Vindhögg
Það hefur sennilega bara verið tímaspursmál hvenær einhverjum dytti í hug að taka lög Stuðmanna og gera þau að uppistöðu í söngleik – það eru nú orðnar að minnsta kosti tvær, ef ekki þrjár kynslóðir Íslendinga, sem hafa lifað með þessum lögum, trallað þau og sungið, dansað og híað og skoppað við þau og svo er ekki síður, að Stuðmönnum hefur tekist á undraverðan hátt að hafa puttann á púlsinum – eða hafa þeir kannski hreinlega verið sjálfur púlsinn? – og við, samferðamenn þeirra og viðhlæjendur, höfum séð okkur sjálf í þeim sögum sem þeir hafa sett á svið með leikrænum tilburðum – Tívolí, Sumar á Sýrlandi, Með allt á hreinu, hvort sem um ræðir tónverk á plötu, hljómleika eða kvikmynd. Sumsé, bara tímaspursmál hvenær einhver sæi þó ekki væri nema gróðavonina í að smala þessum tveimur, þremur kynslóðum í leikhús til að njóta tónlistarinnar, syngja með og þurfa svo ekki að pæla meira í því – hafandi fengið þónokkra skemmtun fyrir peninginn.
Það er í sjálfu sér ekkert að því og þeir sem sækjast eftir slíkri skemmtan geta farið með góðri samvisku í Þjóðleikhúsið og notið rúmlega tveggja tíma söngævintýris þar sem gripið er niður í stuðmannalögin frá öllum ferlinum, tvinnuð í kringum þau fremur einfaldur söguþráður um tívolígrúppu sem birtist í íslensku sveitaþorpi og getur ekki sett upp sýningu nema með aðstoð heimamanna, sem þó ætluðu að setja upp Gullna hliðið í samkomuhúsinu … og svo er glæsilegt músík- og dansatriði rétt fyrir hlé og annað enn glæsilegra og tilkomumeira í lokin.
Við þessa áhorfendur vil ég segja: njótið tónlistarinnar í velþekktum útsetningum og þar sem stuð- og reynsluboltarnir Örn Árnason og Ólafía Hrönn Jónsdóttir draga sýninguna rétt eins og sirkusvagninn með dyggri aðstoð fjölbreytilegs leikhóps sem flestir, ef ekki allir, reynast meira en vel liðtækir söngvarar líka: Jón Gnarr er Sigurjón digri og amatörleikstjóri Gullna hliðsins, Edda Björgvinsdóttir er Ólína, skeggjaða konan og kyntákn sirkussins að eigin mati, Sigurður Sigurjónsson er óviðjafnanlegur í hlutverki Séra Badda, Snæfríður Ingvarsdóttir og Sigurður Þór Óskarsson eru hið hugljúfa unga elskandi par sem saman nær að lokum, Hallgrímur Ólafsson er Kalli lögga með handbrúðuna sína, að ógleymdum þeim Esther Talíu Casey, Oddi Júlíussyni, Birgittu Birgisdóttur, Þóreyju Birgisdóttur í smærri hlutverkum og auðvitað Bjarna Snæbjörnssyni sem Herra Reykjavík. Í hlutverki Frímanns flugkappa var þetta kvöld Gói sjálfur, Guðjón Davíð Karlsson, sem hafði hlaupið í skarðið fyrir Hilmi Snæ Guðnason á þeirri sýningu, sem undirritaður sá.
Það þarf kannski ekkert að hafa flókinn eða rökréttan söguþráð í kringum það að njóta tónlistar Stuðmanna. Og það kom reyndar undirrituðum dálítið á óvart hvað tónlistararfur Stuðmanna er í raun fjölbreyttur og margvíslegur, með ýmsum undirtónum sem vel má túlka sem gagnrýni á menningu líðandi stundar; samt vel dulin í húmor og hugmyndaheimi Stuðmanna sjálfra – og mætti áreiðanlega rannsaka það og brjóta til mergjar en þó á öðrum vettvangi en hér.
Það þarf kannski heldur ekki að byggja flókinn söguþráð í kringum það að njóta fimi dansaranna, sem eru á iði um sviðið frá upphafi til enda; danshöfundurinn Chantelle Carey hefur stjórnað einvalaliði sem kann þá kúnst að halda uppi taumlausu fjöri og gleði; né heldur þurfa sirkuslistamennirnir kannski ekki heldur á neinum dýpri tilfinningum að halda í kringum sínar listir.
