Níu tyrkneskir námsmenn fangelsaðir fyrir að mótmæla innrásinni í Afrin
Á þriðjudag úrskurðaði dómstóll í Tyrklandi að níu háskólanemar sem mótmæltu innrás Tyrklands í Afrin skuli dvelja í gæsluvarðhaldi enn um sinn eða þar til réttað verður yfir þeim fyrir mótmælin. Þetta kemur fram í frétt frá Reuters. Mótmælin áttu sér stað þann 23. mars síðastliðinn.
Forsagan er sú að hópur nemenda við Bogazici háskólann í Istanbul hélt samkomu til að fagna innrásaraðgerð Tyrklands á yfirráðasvæði Kúrda í Sýrlandi. Til að fagna hernaðinum var meðal annars hefðbundnum tyrkneskum sætindum deilt meðal viðstaddra.
Annar hópur nemenda efndi þá til mótmælasamkomu gegn fögnuðinum, og sagði forsmán að styðja við innrás og fjöldamorð tyrkneska hersins í Afrin af léttúð. Mótmælasamkomuna má sjá á meðfylgjandi ljósmynd.
Erdogan heitir að halda „hryðjuverkakommúnistaunglingum“ frá námi
Erdogan, forseti Tyrklands, svaraði opinberlega með því að kalla mótmælendurna „hryðjuverkamenn“, og sagði að þeim yrði meinað að halda áfram námi. „Við munum finna þetta hryðjuverkanámsfólk með aðstoð frá myndbandsupptökum og gera það sem þörf krefur. Við veitum þessum hryðjuverkakommúnistaunglingum ekki rétt á að læra við háskólana,“ sagði hann einnig.
Formlega séð er ekki ljóst að forsetinn hafi vald til að hlutast til um ákvarðanir háskóla í landinu. Neyðarlög sem stjórn Erdogans virkjaði eftir umdeilda valdaránstilraun sumarið 2016, og hafa verið framlengd sex sinnum síðan þá, veita aftur á móti stjórnvöldum víðtækara vald en ella. Í janúar á þessu ári sátu 245 blaðamenn í fangelsum í Tyrklandi, og handtökuheimildir höfðu verið gefnar út á hendur 140 þeim til viðbótar.
Neyðarlög heimila varðhald í mánuð án sakargifta
Alls hafa 21 námsmenn verið handteknir fyrir mótmælin, en allir nema níu voru leystir úr haldi fram að réttarhöldum. Neyðarlögin heimila að lögregla haldi fólki í varðhaldi í mánuð án þess að tilkynnt sé um sakargiftir.
Saksóknaraembættið segir að námsmennirnir fimmtán hafi með mótmælunum sýnt stuðning við kúrdískar bardagasveitir og „látið sem tyrkneska lýðveldið og tyrkneski herinn hefðu efnt til innrásar og beitt ofbeldi, og stæðu þar með í ólögmætum aðgerðum á svæðinu“, hefur Reuters eftir tyrkneska fréttamiðlinum Hurriyet.
Ljósmynd fengin úr frásögn Shawn Carrie frá mótmælunum, á vefnum Middle East Eye.