Epalhommi! Orð ársins 2017?
Baldur Þórhallsson skrifaði á Facebook og gaf leyfi fyrir birtingu hér:
Epalhommi! Orð ársins 2017? Stutt hugleiðing til gamans og í alvöru um val á orði ársins: Orðið Epalhommi var fyrst notað sem fúkyrði um homma af einu helsta nettrölli landsmanna. Níðið bitnaði líka á Epal sem reyni að snúa neikvæðri umfjöllun yfir í jákvæða með því að birta mynd af sex þekktum hommum í verslun sinni. Mörgum fannst fyrirtækinu hafa vel tekist til og RÚV fullyrðir að merkinu orðsins hafi verið snúið við. Epalhommi er sagt merkja „samkynhneigður karlmaður sem hefur áhuga á vandaðri hönnun“ samkvæmt íslenskri nútímaorðabók á gáttinni malið.is. Allt málið hafði líka visst skemmtigildi á sínum tíma.
Hins vegar verður ekki fram hjá því litið að orðið EPALHOMMI ýtir undir staðalímyndir um homma. HOMMAR eru auðvitað bara þeir sem hafa áhuga á VANDAÐRI hönnun. Þeir eru jaðarsettir og engin ástæða er til að taka mark á þeim! Gagnkynhneigðir karlar hafa EKKI áhuga á VANDAÐRI hönnum. Þeir eru aðal og tala skýrt og skorinort! Það eru helstu og virtustu stofnanir landsins (RÚV, Stofnun Árna Magnússonar og Mímir, félag stúdenta í íslensku og almennum málvísindum við HÍ) sem standa að valinu á orði ársins og ýta með þessu undir staðalímyndir um homma. Þær verðlauna fúkyrðið með því að tilkynna valið þegar menningarviðurkenningar RÚV voru veittar við hátíðlega athöfn í Útvarpshúsinu.
Ég er viss um valið er gert í góðri trú og að þessar stofnanir hafi talið sig vera að gera gott með því að velja þetta orð sem eitt af þeim tíu orðum sem almenningur mátti velja úr og kjósa um í netkosningu á RUV.is. Og auðvitað gera þessar stofnanir ekki annað en að endurspegla staðalímynd nettröllsins, kjósendahópsins og Epals um homma. – Við þetta má síðan bæta til gamans og í alvöru að það hljóta að vera gagnkynhneigðir karlar sem eru með HRÚTSKÝRINGAR en það orð var valið orð ársins árið 2016 – enda eru samkynhneigðir karlar bara að hugsa um VANDAÐA HÖNNUN. – Og hver ætli að viðbrögðin hefðu verið ef svona orð um gagnkynheigðar konur eða lesbíur hefðu orðið fyrir valinu hjá þessum ágætu stofnunum? – Hefðu til dæmis orðið trukkalessa eða ljóska geta orðið orð ársins 2017? – En auðvitað hefur maður líka bara gaman af þessu öllu saman … en þessar hugleiðingar skutu eigi að síður upp kollinum og ég ætla bara að láta þær flakka.
Sjá til fróðleiks: http://ruv.is/frett/epalhommi-er-ord-arsins-2017