Ísland með í fjölþjóðlegu herliði í Eistlandi: Gæslan leggur til einn hermann, segir NATO
Landhelgisgæsla Íslands leggur til einn hermann í sameiginlega herafla Atlantshafsbandalagsins (NATO) í Eistlandi.
Á síðasta ári juku aðildarríki NATO hernaðarlega viðveru sína í Eystrasaltslöndunum þremur auk Póllands, að sögn til að bregðast við þeirri hættu sem bandalagið telur stafa af vaxandi hernaðarlegri getu Rússlands og mögulegum vilja þarlendra yfirvalda til innrása. Áætlunin var smíðið árið 2016 og hefur verið kynnt undir yfirskriftinni „NATO’s Enhanced Forward Presence“.
Í kynningargögnum bandalagsins eru fjölþjóðlegu sveitirnar sem nú eru í viðbragðsstöðu í löndunum fjórum nefndar battlegroups, eða bardagasveitir. Fjölþjóðlega bardagasveitin í Eistlandi er skipulögð undir forystu Bretlands, sem leggur til 800 hermenn. Frakkland leggur til 300 hermenn, Danmörk 5 og Ísland, sem fyrr segir, einn. Sá íslenski er í kynningargögnum bandalagsins sagður með foringjatign og starfa á sviði strategískra samskipta.

Íslenski hermaðurinn í fjölþjóðlegu bardagasveitinni í Eistlandi er sagður með foringjatign í gögnum NATO.
Á Íslandi er Landhelgisgæslan skilgreind sem borgaraleg löggæslustofnun, til aðgreiningar frá hernaðarlegum stofnunum. Örðuglega hefur gengið að ná sambandi við talsmenn varnarmálaskrifstofu Utanríkisráðuneytisins til að fá úr því skorið hvort skilgreiningin á stöðu íslenska starfsmannsins sem hermanns, í kynningargögnum NATO, er röng, eða, sé hún rétt, hvort þar fer þá eini núverandi hermaður lýðveldisins.