Flótti Sindra: „Stundum eins og gæsluvarðhald sé enn notað til að þvinga fram játningu“ segir formaður Afstöðu
Sindri Þór Stefánsson, sem lögregla yfirheyrði í tengslum við Bitcoin-ránið mikla, en flaug til Svíþjóðar á þriðjudagsmorgun, eins og frægt er orðið, segist í yfirlýsingu sem Fréttablaðið birti í dag, í reynd hafa verið frjáls ferða sinna, lögum samkvæmt, enda hafi hann á þeim tímapunkti verið geymdur í haldi án gæsluvarðhaldsúrskurðar.
Í yfirlýsingunni segist Sindri Þór hafa verið látinn eða „neyddur til að“ undirrita skjal „sem stóð á að ég væri frjáls ferða minna en ef ég færi mundi ég gista í fangaklefa þar til framlenging á gæsluvarðhaldi væri samþykkt“. Sindri hafði á þeim tímapunkti setið 10 vikur í gæsluvarðhaldi, en hámarkslengd gæsluvarðhalds er að jafnði 12 vikur, þá nema sérstakar ástæður þyki til annars.
Kannast vel við að lögregla misnoti gæsluvarðhald
Við náðum tali af Guðmundi Inga Þóroddssyni, formanni Afstöðu, félags fanga, og spurðum hvort samtökin könnuðust við slík skjöl og að þeim sé oft beitt á meðan beðið er dómsúrskurðar. Guðmundur svaraði:
„Við könnumst vel við að lögregla misnoti heimildir sínar til gæsluvarðhalds. Jafnvel að einstaklingar séu handteknir þegar gæsluvarðhaldsúrskurður er fallinn úr gildi —og þá farið fram á nýjan gæsluvarðhaldsúrskurð. Þetta teljum við grófa misnotkun á heimildum lögreglu.“
Guðmundur segir samtökin einnig telja dómstóla á tíðum túlka heimildir til gæsluvarðhalds of vítt, „hvort sem það er vegna rannsóknar- eða almannahagsmuna og beiti því jafnvel þegar forsendur skortir. Oft eru engir rannsóknar- eða almannahagsmunir í hættu þó beitt sé gæsluvarðhaldi á þeim forsendum.“
Þá segir formaður Afstöðu að stundum sé „eins og gæsluvarðhald sé enn notað hér á landi í þeim eina tilgangi að þvinga fram játningar.“
Hafa ekki heyrt af svona skjölum þar til nú
Um skjalið sjálft segir Guðmundur samtökin ekki hafa heyrt af „slíkum skjölum þangað til núna“ en sé rétt með farið álíti samtökin „það ekki löglegt“. Sama gildi „ef einstaklingar eru vistaðir í fangelsi án úrskurða“. Hafi fangaverðir séð um slíkan verknað fyrir lögreglu séu fangaverðir ennfremur „komnir út fyrir sitt verksvið.“
Síðustu spurningu Kvennablaðsins, hvort samtökin viti til að einhvern tíma hafi reynt á lögmæti þessara skjala er sjálfsvarað þar sem ekki hafði spurst af tilvist eða beitingu þeirra þar til nú. Guðmundur svarar þó almennt um handtökur á milli gæsluvarðhaldsúrskurða:
„Ekki hefur verið reynt á lögmæti athæfis lögreglu þegar þeir handtaka einstaklinga á milli úrskurða svo við vitum til.“
Lögreglustjóri segir fangelsun milli varðhaldsúrskurða viðtekna venju
Lögreglustjóri á Suðurnesjum vísar til venju til að réttlæta það að lögregla hafi menn í haldi án gæsluvarðhaldsúrskurðar. Haft er eftir honum í frétt RÚV: „Ég tel að lögin séu algjörlega skýr um þetta og ofan á það bætist að þetta er viðtekin venja og hefur verið alla mína tíð“ (—skáletrun Kvennablaðsins).
Kvennablaðið reyndi að ná tali af Halldóri Vali Pálssyni, forstöðumanni fangelsisins Sogni, á föstudagsmorgun, til að spyrja hann um vinnubrögð og venjur, ekki síður en lög og reglur, um framkvæmd gæsluvarðhalds innan fangelsisins. Erindi okkar var ekki svarað.