Magalending þríleiksins
Það var ætlun undirritaðs að sleppa því að birta umsögn um Risaeðlurnar, enda líður að lokum sýningartímabilsins. Þó hefur það ekki verið algild regla þessa gagnrýnanda; í nokkur skipti hefur hann jafnvel fjallað um sýningar sem horfnar voru af fjölum og hafa þá ýmis viðhorf legið að baki því. Gagnrýni á ekki bara að vera hugljúfur sölutexti, hún er einnig samræða við leikhúsið sjálft og áhorfendur þess. Eftir að undirritaður sá Slá í gegn verður þó ekki hjá því komist að fara nokkrum orðum um Risaeðlurnar. Þjóðleikhúsið virðist nefnilega eiga í vanda þegar kemur að listrænni stefnu og stjórnun og það hlýtur að verða kapps- og metnaðarmál stjórnendum hússins að tekið sé á þeim vanda. Það má því vel lesa greinar mínar um Risaeðlurnar og Slá í gegn sem eina og sem innlegg í þá umræðu; sýningarnar eru birtingarmyndir þessa vanda.
Í titlinum kemur ætlunarverkið fram: hér skal afhjúpað það, sem er gamalt, úrkynjað, spillt og rotið. Það er ekki laust við að maður finni til nokkurrar tilhlökkunar. Risaeðlurnar, þriðja leikverkið í trílógíu Ragnars Bragasonar, ætti að vera eðlilegt og rökrétt framhald á þeim tveimur verkum, sem hann hefur áður sett upp, að vísu í Borgarleikhúsinu: Gullregn og Óskasteinar. Gullregn tók á sumum meinum íslensks samfélags eins og bótasvindli og rasisma, meinfyndið verk en með dramatískum undirtón; Óskasteinar fjallaði um hóp ungra krimma í íslenskum smábæ sem leita skjóls í mannlausum leikskóla eftir rán sem endaði í tómu klúðri og gíslatöku. Bæði voru verkin unnin í spuna í samvinnu við leikarana en að sögn Ragnars Bragasonar, höfundar og leikstjóra beggja uppsetninga, fær leikarinn með þessari aðferð “rými til að gera eitthvað sem skiptir máli”. Að þessu sögðu má bæta því við að Ragnar hefur einnig leikstýrt margverðlaunuðu kvikmyndunum Börn og Foreldrar, sem báðar eru samfélagsgagnrýnin verk og stinga á samfélagsmeinum af sannfæringu og krafti.
Niðurstaðan af ofansögðu er auðvitað sú að væntingar voru miklar þegar Risaeðlurnar – þriðja og síðasta verkið í trílógíunni – voru settar á svið. Að þessu sinni þó í Þjóðleikhúsinu sem á þó varla að skipta meginmáli; Ragnar Bragason hefur ekki raðað í kringum sig neinum föstum leikarahóp heldur unnið með breytilegum hópi leikara og það er einfaldlega hluti af hans stíl og estetík. Ekkert þar, sem gaf fyrirboða um þá magalendingu, sem Risaeðlurnar því miður eru.
Risaeðlurnar gerist á heimili sendiherrahjóna í Washington; þau hjónin hafa boðið til sín ungri listakonu sem er á uppleið í listaheiminum og hún mætir til kvöldverðarboðs ásamt eiginmanni sínum, sem er augljóslega lítilsigldur og enginn áhrifavaldur í lífi hinnar ungu listakonu. Sendiherrahjónin, þau frú Ágústa og Elliði – nöfnin og titill hennar vísa nokkuð langt aftur í tíma! – eru leikin af Eddu Björgvinsdóttur og Pálma Gestssyni, listakonan unga er leikin af Birgittu Birgisdóttur en eiginmaður hennar af Hallgrími Ólafssyni. Þá er María Thelma Smáradóttir í hlutverki þjónustustúlku á heimili sendiherrahjónanna og loks er geðveill sonur þeirra, olnbogabarnið Sveinn Elliði, leikinn af Guðjóni Davíð Karlssyni.
Sýningin hefst á einskonar kynningu fyrir framan fortjaldið, sem virkar dálítið furðulega, en reynist vera forboði þess sem er vandi hennar – hér á greinilega að slá tvær flugur í einu höggi, og bera á borð fyrir áhorfendur gamanleik og drama í senn. Edda Björgvinsdóttir og Pálmi Gestsson eiga í hlutverkum hinna alkóhólíseruðu sendiherrahjóna að halda uppi fjöri og stuði meðan þjónustustúlkan og sonurinn – hvort um sig leyndarmál, líkt og væru þau óhreinu börnin hennar Evu – miðla því að innaní áfengisþoku sendiherrahjónanna dyljast leyndarmál og harmleikur sem kemur ekki ljós fyrr en hin metnaðarfulla OG hæfileikalausa listakona ásamt eiginmanni rekur atburðarásina af stað.