Hvað allt þetta varðar skiptir kannski bara mestu máli að fíla í botn allan þann græskulausa gáska, glys og glens sem fyrir augu ber og glaðning sem á borð er borinn – og skiptir þá engu að hvorki söguþráður haldi dramatúrgísku vatni né útfærslan standist gleraugnalausa gagnrýni.
En ef það viðhorf er hafið til skýja, að Stuðmenn séu ekkert nema græskulaust gaman, hopp og hí, gleymist að þeir eru fyrsti hópur listamanna sem rímar puð við stuð. Það rím – og ýmislegt fleira í tónum og töktum Stuðmanna – lýsir ákveðnu breytingaskeiði í íslensku samfélagi. Slá í gegn hefði kannski reynst betur kryddaður kokkteill ef horft hefði verið til þessa breytingaskeiðs, sagan hefði örugglega orðið sterkari og skemmtilegri og fléttan meira spennandi ef unnið hefði verið úr þeim efnivið. Og Þjóðleikhúsið hefði þá kannski staðið betur með sjálfu sér og rækt hlutverk sitt betur.
Sá, sem hér skrifar er fremur uppá hefðina hallur, það skal fúslega játað. Meðal þeirra hefða, sem okkar þjóð hefur reynt að byggja upp er leikhúshefð, sem styddi við og efldi þá menningu sem gerir okkur Íslendinga að þjóð. Í upphafi var að leiklist staðið af veikum mætti, en smám saman óx þessu samfélagi á hjara veraldar ásmegin og byggt var og stofnað Þjóðleikhús, sem með lögum fékk það hlutverk að rækja að rækta menninguna hér og veita inn í hana straumum úr öðrum menningarheimum.
Þessi hefð hefur frá upphafi starfsemi Þjóðleikhússins verið að mestu alveg sæmilega rækt og henni voru gerð ágæt skil á stóra sviði Þjóðleikhússins á síðastliðnu leikári, í Álfahöllinni, ágætri sýningu sem hafði húsið sjálft og drauminn um það sem útgangspúnkt. En í Álfahöllinni var líka tekið á því sem breyst hafði í okkar samfélagi – það var sýnt svo ekki var farið í grafgötur með það hvernig fjármálaöflin í landinu hafa á síðustu – og verstu! – tímum ýtt úr vör hofmóði sem illa klæðir þá þjóð sem forðum lét sig dreyma um og byggði sjálfa Álfahöllina. Því miður ber Slá í gegn þeim hofmóði sorglegt vitni. Sá hofmóður segir nefnilega “skítt með hugsun og heiður, menningu og mannleg gildi, sláum í leika sem fela að brauðið er bakað úr skemmdu mjöli”!
Viðmið sem þessi taka vitaskuld mið af aðstæðum. Og ef ekki hefði verið fyrir Þjóðleikhúsið og lagalega skyldu þess að rækta menningu okkar Íslendinga, hefði verið ástæðulaust að hnýta í Slá í gegn og þau vinnubrögð sem þar hafa verið viðhöfð. Hefði þetta verið skemmtisýning, glens og gaman í einkaleikhúsi hefði verið hægt að taka á henni fyrirvaralaust og vega hana og meta á hennar eigin forsendum. En nú erum við að ræða Þjóðleikhús, sem lýtur ákveðnum kvöðum og er að minnsta kosti að stórum hluta til kostað af almannafé.
Margt hefði að vísu mátt betur fara í Slá í gegn, hvar svo sem sýningin hefði verið sett upp og hvort sem hún hefði verið hluti af gróðastarfsemi einkaleikhúss eða vitnisburður um listræna stefnu þjóðarleikhúss. Ég nefni handritið, sem byggir á klisjukenndum hugmyndum sem ögra engum og ýta frekar undir fordóma en hitt. Slíkt er miður í hvaða samhengi sem er. Hér er beinlínis róið á mið viðurkenndra hugmynda, hleypidóma og staðalímynda; þar tala saman söguþráður og búningar. En handritið heldur engum þræði sem vit er í – og þegar hugsað er til alls þess sem hefði verið hægt að gera úr tónlist og söngvum Stuðmanna verður það þyngra en tárum taki og Slá í gegn fær á sig skólaleikritsblæ. Langt undir virðingu og gæðamörkum atvinnuleikhúss, hvað þá Þjóðleikhúss. Leikmyndin er líka frekar flausturlega hugsuð, hvergi er sómasamlegt rými né hugsað fyrir góðum sjónlínum fyrir dans- og sirkusatriðin, sem hefðu örugglega notið sín betur hefðu þau ekki horfið að miklu leyti í röravirkið sem er sirkusrýmið; þá var hún verri en kauðsleg, sviðslausnin með sirkusvagninn, sem var settur þétt við sviðsrammann hægra megin og átti að vera inngangurinn að hinum mikla ævintýraheimi sirkussins – sem var á miðju sviði. Ég fæ það bara ekki til að ganga upp, hvernig á að láta áhorfendur trúa því að fólk fari út af forsviði vinstra megin, inn í sirkusvagninn, til þess að ganga inn á mitt meginsviðið, aðalleikmyndina, beint fyrir framan áhorfendur. Sviðstæknin er sannanlega lengra á veg komin en þurfi að grípa til slíkra álappalegra lausna. Einkum þar sem sumt var býsna vel gert sviðstæknilega, t.d. fallbyssuskotið, óborganlegt fall Séra Badda ofan úr sviðsturni og niðrúr sviðsgólfi og svo aftur upp á svið.
