Logn og ládauður sjór …
Hafið eftir Ólaf Hauk Símonarson er eitt af fáum leikverkum íslenskum, sem gerist í sjávarplássi og fjallar um fiskveiðar sem grundvöll lífs þar – söguþráður er spunninn kringum hvernig útgerðarmaðurinn Þórður ætlar að ráðstafa eigum sínum og hvaða áhrif sú ákvörðun hefur á börn hans, sambýliskonu og þorpið allt. Í verki Ólafs Hauks er sleginn raunsæistónn svo um munar – það er óhætt að segja að við þekkjum allt þetta fólk, sem birtist á leiksviðinu: Þórð útgerðarmann, sem hefur afkomu sjávarþorpsins í hendi sér, Kristínu sambýliskonu hans, sem hefur fórnað sér fyrir eiginmann, börn og heimili, börnin, uppkomin, tvö af þremur flutt suður og hafa auðvitað mismunandi viðhorf til upprunans: Haraldur elstur, orðinn forstjóri útgerðar og fiskvinnslu undir eftirliti og stjórn föðurins, Ragnheiður kvikmyndaleikstjóri, drykkfelld, Ágúst, tónlistarmaður og bóhem. Eiginkona Haraldar rekur tískuverslun í þorpinu, eiginmaður Ragnheiðar er kvikmyndaklippari; auk þess er að finna sjómanninn Berg, uppeldisson Þórðar og Kristínar og Maríu, dóttur Kristínar.
Í leiksýningu Þjóðleikhússins nú er sleppt nokkrum persónum, sem voru upphaflega til staðar; ekki er gerð grein fyrir því í leikskrá eða á heimasíðu hver er ábyrgur fyrir þeim breytingum.
Hafið er að mörgu leyti vel skrifað og lunkið leikrit. Það tekur á viðfangsefninu – fiskveiðiþjóðinni, kvótakerfinu, sjávarplássinu – af góðri þekkingu og virðingu, sem er vel. Það er í því að finna sterkan pólítískan brodd, sem á jafn brýnt erindi við samtímann nú eins og þegar verkið var frumflutt fyrir aldarfjórðungi. Því miður hefur ekkert breyst hvað varðar þann grundvallarvanda sem er meginþráður verksins – kvótakerfið og hvernig höndlað er með það af misvitrum útgerðarmönnum og fjármálajöfrum og einkum þó afkomendum þeirra.
Höfundi er annt um persónur sínar en mætti á köflum styrkja þær og styðja með því að gefa ítarlegri upplýsingar um þær, svona einsog til að efla þær og styrkja trúverðugleika þeirra. Það mætti til dæmis vel koma fram hvort þau Ragnheiður og Ágúst séu farsælir listamenn eða eingöngu lukkuriddarar – en í sýningu Þjóðleikhússins er því miður frekar lögð áhersla á einkenni hins síðarnefnda, einkum í búningum og gerfum en ekki síður látbragði og textameðferð. Á köflum er eins og búningarnir beri karakterstúlkun leikaranna ofurliði og virkar mjög einkennilega. Jólasveinabúningur Guðmundar og búningur þeirra Áslaugar og Ragnheiðar eru kannski skýrustu dæmin um þessa skekkju í karakterstúlkun. Búningarnir skapa týpur, ekki karaktera af holdi og blóði, og búningar af þessu tagi ýta undir ofleik.
Þessi skekkja er raunar til staðar að sumu leyti í replikkum persónanna einnig og má segja að þetta sé einkenni á verkinu frá höfundar hendi – textinn er hversdagslegur og leikarar og leikstjóri þurfa raunverulega að sækja dramatíkina í allt það sem undir býr. En hér er látið nægja að persónur verksins slengja ansi oft fram orðskeytum í hálfkæringi, eins og til að vekja kátínu áhorfenda, en af því ekkert er látið búa undir missa þær fyrir vikið möguleikann á því að taka þátt í dramatískri framvindu verksins. Þarna ræður leikstjórnin miklu; þagnir, tempó og áherslur í framsetningu replikku ráða öllu um hvernig skilja beri orð og æði persónanna, en í sýningu Þjóðleikhússins er yfirleitt valin sú leið að ýta undir gamansemina og reyna að glæða hana dýpt. Sem ekki tekst. Með þeirri lögn er eins og botninn detti úr þeirri dramatík sem þó býr undir í verkinu – að einn maður ráði örlögum þorps í krafti kvótakerfis. Það hygg ég sé lykillinn að skilningi á verkinu og raunveruleikanum sem það segir frá – Hafið gerist í heimi guða og hálfguða, svo talað sé á mýtólógísku plani. Og guðirnir eru að deila um það hver á drottna í krafti hins guðlega valds.
