Xinjiang, Kína: Yfirvöld girða íbúa af með andlitsgreiningu
Yfirvöld í Kína gera nú tilraunir með eftirlitskerfi sem lætur vita þegar fólk fer 300 metra eða lengra frá vinnustað sínum eða heimili. Kerfið styðst við nettengdar eftirlitsmyndavélar og sjálfvirka andlitsgreiningu. Bloomberg greinir frá.

Xinjiang, Kína.
Tilraunasvæðið Xinjiang
Tilraunir með eftirlitskerfið hafa í um eitt ár farið fram í Xinjiang, sjálfstjórnarsvæði í Norð-vesturhluta landsins, sem á landamæri að fjölda annarra ríkja, meðal annars Rússlandi, Afghanistan, Pakistan og Indlandi. Um helmingur íbúa svæðisins, eða um tíu milljónir, tilheyra islamska þjóðarbrotinu Uighur, sem annars er minnihlutahópur í Kína.
Þróun kerfisins er í höndum China Electronics Technology Group, fyrirtækis í ríkiseigu. Sama fyrirtæki er sagt vinna að viðamiklum gagnagrunni um störf, áhugamál, neysluvenjur og aðra hætti óbreyttra borgara, til að spá fyrir um hryðjuverkaárásir áður en þær eiga sér stað.
Kerfið er aðeins einn liður enn í umfangsmiklum eftirlitsbúnaði yfirvalda á svæðinu. Á síðasta ári söfnuðu yfirvöld í Xinjiang DNA-sýnum frá milljónum íbúa, í samræmi við tilskipun sem gefin var út um söfnun og skráningu þrívíðra andlitsmynda, raddsýna, erfðaefnis og fingrafara íbúa svæðisins. Andlitsskönnun er meðal annars beitt við innganga verslana, við bensínstöðvar og aðalbiðstöð strætisvagnakerfisins. Þá gera ákveðin lögregluumdæmi á svæðinu kröfu um að allir bílar séu útbúnir búnaði til gervihnattaeftirlits með ferðum þeirra.
Kína ver meiri fjármunum til eftirlits en hernaðar
Í umfjöllun Bloomberg er tekið fram að önnur lönd vinni vissulega að þróun eftirlitskerfa á grunni andlitsgreiningar. Í Bandaríkjunum smíði FBI til dæmis, um þessar mundir, gagnagrunn með ljósmyndum af bandarískum ríkisborgurum. Með eftirlitsátaki sem var ýtt úr vör fyrir tveimur árum undir yfirskriftinni Xue Liang, séu kínversk stjórnvöld aftur á móti leiðandi í þróun slíkra kerfa á heimsvísu.
Umfang heimsviðskipta með eftirlitsmyndavélar og tengdan búnað nemi nú um 17 milljörðum dala á ári (um 1.800 milljörðum króna), en tæpur helmingur þeirra viðskipta fari fram í Kína. Árið 2015 hafi kínversk stjórnvöld eyrnamerkt 146 milljarða dala (rúmar 15 billjónir króna) eftirliti innanlands, sem sé meira en nemur þó verulegum útgjöldum landsins til hernaðarmála.
Eftirlit á hinum nýja Silkivegi
Í umfjöllun The Guardian um þróun eftirlitskerfa í Kína er sagt sennilegt að þeim verði beitt víðar, eftir því sem landinu vex ásmegin á alþjóðavettvangi. Er meðal annars leitt líkum að því að kínversk yfirvöld muni vilja beita hliðstæðum kerfum til eftirlits með OBOR, hinu alþjóðlega viðskipta- og flutningsleiðaneti sem landið hefur nú í bígerð:
Beijing veit að hluti innviða hinnar aðsópsmiklu OBOR-áætlunar verður viðkvæmur fyrir árásum skærusveita. Ólíklegt er að það sem hendir í Xinjiang verði um kyrrt í Xinjiang.
Skammstöfunin OBOR stendur fyrir One Belt, One Road, sem er ensk þýðing á hinu opinbera heiti áætlunar kínverskra stjórnvalda um alþjóðanet vöruflutninga og viðskipta. Áætlunin hefur einnig verið nefnd hinn nýi Silkivegur.
Áformin voru fyrst kynnt til sögunnar undir þessu heiti árið 2013. Hugtakið hefur síðan þá orðið kjarnaþáttur í stefnumótun kínverskra stjórnvalda. Í byrjun ársins 2017 hófust beinir lestarflutningar á milli Kína og Bretlands, sem er liður í OBOR-áætluninni. Áformað er að ferðin, sem nú tekur 17 daga, verði að endingu stytt í þrjá daga, með háhraðalest endanna á milli.
Með vegum, járnbrautum og sjóleiðum er OBOR ætlað, áður en yfir lýkur, að ná til 4,4 milljarða íbúa 68 landa.