Fjármálaáætlun: 3,5 milljarðar til „eflingar landamæravörslu“
Mesta hækkun útgjalda í fjárlögum næsta árs, miðað við fjármálaáætlun sem ríkisstjórnin lagði fram í vikunni, er á sviði „Almanna- og réttaröryggis“, eða sem nemur 13,8%. Í krónum talið hækka útgjöld til málaflokksins úr rúmum 25,1 milljarði á þessu ári í 28,6 milljarða árið 2019.
Yfir fimm ára tímabilið sem áætlunin nær til nemur hækkun útgjalda í málaflokknum 14,5% á meðalári, eða alls tæpum 18,2 milljörðum króna. Þyrlukaup Landhelgisgæslunnar vega þar þungt, en gert er ráð fyrir að um 14 milljörðum króna verði varið til þeirra á tímabilinu. Eftir stendur ósundurliðuð útgjaldaaukning sem nemur 4,2 milljörðum.
Málaflokkurinn snýst um löggæslu og skyld mál og nær til fimm undirsviða: löggæslu, landhelgi, ákæruvalds og réttarvörslu, réttaraðstoðar og bóta og fullnustumála. Rekstur dómstólanna telst ekki til þessa málefnasviðs, enda er gert ráð fyrir að útgjöld til þeirra lækki á tímabili áætlunarinnar. Til sviðanna löggæslu og landhelgi telst aftur á móti, meðal annars, landamæravarsla.

Grafið sýnir hlutfallslega þróun útgjalda einstakra sviða, frá fjárlögum ársins 2018 til áætlunar ársins 2019, samkvæmt fjármálaáætlun næstu fimm ára, sem ríkisstjórnin lagði fram nú í byrjun apríl. Veigamesta hækkunin milli ára er til „Almanna- og réttaröryggis“.
„Að bæta landamæravörslu og samþætta landamærastjórnun“
Í fjármálaáætluninni felst ekki jafn ítarleg sundurgreining og í fjárlagafrumvarpi, og er því ekki gegnsætt í hvaða undirflokka málasviðsins útgjaldaaukningin rennur. Þó má að nokkru leyti ráða í fyrirhuguð útgjöld af kynningartexta áætlunarinnar og öðrum fyrirliggjandi gögnum.
Í inngangstexta fjármálaáætlunarinnar um áherslur og stefnumið er hækkunin útskýrð með eftirfarandi orðum: „Er þar miðað að því að bæta landamæravörslu og samþætta landamærastjórnun, meðal annars á grundvelli skuldbindinga Íslands vegna Schengen-samstarfsins, auk áðurnefndra kaupa á þyrlum.“ Þá er sagt að framlög verði aukin um 800 milljónir króna „til að styrkja löggæslu, auk þess sem auknum fjármunum verður varið til rekstrar Landhelgisgæslunnar.“
5x hærri aukning til landamæravörslu en annarra þátta
Síðar í áætluninni, undir fyrirsögninni „Helstu útgjaldamál og breytingar eftir málefnasviðum“ segir ennfremur:
Meginbreyting á útgjöldum málefnasviðsins snýr að áformum um kaup á þremur nýjum þyrlum fyrir Landhelgisgæsluna í stað þeirra tveggja sem eru í leigu og þeirrar sem er í eigu gæslunnar. Áætlað er að verja samtals 14 ma.kr. á tímabilinu til kaupanna. Þá er gert ráð fyrir að verja 3,5 ma.kr. til að bregðast við alvarlegum aðfinnslum við landamæravörslu á grundvelli Schengen úttektar og tryggja þannig m.a. samkeppnishæfni alþjóðaflugvallarins í Keflavík.
Hafa þar með verið taldir 17,5 milljarðar af þeim 18,2 sem lagt er upp með að bætist við útgjöld sviðsins alls á tímabilinu. Eftir standa þá af hækkuninni um 700 milljónir króna í önnur mál, yfir fimm ára tímabil. Sem hluti hækkunarinnar sem eyrnamerktur er almennri löggæslu og öðrum verkefnum virðist því umtalsvert lægri, raunar um fimmfalt lægri alls, en þeir 3,5 milljarðar sem ætlaðir eru til eflingar landamæravörslu.
„Mikil áhersla lögð á eflingu viðbúnaðar lögreglu við landamæravörslu“
Ærið tilefni virðist til þessarar eflingar, ef marka má texta fjármálaáætlunarinnar. Á blaðsíðu 209 í skjali ríkisstjórnarinnar er aftur minnst á úttekt sem sögð er hafa farið fram árið 2017, „um hvernig Ísland uppfyllir skyldur sínar um fyrirkomulag og framkvæmd landamæravörslu á grundvelli alþjóðaskuldbindinga á vettvangi Schengen-samstarfsins.“
Niðurstaða úttektarinnar kvað, samkvæmt texta skjalsins, „á um tilmæli til íslenskra stjórnvalda um að leggja áherslu á málefni landamæra með það að markmiði að tryggja áreiðanlega, hagkvæma og skilvirka aðkomu íslenskra stjórnvalda í samstarfinu og tryggða örugga umferð um landamæri. Mikil áhersla er því lögð“, er loks ítrekað „á eflingu viðbúnaðar lögreglu við landamæravörslu“.
Ráðherra kallar fjölgun flóttafólks 2016 „Áhlaup á Ísland“
Vefslóð fylgir í neðanmálsgrein við setninguna um Schengen-úttektina frá síðasta ári. Slóðin vísar aftur á móti ekki á slíka úttekt eða skýrslu, heldur almennan upplýsingavef Stjórnarráðsins um Schengen-samstarfið. Nýjasta skjalið á þeim vef er, þegar þetta er ritað, skýrsla innanríkisráðherra frá árinu 2012.