Þess vegna er mér með öllu óskiljanlegt af hverju heimkynni Þórðar og Kristínar eru sett niður á bryggju, niður á síldarplan, sem leikmyndin ber svo dám af. Hringsviðið er nær undantekningarlaust notað til þess eins að skipta um svið, en hreyfing þess nánast aldrei nýtt í þágu dramatískrar framvindu. Auk þess er leikmyndin að verulegum hluta gangar og millisvæði, sem nýtast illa og hið opna rými, bryggjan, þar sem sér yfir allt húsið innandyra jafnt og utan stingur í stúf við raunsæið sem einkennir textann, söguna og leikinn. Lýsingin nær ekki heldur að skapa dramatík og kannski má segja að dramatísk framvinda sé ekki sterkasta hlið sýningarinnar yfir höfuð. Á köflum er eins og hún sé sett upp eins og röð af sketsum – það verður ekki vart við að eitthvað gerist eða breytist þegar ný persóna kemur til leiks, það er eins og ekkert komi neinum á óvart, engin leyndarmál afhjúpuð. Þegar Þórður segist hafa vitað allan tímann að Ágúst sonur hans sé að slæpast í Berlín, þá er eins og allir hafi vitað að hann myndi ljóstra upp um það. En sú vitneskja – meðal annars – hefur kallað fram þörf hjá Þórði að taka ákvörðun um framtíð síns veldis og auðvitað má búast við því að það kalli á viðbrögð barna hans og tengdabarna. En engum bregður í brún.
Hér má vel nefna þann ágalla sýningarinnar sem verstur er og alltof áberandi, en það er talandinn – hér tala nær allir af sama styrk, á sama hraða og í sama tón, og það er einfaldlega hvorki trúverðugt né þjónar það sýningunni. Fátt er betur fallið til að draga úr dramatík og spennu en þegar það verður eintóna og það getur enginn einn leikari unnið sig upp úr þeim málfarsdoðanum nema stinga verulega í stúf við heildina. Hér hefði þurft skarpari heyrn leikstjóra til að forða leikurum frá þessu, en það er, eins og oft hefur verið áður á bent, eins og séu álög á íslensku leikhúsi hvað varðar meðferð hins talaða máls.
Það má nú samt vel njóta leiksins og hafa gaman af Hafinu. Sýningin er ágæt afþreying og söguþráðurinn nægilega sterkur til að halda áhuga og athygli áhorfandans við efnið. Leikurinn er yfirleitt góður; Þröstur Leó er trúverðugur í hlutverki Þórðar, Elva Ósk kemur vel fyrir í hlutverki Kristínar – og mætti sjást oftar á leiksviði. Baldur Trausti Hreinsson býr til fallega mynd af elsta syninum, sem axlar ábyrgðina á rekstri fjölskyldufyrirtækisins. Svo eitthvað sé nefnt.
En þegar upp er staðið er eins og niðurstaða þess vanda, sem líf allra hefur snúist um sé heldur snautleg. Þar sem guðirnir deila í handriti höfundar, lendir saman í sýningu Þjóðleikhússins fremur illa upp öldum systkinahópi, systkinunum hvert við annað og þeim öllum við föður sinn um arfinn og auðæfin. Manni verður á að hugsa, að best sé að brýna fyrir útgerðarmönnum að ala börnin sín vel upp svo ekki fari illa. En þannig leysast engin samfélagsmein, rætur þeirra eru dýpri en að muni uppeldi á afkvæmum útgerðarmanna.
Þjóðleikhúsið: Hafið
Höfundur: Ólafur Haukur Símonarson
Leikstjórn: Sigurður Sigurjónsson
Leikmynd: Finnur Arnar Arnarson
Búningar: Þórunn María Jónsdóttir
Lýsing: Ólafur Ágúst Stefánsson
Tónlist: Guðmundur Óskar Guðmundsson og fleiri
Hljóðmynd: Kristján Sigmundur Einarsson og Guðmundur Óskar Guðmundsson
Myndband: Ingi Bekk
Leikendur: Þröstur Leó Gunnarsson, Elva Ósk Ólafsdóttir, Guðrún S. Gísladóttir, Baldur Trausti Hreinsson, Birgitta Birgisdóttir, Sólveig Arnarsdóttir, Snorri Engilbertsson, Baltasar Breki Samper, Oddur Júlíusson, Snæfríður Ingvarsdóttir