Bitcoin námugröftur á Íslandi: Orkufrek framleiðsla án afurðar og (nánast) án starfa
Fréttaskýringaþátturinn Quest Means Business á CNN fjallaði stuttlega um bitcoin námur á Íslandi fyrr í haust: gagnaver sem reist hafa verið á Reykjanesi og fást aðeins við að „grafa“ eftir rafmyntinni, sem undanfarið hefur gengið gegnum sitt þriðja verulega vaxtarskeið. Í innslaginu segir fréttamaðurinn, Richard Quest, að ein meginástæða sé fyrir því að hinn rafræni námugröftur fari fram á Íslandi: „plentiful, cheap electricity“ eða ofgnótt af ódýru rafmagni.
Bitcoin: verðmætara en General Electric, orkufrekara en Írland
Ekki er vanþörf á: samkvæmt frétt frá The Guardian nú á mánudag er rafnámuvinnslan að baki Bitcoin-myntinni orðin orkufrekari en allt Írland – orkufrekari, raunar, en nítján Evrópulönd.
Yfir heiminn litið dregur Bitcoin-námuvinnsla um þessar mundir til sín ríflega 30 Terawattstundir (TWst) á ári. Til að finna annan nærtækari samanburð í íslensku samhengi keyptu „stórnotendur“ – það er álverin og annar iðnaður – 13,7 TWst af raforku frá Landsvirkjun árið 2016. Önnur sala fyrirtækisins, heildsala rafmagns, nam um fjórðungi af því magni, og seld raforka á árinu því alls um 17 TWst, samkvæmt ársskýrslu. Á heiminn litið krefst námugröftur Bitcoin því um þessar mundir nær tvöfalt meiri raforku en Landsvirkjun framleiðir.
Fréttir hafa nýverið borist af örum vexti rafmyntarinnar, en gengi hennar hefur risið svo hátt og hratt að umræða um að þar sé bólumyndun á ferð, jafnvel hreint pýramídasvindl, hefur orðið nokkuð hávær. Fyrr í haust hélt Jamie Dimon, forstjóri fjárfestingarbankans JP Morgan, því fram að rafmyntin kæmi aðeins að notum fyrir fíkniefnasala, morðingja og íbúa landa á við Norður-Kóreu, gengið muni hrapa á hverri stundu.
Nú í vikunni er verðmæti myntarinnar í fyrsta sinn komið nálægt 10.000 Bandaríkjadölum. Þar sem rúmar 16 milljón bitcoin myntir eru í umferð nemur verðmæti kerfisins nú því um 160 milljörðum dala. Þar með er það, í það minnsta um stundarsakir, nýorðið verðmætara en bandaríski raftækjarisinn General Electric. Á meðan gengið ekki fellur er því eftir umtalsverðum verðmætum að slægjast með námugreftrinum.
Námugröftur í merkingunni peningaprentun
Rafmyntinni var hleypt af stokkunum haustið 2008, og byggði á ritgerð eftir höfund sem nefndi sig Satoshi Nakamoto. Enn er ekki vitað hver hann er. Það er forvitnilegt að setja saman fréttatexta um svo nýsprottið fyrirbæri að nær enginn orðaforði er til um það á íslensku. Kannski er þó hjálplegt frekar en ekki að nær allt orðfærið á sviðinu er líkingamál með þekktar skírskotanir.
Tölvur stunda vitaskuld ekki námugröft í eiginlegum skilningi. Rafmyntir á við Bitcoin eru hins vegar hannaðar og starfræktar með þá hliðstæðu í huga: Til að uppfylla það skilyrði gjaldmiðils að hann sé aðeins til í takmörkuðu magni, er búin til nokkurs konar gáta eða stærðfræðiþraut. Hver fundin lausn veitir þeim sem fann hana inneign skráða í rafmyntinni.
Námugröfturinn felst þannig í þrautalausn, af þeim toga að enginn mannlegur máttur heldur aðeins kraftmikil tölva ræður við hana. Þrautin er að auki þeim eiginleikum gædd að í hvert sinn sem hún er leyst sprettur fram önnur enn erfiðari, svo stöðugt þarf aflmeiri vélbúnað til að glíma við gáturnar.
Í grófum dráttum mætti líka einfaldlega segja að þessar vélar prenti peninga.
Genesis og Bitfury – stærstu námufyrirtækin á Íslandi
Árið 2014 hóf fyrirtækið Genesis Mining, sem er í eigu evrópskra áhættufjárfesta, Bitcoin-námuvinnslu í gagnaverum á Reykjanesi. Námuvinnslan fór fyrst fram í gagnaveri Borealis Data Center, en fluttist síðan í gagnaver Advania á Fitjum. Genesis Mining er ekki eina fyrirtækið sem grefur eftir rafmyntum á Íslandi – en það er sennilega umsvifamesti aðilinn á sviðinu.
Fyrirtækið auglýsir sjálft að það sé stærsta „skýjanámuvinnsla“ heims, eða „the largest cloud mining company“. (Eins og námuvinnsla væri ekki þegar nógu ljóðrænt orðalag um það sem fram fer í byggingum þar sem ekkert hreyfist nema harðir diskar og viftur, vísar skýið hér til „cloud computing“ – tölvuvinnslu sem er dreifð milli ólíkra staða í heiminum.) Samkvæmt vefsíðu Genesis Mining fer öll námuvinnsla þess fram í gagnaverum á Íslandi.