Það mætti tína til fleiri dæmi um að Slá í gegn stenst engan veginn þær gæðakröfur sem gera verður til Þjóðleikhúss. Mér dettur þó hreint ekki til hugar að sakast hér við þá listamenn sem lagt hafa ómælda vinnu í sýninguna; það veit það hver, sem eitthvað hefur fengist við þá hverfulu gyðju, Þalíu, að um hennar ástir getur brugðið til beggja átta hið minnsta og það er ákaflega auðvelt að verða hugfanginn af verkefni, sem er í raun andvana borið.
Nei, hér er eingöngu við listræna yfirstjórn hússins að sakast. Í fyrsta lagi hefði verið lágmark að gera þá kröfu til handritshöfundar, fyrst verið var að taka á fyrirbærinu Stuðmenn á annað borð, að bregða nýju ljósi á það fyrirbæri; þessa mögnuðu hljómsveit, sem fæddist með leynd en varð svo að hvunndagsmúsík þjóðarinnar og aðals- og einkennismerki hverrar útihátíðar og sveitaballs. Svo er það einnig lágmark að sýningu sé fylgt eftir og að hún fái aðhald á æfingaferli, þannig að unnt sé að slaka á ef þarf, anda og sjá, hvort það sem að er stefnt, standist gæðakröfur. Því ítrustu gæðakröfur verða að vera viðmið þess leikhúss, sem hefur ákveðnum skyldum að gegna lögum samkvæmt gagnvart þeim sem borga brúsann – skattgreiðendum.
Svo er það kannski sérstakt umhugsunarefni fyrir yfirstjórn Þjóðleikhússins og stjórnvöld, sem fara með mennta- og menningarmál, ef skattgreiðendur láta sig litlu varða meginhlutverk þeirrar stofnunar sem á að vera einn af hornsteinum menningar okkar. Ekki kvartar miðasalan. En það er önnur saga.
Þjóðleikhúsið: Slá í gegn
Höfundur: Guðjón Davíð Karlsson
Tónlist: Stuðmenn
Leikstjórn: Guðjón Davíð Karlsson
Danshöfundur: Chantelle Carey
Tónlistarstjórn: Vignir Snær Vigfússon
Leikmynd: Finnur Arnar Arnarson
Búningar: María Th. Ólafsdóttir
Lýsing: Magnús Arnar Sigurðarson
Hljóðmynd: Kristinn Gauti Einarsson og Kristján Sigmundur Einarsson
Leikendur: Ólafía Hrönn Arnardóttir, Örn Árnason, Snæfríður Ingvarsdóttir, Edda Björgvinsdóttir, Jón Gnarr, Sigurður Þór Óskarsson, Sigurður Sigurjónsson, Esther Talía Casey, Hallgrímur Ólafsson, Oddur Júlíusson, Birgitta Birgisdóttir, Þórey Birgisdóttir, Guðjón Davíð Karlsson (fyrir Hilmi Snæ Guðnason), Bjarni Snæbjörnsson
Dansarar: Juliette Louste (dansstjóri), Ernesto Camillo Aldazabal Vildes, Hildur Ketilsdóttir, Bjarni Kristbjörnsson, Hjörtur Viðar Sigurðarson, Sölvi Viggósson Dýrfjörð
Sirkuslistafólk: Nicholas Arthur Candy (sirkusstjóri), Harpa Lind Ingadóttir, Sindri Diego
Hljómsveit: Vignir Snær Vigfússon, Karl Olgeirsson, Helgi Reynir Jónsson, Þorvaldur Þór Þorvaldsson, Róbert Þórhallsson, Aron Steinn Ásbjarnarson.