Án mötuneytis, bókasafns, æfingaaðstöðu og aðgengis fyrir fatlaða: nemendur í sviðslistum borga ekki
Aðgengi fyrir fatlaða er ekki til staðar í húsnæði sviðslistadeildar Listaháskólans við Sölvhólsgötu 13 og notendur hjólstóla útilokaðir frá námi við deildina. Húsnæðið er sýkt af myglu og hefur að hluta verið lokað þess vegna, þar lekur úr skolprörum, þar er engin les- eða vinnuaðstaða, mötuneytið hefur verið lagt niður, bókasafninu verið lokað og æfingaaðstaða dansnemenda er í óeinagruðum skúr. Nemendum er ítrekað rutt úr vegi til að rýma fyrir notkun utanaðkomandi aðila á því húsrými sem þó er til staðar, um leið og nemendur sjálfir hafa hýst erlenda kennara þar sem skólinn hefur ekki séð þeim fyrir húsnæði. Á sama tíma og þjónusta skólans og aðstaða nemenda hefur verið skorin niður hafa skólagjöld hækkað, en þau eru nú 265.000 krónur á önn.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í bréfi nemenda deildarinnar sem þau afhentu stjórnendum Listaháskólans á mánudag, um leið og hópurinn lýsti því yfir að þau hygðust ekki greiða skólagjöld þar til bætt hefði verið úr og skólinn standi við skuldbindingar sínar. „Við teljum okkur hafa verið svikin um þá þjónustu og aðstöðu til náms sem okkur var lofað,“ segir í bréfinu. Þar með hafi orðið „alger forsendubrestur“ í „viðskiptasambandi“ nemendanna við skólann.
Nemendur lásu bréfið upp við afhendingu þess til Fríðu Bjarkar Ingvarsdóttur, rektors LHÍ. Bréfið í heild sinni má lesa hér að neðan.
Opið bréf nemenda sviðslistadeildar til stjórnar Listaháskóla Íslands
Við, nemendur sviðslistadeildar Listaháskóla Íslands, hyggjumst ekki greiða skólagjöld vorannar 2018. Slæm aðstaða deildarinnar og síversnandi þjónusta við nemendur deildarinnar kemur í veg fyrir að við getum stundað nám í okkar listgreinum eins og lagt var upp með þegar skólaganga okkar í Listaháskóla Íslands hófst. Við teljum okkur hafa verið svikin um þá þjónustu og aðstöðu til náms sem okkur var lofað. Þessi aðgerð er því ekki aðeins gerð í mótmælaskyni til að hreyfa við stjórn og stjórnendum skólans, heldur á grundvelli þess að alger forsendubrestur hafi orðið í viðskiptasambandi okkar við skólann.
Árum saman hafa nemendur sviðslistadeildar kvartað yfir slæmum aðbúnaði og þjónustu við sig án þess að komið hafi verið til móts við þá með fullnægjandi hætti. Þvert á móti hafa aðstæður nemenda á sviðslistadeild versnað samhliða því að skólagjöld hækka með hverju ári sem líður. Þolinmæði okkar er á þrotum. Okkur er því sá einn kostur fær að halda eftir skólagjöldum þessarar annar enda um alvarlegan forsendubrest að ræða af hálfu skólans. Auk þess hyggjumst við ganga út úr skólanum eftir hádegi á afhendingardegi bréfsins, 29.janúar 2018, og mæta ekki í tíma í skólanum eftir hádegi í mótmælaskyni. Við biðjum stjórn skólans að taka afstöðu til kröfunnar og birta okkur rökstudda ákvörðun sína fyrir mánudaginn 5.febrúar.
Fyrrnefndur forsendubrestur felst meðal annars í eftirfarandi:
Húsnæði Listaháskólans við Sölvhólsgötu 13 hentar hvorki til reksturs háskóla né til iðkunar sviðslista:
- Aðgengi fyrir fatlaða er ekki til staðar. Umsækjendur í nám við deildina sem notast við hjólastól, svo dæmi sé tekið, geta ekki mætt í inntökuprufur sem haldnar eru í skólanum og hafa því engan möguleika á að stunda nám við deildina. Þetta er brot á lögum nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks og lögum nr 63/2006 um háskóla.
- Sölvhólsgata 13 hefur árum saman verið sýkt af myglu. Nemendur skólans sátu kennslustundir í mjög heilsuspillandi rýmum í fjölmörg ár. Nú hefur hluta húsnæðisins verið lokað, þ.m.t. nemendaaðstöðu og fræðistofum. Tónlistardeild hefur verið flutt í annað húsnæði en sviðslistadeild situr eftir í sama, sýkta húsnæðinu.
