Elly, úr sýningu Borgarleikhússins, nær gullplötusölu
Borgarleikhúsið sendi frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu á miðvikudagsmorgun:
Leikhópur, hljómsveit og aðstandendur sýningarinnar Elly í Borgarleikhúsinu fengu afhenta gullplötu að lokinni sýningu á Stóra sviðinu síðastliðinn laugardag. Plata sem var gefin út með lögum úr sýningunni hefur selst í yfir 3000 eintökum, en selja þarf 2500 eintök til þess að fá gullplötu.
Á plötunni syngur Katrín Halldóra Sigurðardóttir, sem hefur slegið í gegn í hlutverki Ellyjar, valin lög úr sýningunni ásamt þeim Björgvini Franz Gíslasyni og Ragnari Bjarnasyni. Hljómsveit sýningarinnar sér um undirleik en hana skipa þeir Aron Steinn Ásbjarnarson, Björn Stefánsson, Guðmundur Óskar Guðmundsson, Sigurður Guðmundsson, hljómsveitarstjóri, og Örn Eldjárn.
Á laugardaginn var einmitt ár liðið frá því að sýningin var frumsýnd. Síðan þá hefur hún verið sýnd 138 sinnum, alltaf fyrir fullu húsi, og yfir 60 þúsund gestir komið á sýninguna. Þetta var síðasta sýningin á þessu leikári þar sem leikarar í verkinu taka nú þátt í öðrum sýningum í Borgarleikhúsinu. Katrín Halldóra og félagar mæta aftur á Stóra sviðið þann 7. september þegar sýningar á Elly hefjast að nýju.

Aðstandendur sýningarinnar með gullplöturnar.