Þorvaldur Gylfason og Jón Baldvin meðal 100 sem krefja ESB um að verja Katalóníu
Á þriðjudag sendu yfir eitt hundrað fræðimenn sameiginlega yfirlýsingu til æðstu ráðamanna ESB, og kröfu um að sambandið verndi grundvallarréttindi íbúa Katalóníu. Þeir segja spænsk yfirvöld hafa fótum troðið mannréttindi Katalóna, sem geti ekki talist innanríkismál stjórnvalda: Fyrst hafi spænsk stjórnvöld forsmáð réttinn til að koma saman og til frjálsrar tjáningar, með því að banna fyrirhugaða þjóðaratkvæðagreiðslu innan umdæmisins; síðan með lokunum vefsvæða og handtökum vefumsjónarfólks til að takmarka aðgang íbúa, fyrirtækja, fjölmiðla, ráðamanna og embættismanna að interneti og öðrum fjarskiptaleiðum í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar; þá með grófu ofbeldi gegn friðsamlegum kjósendum og mótmælendum á kosningadaginn sjálfan; loks með handtöku tveggja þekktra aðgerðasinna þann 16. október.
Yfirlýsingin er skrifuð, undirrituð og send áður en Spánn fangelsaði katalónska ráðamenn nú á fimmtudag. Meðal þeirra sem undirrita yfirlýsinguna eru Etienne Balibar, Antonio Negri, Judith Butler, Nancy Fraser og Robert Menasse. Þá er þar að finna Yanis Varoufakis, fyrrverandi fjármálaráðherra Grikklands, Jón Baldvin Hannibalsson og Þorvald Gylfason. Fréttamiðillinn Politico birti orðsendinguna.
Evrópusambandið hefur enn sem komið er þá opinberu afstöðu að átökin um sjálfstæði Katalóníu sé innanríkismál Spánar sem sambandið muni ekki skipta sér af. Einstakir ráðamenn innan sambandsins hafa þar að auki lýst yfir stuðningi við afstöðu og aðgerðir ríkisstjórnar Marianos Rajoy, forsætisráðherra Spánar, í málinu.