Staða Norðurlanda 2018: Brotthvarf úr skólum langmest á Íslandi
Tæpur fimmti hluti (19,8%) íslenskra ungmenna hverfur frá skólagöngu án þess að ljúka framhaldsskólanámi. Það er tvöfalt hærra brottfall en að meðaltali í löndum Evrópusambandsins (10,7%). Á hinum Norðurlöndunum er brottfall hvergi í líkingu við það á Íslandi. Í Noregi er það mjög nálægt meðaltali ESB, eða 10,9%. Í Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi er brottfallið almennt enn lægra, eða 7–8%. Þetta kemur fram í nýútkominni skýrslu Norræna ráðherraráðsins um stöðu og þróun norrænna samfélaga.

Brotthvarf úr skólum fyrir lok framhaldsskóla, skv. skýrslu Norræna ráðherraráðsins State of the Nordic Region 2018.
Vandinn: of mikil vinna, ónógur stuðningur
Í skýrslunni er veitt sú skýring að stuðningur við námsmenn sé með öðrum hætti á Íslandi en hinum Norðurlöndunum: á Íslandi hafi margir unglingar aðgang að störfum og þurfi að vinna til að fjármagna nám, félagslíf og aðra þætti. Sú staða geri námsframvindu íslenskra ungmenna berskjaldaðri fyrir raski en jafnaldra þeirra á hinum Norðurlöndunum, sem almennt séu ekki háð störfum samhliða námi.

State of the Nordic Region – skýrsla ráðherranefndarinnar 2018. Sækja hér.
Karlar í dreifbýli mesti áhættuhópur
Í öllum löndunum er bæði búseta og kyn stór áhrifaþáttur á brottfall: á Íslandi hverfa um tvöfalt fleiri frá skólagöngu án þess að ljúka framhaldsskóla í dreifbýli (32%) en innan borgarmarka Reykjavíkur (16%).
Í öllum löndunum er brottfall meira meðal karla en kvenna. Kyn nemenda hefur þó enn meira að segja um námsframvindu á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum: á Íslandi heltast 51% fleiri karlkyns nemendur úr lestinni fyrir lok framhaldsskóla en kvenkyns nemendur, samanborið við 28–45% í hinum Norðurlöndunum.
Ljósmynd úr Þjóðarbókhlöðu: Jökull Sindri, á Twitter.