Ný stjórnstöð NATO verji hafsvæðin kringum Ísland fyrir Rússum
Fyrirhuguð stjórnstöð NATO á Norður-Atlantshafi, sem varnarmálaráðherrar aðildarríkja bandalagsins tilkynntu um á miðvikudag, felur í sér viðbragð við vaxandi ógn af sjóher Rússa, segir Stratfor, greiningar- og ráðgjafarþjónusta á sviði alþjóðamála. Í grein á vef Stratfor eru áformin sett í samhengi við samningaviðræður Bandaríkjanna við Ísland á síðasta ári, um að koma bandarískum flugvélaflota fyrir í Keflavík á nýjan leik, til eftirlits með kafbátaumferð.
Hafsvæðin á milli Grænlands, Íslands og Bretlands veikur blettur
„Við viljum koma NATO aftur að í Evrópu og einbeita okkur meira að hlutverki NATO á hafi“ sagði Frank Bakke-Jensen varnarmálaráðherra Noregs, samkvæmt frásögn Reuters af málinu.
Fréttastofan hefur það eftir diplómötum í kringum viðræðurnar að hafsvæðin á milli Grænlands, Íslands og Bretlands séu veikur blettur í vörnum NATO, kæmi til átaka, og þurfi á betri vöktun að halda á friðartímum.
Hin nýja stjórnstöð á Atlatnshafi myndi þannig vakta mjög vítt svæði. Eitt helsta hlutverk hennar væri að halda leiðum opnum fyrir bandarískan herafla til Evrópu. Hún yrði mönnuð sérfræðingum í nethernaði ásamt hefðbundnum hernaði.
Á sama tíma tilkynnti bandalagið áform um að bæta flutningsgetu heraflans á landi, og greiða leið herja bandalagsins um aðildarríki þess, en tollvarsla við landamæri og annað regluverk þvælist að sögn fyrir skjótri beitingu heraflans að óbreyttu.
Netið fjórði vettvangur átaka; samdrætti snúið við
Á síðasta ári skilgreindi bandalagið Netið, eða sýndarrými (cyber), sem nýjan vettvang átaka, við hlið hefðbundins landhernaðar, sjóhernaðar og lofthernaðar. Samkvæmt samkomulaginu sem tilkynnt var um á miðvikudag mun NATO nú ekki aðeins byggja upp varnarviðbúnað í netrýmum heldur búa sig undir að vera fært um árásir á netþjóna og vefsíður. Tæknilegar útfærslur hafa ekki komið fram.
Á hápunkti kalda stríðsins störfuðu 22.000 manns við 33 stjórnstöðvar bandalagsins. Starfsemin hefur á síðustu áratugum verið skorin niður í undir 7.000 manns á undir sjö stjórnstöðvum. Fyrirhuguð fjölgun stjórnstöðva er í fyrsta sinn sem bandalagið færir út kvíarnar frá því um 1990.
Fundur varnarmálaráðherra NATO-ríkjanna heldur áfram í höfuðstöðvum bandalagsins í dag, fimmtudag. Enn hefur Utanríkisráðuneytið ekki veitt viðbragð við tíðindunum.