Út glærum við erindi sem dómsmálaráðherra hélt á fundi félagsins Varðberg 4. maí 2017.
Fyrstu tilraunir til leitar að Schengen-úttektinni á vefum Stjórnarráðsins og Alþingis skiluðu ekki árangri. Skyld skjöl komu þó í leitirnar. Þar á meðal glærur frá erindi sem Sigríður Á. Andersen hélt á fundi félagsins Varðberg 4. maí á síðasta ári.
Erindi ráðherrans ber yfirskriftina „Borgaraleg öryggisgæsla“. Glærurnar eru merktar Dómsmálaráðuneytinu, ásamt ráðherra sjálfum, og virðist erindið því hafa verið flutt í nafni embættisins.
Á fyrstu glæru ráðherrans segir: „Öryggis- og varnarmál ekki síður innanríkismál en utanríkismál.“

Út glærum við erindi sem dómsmálaráðherra hélt á fundi félagsins Varðberg 4. maí 2017.
Á glæru með fyrirsögnina „Landamæravarsla“ má lesa: „Óhefðbundnir fólksflutningar yfir ytri landamæri Schengen-svæðis sérstök öryggisógn“.
Undir fyrirsögninni „Fordæmalaus fjölgun hælisleitenda“ kallar ráðherra þá fjölgun flóttafólks sem leitaði til Íslands árið 2016, líkt og annarra Evrópulanda, „Áhlaup á Ísland“.
„ Til vopna og búnaðarkaupa sérsveitar“
Loks er í skjalinu að finna glæru með fyrirsögnina „Viðbrögð“ þar sem ráðherra virðist setja fram einhvers konar áætlun. Birtist þar þessi upptalning:

Út glærum við erindi sem dómsmálaráðherra hélt á fundi félagsins Varðberg 4. maí 2017.
- Fjölgun í sérdeildum á sviði öryggismála
- Fjárveiting til vopna og búnaðarkaupa sérsveitar
- Farþegalistagreining
- Heimildir lögreglu á sviði hryðjuverkavarna
- Alþjóðasamvinna
- Aukið vægi móttökumiðstöðva fyrir hælisleitendur
- Löggæsluáætlun
Á meðan úttektin á uppfyllingu Schengen-samkomulagsins kemur ekki í leitirnar virðist þetta það næsta sem komist verður rökstuðningi, ásetningi og sundurliðun aukinna útgjalda til „almanna- og réttaröryggis“ á komandi árum: að í ljósi öryggisógnarinnar sem stafar af „áhlaupi“ flóttafólks á Ísland verði fjölgað í sérdeildum, fjárfest í vopnum og öðrum búnaði sérsveitar, ráðist í ítarlegri skimun farþegalista og breytingar á heimildum lögreglu til hryðjuverkavarna, meðal annars.