- Auk myglunnar er húsnæðið að mörgu öðru leyti í niðurníðslu. Svo dæmi sé tekið er daglegt brauð að leki úr skólprörum og úr lofti í rýmum skólans. Loftræstingu í rýmunum er verulega ábótavant.
- Í húsnæði deildarinnar er engin les- eða vinnuaðstaða. Stór hluti náms sviðslistanema er fræðilegur, en nemendur hafa enga aðstöðu í húsinu eða nærliggjandi húsum til þess að stunda þann hluta námsins.
- Þegar núverandi nemendur skólans hófu nám var mötuneyti við skólann. Því hefur síðan verið lokað og því er nú ekkert mötuneyti í húsnæði sviðslistadeildar við Sölvhólsgötu.
- Ekkert bókasafn er í húsnæði sviðslistadeildar við Sölvhólsgötu. Þegar núverandi nemendur hófu nám var bókasafn til staðar, en það hefur síðan verið fjarlægt. Í dag hafa nemendur þann kost að panta bækur frá bókasafni skólans í Þverholti eða Lauganesi. Þær sendingar taka oft nokkra daga auk þess sem opnunartímar þeirra bókasafna gera það að verkum að nemendur komast ekki sjálfir á bókasafn utan kennslustunda.
- Önnur rými sem nemendur sviðslistadeildar hafa til notkunar í listsköpun sinni henta ekki við iðkun sviðslista. Dæmi um þetta er að dansstúdíó skólans er óeinangraður skúr.
Þjónusta við nemendur hefur farið mjög versnandi á sama tíma og skólagjöld hafa hækkað. Hér eru örfá dæmi sem lýsa miklu getuleysi skólans til að standa faglega og af heilum hug við sviðslistadeild LHÍ:
- Utanaðkomandi aðilar, sem hvorki eru nemendur né kennarar við skólann, fá ítrekað aðgang að rýmum sem nemendur greiða fyrir með skólagjöldum sínum og eiga að hafa til umráða. Nemendur hafa ítrekað verið án rýmis og hafa jafnframt þurft að víkja frá æfinga- og sýningarrýmum sínum vegna þessa.
- Mannekla. Einn tæknimaður starfar í þjónustu við tæplega 50 nemendur deildarinnar sem eru allir að vinna að sýningum á sama tíma. Einstaka nemendur hafa lagt á sig gríðarlega vinnu við að aðstoða aðra nemendur án þess að fá fyrir það einingar eða annars konar umbun.
- Búninga- og leikmunageymsla er mjög bágborin og í mýflugumynd. Nemendur fá ekki aðstoð eða aðstöðu til viðhalds og þrifa á þeim búningum og munum sem til eru.
- Mikil fækkun hefur verið á erlendum kennurum við dansbraut skólans. Nemendur dansbrautar telja sig illa svikna vegna þessa, enda er námið kynnt með þeim hætti að alþjóðlegt samstarf sé stór hluti af því.
- Skólinn býður ekki upp á sjúkraþjálfun og því þurfa nemendur að greiða háar fjárhæðir úr eigin vasa vegna meiðsla sem þeir verða fyrir í kennslustundum, auk þess sem þeir fá ekki sveigjanleika frá skólanum til að mæta til sjúkraþjálfara á skólatíma.
- Engin líkamsræktaraðstaða er fyrir dansnema og engin viðleitni er sjáanleg af hálfu skólans til þess að tryggja nemendum aðgang að slíkri aðstöðu.
- Nemendur hafa m.a. þurft að hýsa erlenda kennara vegna þess að skólinn hefur ekki getað séð þeim fyrir húsnæði. Þetta setur nemendur í mjög óeðlilega aðstöðu.
Við teljum okkur hafa verið svikin um þá þjónustu og aðstöðu til náms sem okkur var lofað. Við höfum öll ástríðu fyrir námi okkar og viljum gera allt til þess að stunda það af metnaði, en óviðunandi aðstæður gera okkur það nær ómögulegt. Listaháskólinn er eini skólinn á Íslandi sem kennir sviðslistir á háskólastigi og hafa metnaðarfullir nemendur því neyðst til að sætta sig við aðstæðurnar allt of lengi.
Nemandi innir af hendi greiðslu skólagjalda gegn því að háskólastofnunin uppfylli skilyrði til náms skv. 3. gr. laga nr. 63/2006 um háskóla. Núverandi ástandi verður ekki lýst með þeim hætti að LHÍ hafi staðið við skuldbindingu samkvæmt slíkum samningi (sjá 63/2006).