Um svipað leyti hóf fyrirtækið BitFury einnig námuvinnslu í gagnaverum Advania. Á meðan Genesis Mining er milliliður um námuvinnslu og selur þjónustu sína til annarra, er BitFury einkanáma, sú þriðja stærsta í heimi samkvæmt umfjöllun Business Insider frá árinu 2015 – og var enn talinn þriðji stærsti aðilinn á BitCoin-markaðnum síðastliðið vor, samkvæmt Coindesk.
Samkvæmt umfjöllun CNBC velti fyrirtækið yfir 90 milljón Bandaríkjadölum skattárið 2017, eða jafnvirði um 10 milljarða króna. Fyrirtækið kveðst frá upphafi hafa grafið upp um 500.000 Bitcoin. Á núverandi hágengi myntarinnar jafngildir það tæpum 5 milljörðum dala, eða 500 milljörðum króna.
BitVest, Borealis – myntbýli og námulaugar
Í viðtali sem birtist í október útskýrði forstjóri BitFury annan kost við rafnámuvinnslu á Íslandi, umfram raforkuverið eitt og sér: „Í mörgum gagnaverum heims fara 30 til 40 prósent kostnaðar í kælibúnað. Það er ekki vandamál í gagnaverum okkar á Íslandi.“
Fleiri eru um hituna. Í New York Times mátti árið 2013 lesa um áhættufjárfesta sem nýta gagnaver Verne Global, líka á Reykjanesi, til námuvinnslunnar. Í maí 2015 fréttist að BitVest Digital Mining Corp hafi einnig gert samning um afnot af gagnaverum Verne. Sama ár má lesa um litla námu á Reykjanesi, eða myntbýli, að nafni Borealis, sem sagt er sérstaklega sætt. Eitt sér drekkur smábýlið, ef það starfar allt árið um kring eins og ætlunin er, 10 GWst af rafmagni á ári. Árið 2015 neytti gagnaver Advania, Mjölnir, þar sem starfsemi BitFury fer fram, ríflega tífalt meira rafmagns eða 114 GWst á ári, eins og fram kemur í umfjöllun Jóns Bjarka Magnússonar í Stundinni það haust.
Margir smærri aðilar sem fjárfesta í vélbúnaði til námugraftar kjósa að ganga í slagtog hver við annan og deila sameiginlegum afrakstri sín á milli. Slíkur klasi kallast mining pool, eða, í beinni þýðingu, „námulaug“. Þar sem námugröfturinn hvílir á líkindafræði fer áhættan minnkandi með stærri rekstrareiningum. Alls eru nú það margir aðilar sem grafa eftir rafmyntum í íslenskum gagnaverum, að íslenska námulaugin telst næststærst í heimi, í það minnsta samkvæmt einu fagriti.
Aðeins í Kína er laugin stærri. En það virðist líka skvettast á milli lauga: Bitmain, sem sagt er stærsta Bitcoin námufyrirtæki heims, hefur nú einnig opnað útibú til námuvinnslu á Reykjanesi.
Fossum breytt í rafmynt – framleiðsla án afurðar og án starfa
Vegna legu landsins henta íslensk gagnaver ekki hvaða rekstri sem er. Fyrir netþjóna skiptir hraði miklu máli, en hraði netsamskipta er mældur í millisekúndum og þaðan af smærri einingum. Fjarlægð Íslands frá meginlöndum eykur tafir í gagnastreymi og hefur landið því, þrátt fyrir lágt raforkuverð og veðráttu sem dugir mörgum kerfum til kælingar, ekki verið fyrsti kostur stórfyrirtækja við uppsetningu netþjóna.
Bitcoin námugröftur gerir hins vegar minni kröfu til hraðra boðskipta, heldur snýst ávinningur af rekstrinum fyrst og fremst um vinnslugetu og orkunýtingu. Tölur liggja ekki fyrir um heildarorkuneyslu rafnámanna í dag, en samkvæmt ársskýrslu Landsvirkjunar árið 2016 hefur vöxturinn verið hraður, úr rúmum 4 GWst árið 2013 í 350 GWst árið 2016. Árið 2016 seldi Landsvirkjun með öðrum orðum um 2% raforku sinnar til gagnavera. Má ætla að námuvinnsla sé stór, ef ekki stærsti, hluti þeirrar starfsemi.
Þessi námurekstur er forvitnileg þróun í nýtingu á íslenskri raforku. Hafi það lengi vel verið opinber stefna að breyta fossum landsins áður í flugvélar, flugskeyti, fartölvur og pepsi-dósir, er þeim nú í vaxandi mæli breytt í rafmynt, einkum Bitcoin. Ætla má að í það heila mengi sá iðnaður minna (þó að rétt sé að fullyrða varlega um það, enda krefst tölvubúnaður raunverulegrar námuvinnslu víða um heim og er meðal annars frekur á þungmálma). Aftur á móti skapast afar fá störf kringum rafnámuvinnsluna, sem sér að miklu leyti um sig sjálf eftir uppsetningu búnaðarins. Í fyrrnefndri umfjöllun Stundarinnar haustið 2015 er haft eftir framkvæmdastjóra Advania að fyrirtækið hafi ekki „neina starfsmenn sem þeir geta „100%“ eyrnamerkt“ gagnaverinu“. Inntur eftir fjölda ársverka við reksturinn svaraði hann: „Það er smá erfitt að meta. En amk 5 ársverk auk verktaka.“
Þá má „telja líklegt að skattayfirvöld muni eiga erfitt með að finna hagnaðinn“, eins og það var orðað í sömu umfjöllun.
Frekari heimildir
Innslag Quest Means Business á CNN:
The Guardian um orkuneyslu myntveranna
Frétt Vísis 1. nóv um 2,2 milljarða fjárfestingu í bitcoin-námu á Íslandi
Fyrri umfjöllun Kvennablaðsins um rafmyntir