Um frelsunarbaráttu verkakvenna

Sólveig Anna Jónsdóttir
Sólveig Anna Jónsdóttir skrifar:
Meginstraumsfemínisminn hefur brugðist láglauna og verkakonum með því að setja allan efnahagslegan fókus á tæknileg úrlausnaratriði innan arðránskerfisins, eins og kynjakvóta í stjórnir fyrirtækja og að konur sem kjósa að ferðast eftir framabrautum kapítalismans þurfi ekki að sætta sig við að karlaklíkur komi í veg fyrir að þær njóti sama aðgangs og þeir að auðnum sem verður til í samfélaginu.
Enginn fókus hefur verið á efnahagslegar aðstæður lágstétta og verkakvenna, þrátt fyrir að augljóst sé að án efnahagslegs réttlætis og sanngirni til handa öllum konum er kvennabaráttan stórkostlega gölluð. Á meðan sú háværa krafa hefur verið uppi að allar konur, sama hvaða stétt þær tilheyra, standi með konum sem öðlast hafa pólitísk eða efnahagsleg völd, einungis vegna sama kynferðis, hefur engum dottið í hug að krefjast þess að konur úr forréttindahópum beiti sér fyrir bættum lífskjörum kvenna sem tilheyra neðri lögum samfélagsins. Enda gengur slík krafa þvert á hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar sem tröllríður öllu; að þau sem öðlist völd og eigi fjármagn geri það einungis vegna yfirburðahæfileika og dugnaðar.
Af hverju ættu konur sem komist hafa langt innan kapítalismans að hafa nokkurn áhuga á kjörum þeirra kvenna sem sjá um að vinna allar þessar gamaldags konuvinnur; að þrífa, gæta barna, annast gamalt fólk, annast veikt fólk o.s.frv., þegar arðrán kapítalismans gengur út á að ljúga því að sumt fólk sé minna virði en annað.
Af hverju ættu þær að berjast fyrir hagsmunum fjöldans sem halda verður í efnahagslegri gíslingu svo þær geti haldið áfram að hagnast á kerfinu? Af hverju ættu konur sem tilheyra auðstéttinni að vilja frelsa lágstéttarkonur úr efnahagslegri gíslingu ef það þýðir að auðstéttin þarf þá í kjölfarið að sætta sig við að deila kjörum með almenningi?
Í skugga þess að enginn aðgerðasinnaður og árangursmiðaður pólitískur fókus hefur verið settur á aðstæður láglaunakvenna hefur viðgengist viðbjóðsleg framkoma gagnvart þeim.
Þær eru nýttar sem vinnuafl af kapítalistum og nýttar til að reka þjónustu velferðarkerfisins af ríki og sveitarfélögum, sem sjá ekkert að því að borga þeim ekki mannsæmandi laun. Og það sem verra er; karllæg forysta þeirra eigin verkalýðsfélags sér bókstaflega ekkert athugavert við að selja að þeim aðgang með afsláttarkjörum, að taka þátt í því að halda lísfskjörum þeirra niðri.
En nú eru runnin upp tímamót.
Augljóst er að í þeirri miklu kvenfrelsisbylgju sem nú gengur yfir heiminn, þar sem jafnvel þær konur sem tilheyra lágstétt stíga fram og segja af fádæma hugrekki frá raunum sínum, munu láglaunakonur nota tækifærið og krefjast réttar síns. Konur sem strita á Íslandi ætla ekki lengur að láta skilja sig eftir. Við ætlum að krefjast efnahagslegs réttlætis, við ætlum að reyna að koma okkur undan arðráninu. Okkar tími er kominn.
Því við getum ekki lengur litið undan hinni augljósu staðreynd:
Til þess að einhver árangur náist í baráttunni fyrir efnahagslegu réttlæti okkur til handa verðum við að stíga fram og heyja hana sjálfar. Það þýðir ekki lengur að bíða eftir því að einhver ranki við sér og sjái að ekki verður við óbreytt ástand unað. Aðstæður okkar batna aldrei, sama hver fara með völdin. Hið hefðbundna vinstri á Íslandi hefur yfirgefið okkur, hægrið hefur aðeins pláss fyrir konur sem samþykkja leikreglur arðránsins og karlarnir í forystu Eflingar sjá okkur ekki einu sinni.
Ef við viljum taka þátt í baráttunni fyrir frelsun kvenna þurfum við að stíga inn á svið verkalýðsbaráttunnar og berjast, af eldmóð, fyrir eigin hagsmunum. Aðeins þá munum við ná árangri í baráttu okkur fyrir bættum kjörum.
Stöndum sameinaðar í átökunum og leyfum röddum láglaunakvenna loksins að heyrast.
Sólveig Anna Jónsdóttir býður sig fram til formannsembættis stéttarfélagsins Eflingar. Kosið verður 5. og 6. mars en þegar er hægt að kjósa utan kjörstaða. Greinin birtist fyrst sem færsla á Facebook-síðu framboðsins Vor í verkó. Ljósmynd: af vefsíðu Eflingar.