Hvað sem líður góðum metnaði, gengur þetta einfaldlega ekki upp. Edda og Pálmi beita kunnáttu sinni og geta af öryggi og tækni kallað fram hlátur með góðri kómískri tæmingu, þögnum og augngotum eins og við á. Þetta kunna þau, enda eru þau í hópi okkar reyndustu og færustu gamanleikara. Gallinn er bara sá, að þetta höfum við allt séð áður. Hér er ekkert, sem reynir á þau eða hvetur þau út úr þægindarammanum. Það er leitt að ekki sé meira látið reyna á leikara sem geta svo sannarlega skilað meiru. En þarna er ekki við þau að sakast –það er handritið sem er veikburða og vanmáttugt. Veikleikar handritsins verða enn meira áberandi þegar kemur að hlutverki sonarins og það verður bara að segjast eins og er, að hér hefði einhver þurft að koma höfundi og leikstjóra til hjálpar og skera Guðjón Davíð Karlsson niður úr þeirri snöru að þurfa að takast á við þetta ómögulega hlutverk.
Tími verksins – nútími – og hugmyndaheimur sonarins, foreldra hans og þeirra aðstæðna sem hann á við að glíma stangast gersamlega á. Sonurinn þjáist af meintri geðveilu og berst við þá staðreynd að foreldrar hans, sendiherrahjónin, vilja virðingar sinnar vegna fela hann undan sjónum umheimsins og neita að horfast í augu við þá staðreynd að þau hafi hunsað hann allt frá því að þessi meinta geðveila kom upp. Sonurinn telur sig aftur á móti í andstöðu við hinn falska heim foreldra sinna sem byggist á lygum og hjómi. Hann endar á því að kveikja í húsi foreldra sinna og lokamynd verksins er eitt logandi eldhaf – en það er eins og það skipti mann engu máli, sonurinn hefur ekki gripið mann, örlög hans varða mann engu og það er vegna þess hvernig hlutverkið er samið og við bætist lögn leikstjórans, sem dregur einnig úr hugsanlegum áhrifamætti leikarans. Við má bæta, að það er algert stílbrot að láta sendiherrann og eiginkonu hans – sjálf gamanhlutverkin!!! – verða eldi að bráð. Þannig að manni stendur eiginlega á sama um þau líka í eldhafinu.
Það er fyrst og fremst hin hugmyndafræðilega tímalína verksins sem er í molum. Hafi ætlunin verið að skapa farsa, sem byggir á þeim hugmyndum sem verður vart hjá klassískum höfundum þeirrar greinar leiklistar á síðastliðinni öld – Ray Cooney, Nöel Coward og fleiri slíkum – ja, þá hefði þurft að leggja aðrar línur þegar í kynningu á verkinu, jafnvel í markaðssetningunni. Og fylgja þeirri línu síðan í uppsetningunni. Sem endalok á þríleik um samfélagsleg málefni er Risaeðlurnar út í hött.
En jú, jú, það má greina pot hér og þar og í ýmsar áttir sem beinist gegn snobbi og siðgæðisskorti valda- og yfirstéttar og það er vissulega að finna skot og skilgreiningar sem alhæfa um afleiðingar þess á siðferði einstaklinganna og ofbeldi þeirra gagnvart þeim sem minna mega sín og það er svo sem gott og blessað. En hafi ætlunin verið að ljúka metnaðarfullum þríleik sem gæfi okkur skarpari sýn á samfélagsmeinin – jafnvel ábendingar um hvar hefja mætti meðalagjöfina til að breyta samfélaginu til hins betra – þá hefði þurft að taka handritið að Risaeðlunum ærlega í gegn og finna því stefnu og stíl sem hefði hæft þeirri fyrirætlan.
Það hefði jafnvel mátt velta því fyrir sér – þótt ekki sé meiningin hér að segja Þjóðleikhúsi og stjórnendum þess fyrir verkum – hvort ekki hefði verið farsælla að skipta hlutverkum höfundar og leikstjóra í tvennt. Með því að taka hvort tveggja að sér missir höfundurinn sinn fyrsta og mikilvægasta gagnrýnanda, leikstjórann, sem ber ábyrgð á því að leiksýningin verði heild sem standist skoðun og gagnrýni – og sem einnig ber, svo vitnað sé til orða þýska leikhúsmannsins Bertolds Brechts: að skemmta áhorfandanum.
Þjóðleikhúsið: Risaeðlurnar
Höfundur og leikstjóri: Ragnar Bragason
Leikmynd: Hálfdán Pedersen
Búningar: Filippía I. Elísdóttir
Lýsing: Jóhann Ágúst Friðriksson
Tónlist: Mugison
Leikarar: Edda Björgvinsdóttir, Pálmi Gestsson, Birgitta Birgisdóttir, Hallgrímur Ólafsson, María Thelma Smáradóttir, Guðjón Davíð Karlsson.