Leitin að Hauki: Óþekkt að lík þýskra sjálfboðaliða hverfi; Aðstoðin sem Merkel hét Katrínu skilar þó enn engu
Í dag, þriðjudaginn 10. apríl 2018, bárust Evu Hauksdóttur svör við fyrirspurn hennar til Utanríkisráðuneytisins frá 13. mars, um þau gögn sem ráðuneytið hefði aflað í eftirgrennslan um afdrif Hauks Hilmarssonar í Sýrlandi. Í svörum ráðuneytisins kemur meðal annars fram að engar upplýsingar hafa borist frá þýskum stofnunum, þrátt fyrir þá aðstoð sem Angela Merkel lofaði víst Katrínu Jakobsdóttur að veita í málinu.
Að neðan verður greint nánar frá þeim upplýsingum sem ekki hafa borist frá Þýskalandi, og þeirri reynslu sem Þjóðverjar hafa þegar af málum sem þessum. Þýskir ríkisborgarar hafa fallið við svipaðar aðstæður og Haukur Hilmarsson – en ólíkt tilfelli Hauks hefur hingað til aldrei, svo vitað sé, verið neitt á huldu um afdrif líkamsleifa þeirra.

Katrín Jakobsdóttir og Angela Merkel í Berlín.
Samskipti íslenskra stjórnvalda við Þýskaland
Þegar Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, heimsótti Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, þann 19. mars síðastliðinn, leitaði hún að sögn eftir liðsinni Þjóðverja í upplýsingaöflun um afdrif Hauks Hilmarssonar, sem sagt er að hafi látist í árás Tyrklands á Afrin-hérað í Norður-Sýrlandi. Í íslenskum fjölmiðlum var haft eftir Katrínu að Merkel hefði persónulega lofað henni aðstoð þýskra stofnana við leitina.
Fréttin af andláti Hauks barst 6. mars. Var hann þá sagður hafa fallið 24. febrúar. Enn hefur lík hans ekki fundist, né nokkrar upplýsingar um hvar það er niðurkomið. Þá hafa ekki komið fram bein vitni að andláti hans. Að sögn Evu Hauksdóttur, móður Hauks, lítur út fyrir að það sé vinnuregla innan sveita YPG/YPJ að líta svo á, þegar ekki hefur spurst til liðsmanns í tvær vikur eftir hernaðaraðgerð, að hann hafi fallið. Því virðist enn sem komið er um líkindi að ræða frekar en fullvissu.
Reynsla annarra ríkja af hliðstæðum málum getur augljóslega komið sér vel í upplýsingaöflun í þessu samhengi, enda íslensk yfirvöld reynslulítil þegar kemur að hernaðarátökum.
„… staðfestir að málið sé í skoðun“
Um samskipti íslenskra yfirvalda við þýsk yfirvöld, í þessu máli, kemur eftirfarandi fram í svörum ráðuneytisins til Evu:
19. mars: „Fundur forsætisráðherra og kanslara Þýskalands. Málið tekið upp og þýsk stjórnvöld beðin um aðstoð.“
5. apríl: „Sendiherra Íslands í Þýskalandi fær upplýsingar frá utanríkisráðuneyti Þýskalands um að verið sé að kanna málið en engar upplýsingar liggi fyrir.“
9. apríl: „Sendiherra Þýskalands staðfestir að málið sé í skoðun hjá þýskum stjórnvöldum og að sendiráði Íslands í Berlín verði haldið upplýstu“
Með öðrum orðum: þremur vikum eftir að forsætisráðherra segist hafa beðið um aðstoð Þýskalands hefur það eitt gerst að sendiherra Þýskalands staðfestir að málið sé í skoðun. Ekkert í svari ráðuneytisins bendir til að veruleg eftirgrennslan hafi átt sér stað eftir þessum boðleiðum, eða að íslensk yfirvöld hafi þrýst á um það að ráði.
Fjórir þýskir ríkisborgarar hafa fallið með YPG/YPJ
Að því er best var vitað fyrir um ári síðan höfðu 204 þýskir ríkisborgarar haldið til Sýrlands og Írak frá árinu 2013, til að berjast við hlið YPG/YPJ gegn ISIS. Af þeim höfðu þá 102 snúið aftur til Þýskalands.
Fjórir af þýsku sjálfboðaliðunum hafa, svo vitað sé, fallið í átökum á svæðinu, við hliðstæðar aðstæður og hermt er að Haukur Hilmarsson hafi fallið við. Í engu tilfellanna hefur neitt verið á huldu um afdrif líkamsleifa þeirra. Tilfellin eru eftirtalin:

Ivana Hoffmann.
Ivana Hoffmann
Fyrsti vestræni sjálfboðaliðinn með YPG/YPJ-sveitum Kúrda sem vitað er til að hafi fallið í baráttunni við ISIS í Sýrlandi, var Ivana Hoffmann, frá Duisburg í Þýskalandi, en hún var 19 ára gömul þegar hún lést þann 7. mars 2015. Var það í orrustu í Tal Tamr, í norðvesturhluta landsins. Leið Hoffmann til Sýrlands lá í gegnum hinn tyrknesk-kúrdíska kommúnistaflokk Marx-Lenínista.

