Héraðsdómur: Lögbann á Stundina ólöglegt – en varir þó enn
Lögbann sem embætti Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu setti á umfjöllun Stundarinnar um viðskipti Bjarna Bendiktssonar, nú fjármálaráðherra, sem byggði á gögnum frá þrotabúi Glitnis, er ólögmætt, samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í dag, föstudag. Lögbannið verður þó enn í gildi næstu þrjár vikur, hið minnsta, sem er sá frestur sem fulltrúar þrotabúsins hafa til áfrýjunar. Ákveði félagið að áfrýja helst lögbannið í gildi á meðan áfrýjunarferlið stendur yfir, eða hæglega fram til næsta árs.
Umfjöllunin sem er bannað að banna og bönnuð þó
Umfjöllunin sem var stöðvuð með lögbanninu var unnin í samstarfi Stundarinnar við Reykjavík media og breska dagblaðið The Guardian. Fréttirnar sem þegar höfðu birst þegar lögbannið tók gildi fjölluðu meðal annars um hlutafjáreign Bjarna sjálfs í Glitni; sölu hans á hlutunum árið 2008; viðskiptatengsl Bjarna og nánustu fjölskyldumeðlima hans við Glitni gegnum Sjóð 9; persónuleg kynni Bjarna og Lárusar Welding, bankastjóra Glitnis; tölvupóstsamskipti milli Bjarna og vina hans um félagið Falson sem skráð var á Seychelles-eyjum eins og komst upp um með birtingu Panama-skjalanna árið 2016; óheiðarleika Bjarna um aðild hans að Vafningsmálinu; kúlulán sem bankinn veitti Bjarna, föður hans, föðurbróður og fleirum til kaupa á Olíufélaginu sem nú heitir N1, á meðan faðir Bjarna, Benedikt Sveinsson, var sjálfur einn af stærstu hluthöfum Glitnis, en föðurbróðirinn, Einar Sveinsson, stjórnarformaður bankans.
Með lögbanninu var þessi fréttaflutningur stöðvaður fram yfir þingkosningar – og nú töluvert lengur en svo.
Elskið okkur!
Íslensk stjórnvöld og nánustu aðstandendur þeirra láta sig nokkru varða hvernig er um þau rætt í fjölmiðlum, en í grein Kristins Hrafnssonar sem birtist á vef Stundarinnar í dag má lesa um útgjöld íslenska ríkisins fyrir almannatengslaþjónustu í erlendum miðlum. Að auki hefur Ísland frá árinu 2010 verið á meðal þeirra ríkja sem reka ígildi ráðuneytis til ímyndarsköpunar í erlendum miðlum. Skipuleggja stjórnvöld, fyrir atbeina Íslandsstofu, heimsóknir hundruða erlendra blaðamanna til landsins árlega, til þess að hafa bein áhrif á hvernig um Ísland er rætt á alþjóðavettvangi.