„Þeir sem auðguðust í nýfrjálshyggjunni munu verja auð sinn með fasisma – Náið Ingu Sæland yfir“
„Vinstrið þarf að horfast í augu við að þau unnu ekki kosningar á móti óvinsælustu ríkisstjórn sögunnar. Það hefur engin ríkisstjórn mælst með jafn lítinn stuðning. Við enda kjörtímabilsins, en ekki heldur í upphafi þess. Það hefur engin ríkisstjórn byrjað með jafn lítinn stuðning og þessi. Hún var algjörlega afleit, í engum takti við almenning, það hafði enginn áhuga á þessu fólki það hafði enginn áhuga á stefnunni, það hafði enginn væntingar um að hún myndi nokkurn hlut gera til þess að bæta samfélagið. Þetta var ömurleg ríkisstjórn. Samt nær vinstrið bara rétt að halda sínum hlut.“
Þetta segir Gunnar Smári Egilsson, formaður Sósíalistaflokks Íslands, í viðtali við Harmageddon á útvarpsstöðinni X-inu í dag. Til umfjöllunar voru möguleikar í stjórnarmyndun nú eftir kosningar, og mögulegt stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks við Vinstri-græn og/eða Samfylkinguna.
„Náið Ingu Sæland yfir til ykkar“
„Vinstrið er í þessari stöðu, að það hefur í raun enga aðkomu að völdum í samfélaginu, nema með því að beygja sig algjörlega undir vald Sjálfstæðisflokksins og verða átjánda gólftuskan í röð fyrir þennan flokk,“ sagði Gunnar Smári að auki.
„Þeir sem að auðguðust í nýfrjálshyggjunni munu verja auð sinn með fasisma. Þeir munu ekki verja auð sinni með einhverri sósíal-demókratískri sambræðslu. Ef að Sjálfstæðisflokkurinn þyrfti að horfast í augu við það að þeir gætu ekki myndað ríkisstjórn með vinstriflokkunum nema með því að gefa eftir þeim, þá væru þeir ekki einu sinni að hugsa það. Þeir eru bara að hugsa um það því þeir telja sig geta látið vinstriflokkana fallast algjörlega á óbreytta stefnu. Sá hópur á Íslandi sem hefur mestan hag af óbreyttri stefnu er ríkasta eitt prósentið, vegna þess að þá halda þeir kvótanum, skattfríðindunum, völdum sínum í samfélaginu. Óbreytt kerfi er frábært fyrir þá. Óbreytt kerfi er andstyggilegt fyrir svona 35% af fólki sem er á lægstu laununum, lífeyrisþega, ellilífeyrisþega, öryrkja. Þetta er fólk sem er að berjast harðri lífsbaráttu til að eiga í sig og á. Gallinn við vinstrið er að þau ávarpa ekki þennan hóp. Þau ávarpa millistéttarfólkið.“
„Inga Sæland ávarpaði þennan hóp, þessi 35 prósent,“ nefnir umsjónarmaður þáttarins.
„Já, ef við værum að hugsa hvað ætti vinstrið að gera,“ svaraði Gunnar Smári, „þá væri númer eitt: Náið Ingu Sæland yfir til ykkar. Því Inga Sæland hinu megin, ef Inga Sæland driftar áfram yfir til fasistanna, þá ertu að kljúfa 35 prósentin, verkalýðinn, varanlega.“
Ljósmyndir: 1. Sigtryggur Ari. 2. Flokkur fólksins.