Frá útför Ivönu Hoffmann.
Lík Hoffmanns var fært í hendur fjölskyldu hennar á landamærum Sýrlands og Tyrklands þann 12. mars, fimm dögum eftir andlátið. Þaðan var það flutt gegnum Tyrkland til Þýskalands þar sem útför hennar fór fram þann 14. mars. Heimildir herma að allt frá 500 til 6.000 manns hafi fylgt Hoffmann til grafar þann dag. Tímaritið Der Spiegel segir 2.000.
Samkvæmt frétt Spiegel um málið voru á þessum tíma 80 Þjóðverjar taldir staddir á átakasvæðum Sýrlands, sem þátttakendur í alþjóðasveitum Kúrda.

Kevin Joachim.
Kevin Joachim
Þann 6. júlí sama ár féll annar þýskur sjálfboðaliði í sveitum Kúrda, Kevin Joachim, í átökum nálægt borginni Kobane, við landamæri Sýrlands að Tyrklandi. Þá reyndust tyrknesk yfirvöld hafa breytt stefnu sinni um afhendingu líkamsleifa af svæðinu: mánuði eftir að Joachim féll var lík hans, ásamt líkum tólf tyrkneskra ríkisborgara sem börðust með YPG, enn í kæligeymslu flutningabíls við landamærin að Tyrklandi, sem landamæraverðir sögðust hafa fyrirmæli frá Ankara um að hleypa ekki yfir.
Í umfjöllun vefmiðilsins VICE á þeim tímapunkti kemur fram að utanríkisþjónusta Þýskalands hafi þá staðið í umleitunum gagnvart tyrkneskum yfirvöldum til að leysa málið. Það hefur lánast því þann 22. ágúst, rúmum mánuði eftir að hann féll, var Joachim borinn til grafar í Þýskalandi.

Gunter Helsten / Rustem Cudi.
Gunter Helsten
Þriðji Þjóðverjinn til að falla, sem sjálfboðaliði með YPG/YPJ-sveitum Kúrda, svo vitað sé, var hinn 55 ára gamli Gunter Helsten, fyrrverandi hermaður í þýska hernum, en hann lést í átökum við ISIS í grennd við bæinn al-Shadadi, í febrúar 2016. Af frásögnum að dæma virðist engum vafa undirorpið undir hvaða kringumstæðum hann lést, en hér segir til dæmis af andláti hans daginn eftir að það bar að garði, í grennd við Al-Shaddadi, í norðausturhluta Sýrlands.
Helsten er grafinn í sýrlenskum grafreit fallinna úr liði Kúrda, sem virðist heita í höfuð hans, kúrdíska nafninu sem hann gekk undir, Rustem Cudi.

Anton Leschek.
Anton Leschek
Fjórði þýski ríkisborgarinn sem féll í baráttu við hlið Kúrda í Sýrlandi, Anton Leschek, þá 24. ára gamall, féll aftur á móti ekki í átökum við ISIS, heldur í óvæntri loftárás Tyrklands, þann 24. nóvember 2016. Frá upphafi umfjöllunar um þann atburð í þýskum fjölmiðlum var vitnað í bein vitni að andláti Lescheks, félaga hans sem voru staddir í sömu aðgerð og hann þegar árásin var gerð. Alls létust tólf í árásinni, þar á meðal var einnig bandaríski sjálfboðaliðinn Michael Israel.
Meðfylgjandi myndband sýnir kveðjustund kúrdískra félaga þeirra, er kistur með líkamsleifum Israels og Lescheks eru fluttar frá Rojava áleiðis til aðstandenda hvors um sig.
Alltaf ljóst um afdrif líkamsleifa
Þetta eru þau fjögur tilfelli sem vitað er um, þar sem þýskir ríkisborgarar látast við hliðstæðar aðstæður og sagt er að Haukur Hilmarsson hafi fallið við. Þó er tilfelli Antons Leschek hliðstæðast, þar sem hann féll, líkt og hermt er um Hauk, í árás tyrkneska flughersins, en ekki í þeirri baráttu við ISIS sem hann hélt til þátttöku í.
Í engu ofantalinna tilfella hefur á neinum tímapunkti verið óljóst hvað varð um líkamsleifar hinna föllnu.
Keppni NATO-ríkja um linku í garð Tyrklands
Ulla Jelpke, þingmaður vinstriflokksins Die Linke, lagði fram fyrirspurn á sambandsþinginu, Bundestag, um viðbrögð þýskra stjórnvalda við þeirri árás tyrkneska flughersins sem varð Anton Leschek að bana. Að því er best fæst séð var þeirri fyrirspurn svarað með tómlæti:
Ríkisstjórn Þýskalands er ekki kunnugt um nákvæmar kringumstæður andláts þýska ríkisborgarans sem hér um ræðir. Þarafleiðandi hefur ekki komið fram tilefni til að taka andlátið til tals við tyrknesk stjórnvöld.
– Úr skjalafni þýska sambandsþingsins, 10. apríl 2017.
Frá því að Þýskaland brást ekki við árásinni sem felldi Anton Leschek hefur ríkisstjórn Angelu Merkel þó fordæmt aðgerðir Tyrkja gegn Kúrdum í Sýrlandi. Ekkert slíkt hafa íslensk stjórnvöld gert.
Hvort linka íslenskra stjórnvalda eða þýskra gagnvart ráðamönnum í Tyrklandi vegur þyngra í máli Hauks Hilmarssonar er ekki gott að segja að svo stöddu. Eftir stendur að 35 dögum eftir að fréttir bárust fyrst af andláti hans hafa þær ekki fengist staðfestar, og ekkert er vitað með vissu um hvar hann er niðurkominn, lífs eða liðinn.
Texti fréttarinnar hefur verið snyrtur eftir birtingu