síðustu helgi þegar ríkisstjórn Spánar setti þá af og tók yfir stjórn í umdæminu, mætti til yfirheyrslu fyrir hæstarétti í Madrid fyrir hádegi í dag, fimmtudag – að frátöldum forsetanum, eða fyrrverandi forsetanum, Carles Puigdemont sem er eins og fyrr greinir staddur í Belgíu. Ef til vill verða fleiri fjarverandi, en varaforseti Puigdemonts, Oriol Junqueras, mætti á settum tíma, ásamt þingforsetanum, Carme Forcadell.
Ríkissaksóknari Spánar vill ákæra fjórtán stjórnarmeðlimi Katalóníu fyrir uppreisn, vegna atburðanna í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem haldin var um sjálfstæði Katalóníu 1. október, og sem var leyst upp samdægurs af spænskum lögreglusveitum. Óljóst er hversu margir þessara fjórtán eru komnir til Madrid.
„Ég skil ekki hvernig Evrópa getur litið undan“
Lögfræðingur Puigdemont, Paul Bekaert, segist hafa stungið upp á því að hann verði yfirheyrður í Belgíu, en Puigdemont segist aðeins snúa aftur til Spánar þegar tryggt hafi verið að dómstólaferlið sem hann og aðrir stjórnarmeðlimir eiga yfir höfði sér verði réttmætt og sanngjarnt.
Um hundrað stjórnmálamenn og embættismenn frá Katalóníu ferðuðust með ráðherrunum til Madrid til að sýna þeim samstöðu. Assumpcio Lailla, fyrrverandi stjórnmálamaður, sem ferðaðist með hópnum, sagði við AP fréttastofuna: „Þetta eru óréttlátar aðstæður, þar sem þau eru tekin til rannsóknar fyrir að gera lýðræðinu gagn. Ég skil ekki hvernig Evrópa getur litið undan frammi fyrir lýðræðinu.“
Fyrrverandi eða ennverandi
Þar sem hvort tveggja gerðist síðastliðinn föstudag, að yfirvöld Katalóníu lýstu yfir stofnun sjálfstæðs lýðveldis, og spænsk stjórnvöld tóku yfir völd í umdæminu og lögðu heimastjórn þess niður, er hlutlaust orðalag varla til í umfjöllun um átökin: þeir sem lýsa yfir tryggð við nýja lýðveldið munu tala um Puigdemont sem forseta, en þeir sem lýsa yfir tryggð við Spán munu kalla hann fyrrverandi forseta og þaðan af verra.